mánudagur, 31. mars 2008

Orðakleppur IV - Undir árás

Fyrirsögnin á forystugrein Fréttablaðsins í dag er: Undir árás. Hún fjallar um grunsemdir manna um Soros-legt samkrull einhverra kaupahéðna gegn krónunni.

Ég veit eiginlega ekki hvar skal byrja með þetta - eða yfirhöfuð hvort segja þurfi meira. Ekki nema kannski það að er ekki laust við að maður sé í mikilli kvöl (sjá fyrri Orðaklepp) fyrir hönd tungunnar þegar svona er skrifað í víðlesnasta dagblað landsins.

fimmtudagur, 27. mars 2008

Á bananabeðnum

Ég sá þetta í hálffimm fréttum Kaupþings í fyrradag:
Yfirdráttarlán heimila bera skammtímavexti og hafa því breytingar á stýrivöxtum Seðlabankans strax áhrif á slíka vexti. Í dag standa stýrivextir í 15% og hafa ekki mælst hærri frá því Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið í ársbyrjun 2001. Háir vextir ættu að öðru óbreyttu að draga úr hvata heimila til frekari skuldsetningar. Ekki hefur þó dregið úr yfirdráttarlánum heimila svo marktækt sé og má í raun segja að frá því um mitt árið 2007 hafi slík lán verið fremur með leitni til aukningar í stokknum.
Þetta feitletraða vakti helst athygli.

Svo geta nokkur vel heppnuð goggl fyllt í myndir í kringum þessar flísar sem sitja eftir í kollinum á manni eftir lestur annars gleymds texta.

Samanber þessa frétt úr Mogganum í byrjun mánaðarins (7. mars):
Vélsleðasalan 50% meiri

Sala á vélsleðum hefur gengið vel í vetur og þakka vélsleðasalar það snjónum. Sölumönnum ber saman um að samsetning vélsleðasölunnar sé að breytast. Dregið hafi úr sölu á ferðasleðum en sala fjallasleða aukist. Það bendir til þess að þeim fjölgi sem nota sleðana sem leiktæki í styttri ferðum en að áhugi á löngum vélsleðaferðum hafi minnkað.
Aftur sat þetta feitletraða (fyrirsögnin) í mér.

Um þessar mundir getur maður svo ekki opnað sjónvarpið án þess að sjá Örn Árnason í havaí-skyrtu með málarahatt, sólskinsbrosandi. Hann hallar sér aftur í skræpótta hjólhýsainnréttingu, glaðbeittur og sællegur - gott ef ekki með hanastél með míniatúrregnhlíf, eða er minnið að skreyta myndina núna? - teygir handleggina makindalega eftir bakinu á settinu og dæsir Þetta er bara gaman! eða eitthvað ámóta. Hann er næstum eins og karakter úr David Lynch-mynd, mínus hrollur (og þó, kannski bara öðruvísi hrollur).

Svo á myntin að detta: ...kaupa hjólhýsi kaupa hjólhýsi kaupa hjólhýsi ekki seinna en núna strax á stundinni í einum hvínandi grænum helvítis hvelli helst í gær hvar er nafnspjaldið hjá þjónustufulltrúanum!

Þá brýst eitthvað um í manni sem reynist vera þetta (úr Blaðinu heitnu í sumar, 1. ágúst):
Brjáluð sala í hjólhýsum

Vegna blíðviðris hafa sumarvörur af öllum stærðum og gerðum rokið út úr fyrirtækjum og Íslendingar keppst við að birgja sig upp af vörum sem henta heitasta tíma ársins. Sala hjólhýsa sem og húsbíla og fellihýsa hefur stóraukist og verið með ólíkindum það sem af er sumri.

„Það er búin að vera brjáluð sala og geysileg eftirspurn eftir hjólhýsum," segir Arnar Barðdal, framkvæmdastjóri Víkurverks. Hann bætir því við að hjólhýsin hafi algerlega slegið í gegn hjá þjóðinni, þó einnig seljist talsvert af húsbílum og fellihýsum.

Rúmlega helmingur fólks borgar með bílalánum. Hinir staðgreiða ýmist eða setja gamlan tjaldvagn eða fellihýsi upp í nýtt hjólhýsi og nota það sem útborgun. Hægt er að fá 100% lán fyrir herlegheitunum og margs konar greiðslumöguleikar eru mögulegir.

Þarf að feitletra eitthvað af þessu?

Jæja, nóg af upptalningu. Þessar tilvitnanir segja ákveðna sögu um þjóðarsálina blessuðu.

Er það bara ég eða hefur það ef til vill hent fleiri að setja í huganum stórt upphrópunarmerki við það þegar maður sér að þrátt fyrir gengishrunið, vöruskiptahallann, vaxtabrjálæðið, þensluna og allt það, já þrátt fyrir efnahagsástandið eins og það er og óþarfi er að útmála frekar, er fólk enn ófeimið við að botna yfirdráttinn eins og enginn sé morgundagurinn? Eða getur verið að vilji hafi ekkert með það að gera, að fólk eigi engra kosta völ? Ef svo er er ástandið sannarlega verra en maður hafði ímyndað sér.

Og varðandi þessar auglýsingar sem gera sitt ítrasta til að pranga hjólhýsum og allra handa færanlegum híbýlum inn á fólk: ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að jarðvegurinn sé jafnfrjór og hann greinilega var síðasta sumar miðað við umfjöllunina í Blaðinu hér ofar. Örn Árna eða enginn Örn Árna - kaupir einhver hjólhýsi þegar fasteignin hans, sem kannski var aldrei að neinu leyti í hans eigu, er komin í mínus, jafnvel?

Nema hér sé verið að herja á nýjan markað: á þá sem þurfa að smækka við sig, einmitt af þessum ástæðum. Fínt þá að vera móbæl - eða fljótandi, liquid, svo notuð sé nærtæk líking - og geta kannski flúið með hjólhýsið og fjölskylduna með Norrænu til Danmerkur. Gerst landflótta í smá tíma. Ágætis sósjall í Danmörku náttúrlega og lítið mál fyrir þykkhúðaða Frónbúa að leiða hjá sér Þórðargleðina í Baunanum. Kannski fer maður að sjá beinskeyttari áróður í þessum dúr ef ferðahýsin hreyfast ekki því hraðar af plönunum á næstu vikum. Þá eru þessir gaurar með jafnlangt viðskiptanef og stutt er í siðferðinu.

Er hugsanlegt - svo þetta sé tekið, játa ég fúslega, dálítið yfir strikið - að til verði úr Íslendingum einhvers konar sígaunar Norðurlandanna?

Ætli verði pískrað á götuhornum í Norður-Evrópu í framtíðinni, þegar hjólhýsalestirnar (nú ekki dregnar af Reinsum, Bensum og Krúserum) fara skröltandi hjá:

Þarna fara Íslendingarnir.

Þeir spiluðu rassinn svo rosalega úr buxunum að þegar skellurinn kom varð hann margfaldur: gengið hrapaði, fasteignaverðið líka en vextir og verðbólga stefndu á óendanlegt. Allt í einu voru menn ekki bara skuldugir heldur eignirnar í mínus líka. Innlendir og erlendir bankar eignuðuðust næstum allt á uppboðum eða með innlausnum. Nú er landið eitt risavaxið þrotabú, draugabæir út allt. Bara nokkrir verðir hér og þar, í nætur- og dagvörslu, og menn í brýnasta viðhaldi. Enginn getur keypt eignirnar til baka því bankarnir, sem eru náttúrlega glóbal stofnanir og geta ekki hlustað á neitt þjóðhollustuvæl, þurfa að verja svo háar stöður.

Og hér fara Íslendingarnir.

Ég er jafnmikill formælandi ákvörðunarfrelsis einstaklingsins og hver annar, bæði hvað varðar kaupahéðna og kaupendur, en er til of mikils mælst að fara fram á það að hjól- og fellihýsasalar vakni, hnusi dálítið út í loftið og finni hinn óeiginlega kaffiilm? Þá af hinum vel viðbrennda og malaða efnahag þjóðarinnar? Ef fólk getur látið eitthvað á móti sér eins og staðan er í dag er það að bæta hjólhýsi á hundrað prósent láni á bílaplanið.

Í strangri yfirfærðri merkingu myndi ég segja um þá ágætu menn sem þenja fiðluna sem óðir við núverandi ástand og kreista út úr henni þessa skerandi tóna eins og Radiohead sagði í texta um árið:

When I am king you will be first against the wall.

Af undirtektum

Einn í einu...

þriðjudagur, 25. mars 2008

Getspeki

Sá sem þekkir fyrirmyndina að kvæðinu hér fyrir neðan vinnur-heybindivél-þegar-það-sekkur-skerið. Rétt athugasemd fer í stóra pottinn. Miði er möguleiki o.s.frv.

Þið sem eruð útilokuð vegna innherjastöðu - þið vitið hver þið eruð. Þið megið samt koma með villandi vísbendingar.

Þetta er kannski of auðvelt... en getið nú húsfreyjur (og -freyir (?))!

Fjörutíu prósent tíðarandi

Búð á Breiðstræti

Red white and blue
og fánar blakta
á bílastæðum.

Tvö ránfuglsaugu
með rauðum æðum

á bráðina stara
og reikna út.

Alltaf að spara.

fimmtudagur, 20. mars 2008

Orðakleppur III - Að vera í kvöl

Eiður Smári er tæklaður í leik með Barcelona. Hann engist í grasinu og það þarf að skipta honum út af. Íþróttafréttamaður Stöðvar 2 lýsir atvikinu í fréttatíma með þeim hætti að áhorfendur engjast engu minna í sætum sínum:
Eiður Smári er greinilega í mikilli kvöl...
Tvítyngd fjölmiðlun, einhver?

mánudagur, 17. mars 2008

Hver borgar?

Menn eru ekkert að skafa af hlutunum í nafngiftum á málþingum um ástandið núna:

Er allt að fara til fjandans? spyr einn titillinn.

Held það sé ráðstefna á vegum Viðskiptablaðsins.

Það er beitt grein af vefútgáfu Guardian, guardian.co.uk, skrifuð í framhaldi af brunaútsölunni á bandaríska fjárfestingabankanum Bear Stearns, sem var fimmti stærsti fjárfestingabanki í BNA. Fyrirsögnin er America was conned - who will pay?

Þar segir m.a.:
Business, of course, needs consumers to carry on spending in order to make money, so a way had to be found to persuade households to do their patriotic duty. The method chosen was simple. Whip up a colossal housing bubble, convince consumers that it makes sense to borrow money against the rising value of their homes to supplement their meagre real wage growth and watch the profits roll in.

As they did - for a while.

Now it's payback time and the mood could get very ugly. Americans, to put it bluntly, have been conned. They have been duped by a bunch of serpent-tongued hucksters who packed up the wagon and made it across the county line before a lynch mob could be formed.
Þetta er, a.m.k. framan af, kunnugleg lýsing á atburðarás.

sunnudagur, 16. mars 2008

Orðakleppur II - Valdbeitingartæki

Þessi orðakleppur er sóttur í sarpinn.

Það bókast hér með að orð(ó)myndin valdbeitingartæki er í besta falli klaufaleg, þokukennd og óþörf ambaga. Í versta falli er hún meðvituð - en vissulega jafnklaufaleg og -þokukennd - leið til að koma sér hjá því að nefna hlutina sínum réttu nöfnum.

Í síðara tilvikinu væri markmiðið væntanlega það að komast hjá eða draga úr því sem mælandinn telur að myndu vera óþægileg viðbrögð annarra við því sem sagt er og þar með að þurfa að takast á við þau. Slíkt eiga þeir ekki að þurfa að óttast sem hafa málefnalega skoðun að verja. Sem skoðunin um að lögregla þurfi að vopnbúast frekar má vissulega kallast - einkum þegar horft er á samhengið í dæminu sem hér um ræðir, sjá neðar - hvort sem fólk er sammála þeirri skoðun eða ósammála.

Kannski er þetta tabú í íslensku samfélagi en það þarf þá bara að snúa það tabú niður eins og önnur, ræða málið málefnalega og (vonandi) komast að málefnalegri niðurstöðu.

Hver sem ástæðan var þá var tönnlast á þessu í nokkurra mánaða gamalli frétt Moggans, frá 12. janúar sl., um árás nokkurra manna á lögregluþjóna við skyldustörf. Hér er niðurlag hennar:
Eitt af því sem nefnt hefur verið til sögunnar lögreglumönnum til frekari verndar er svonefnd rafbyssa, en embætti ríkislögreglustjóra hefur innleiðingu slíkra byssna til skoðunar. Sveinn Ingi Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir félagið vilja leita leiða til að búa betur að lögreglumönnum og nefnir ný valdbeitingartæki í því samhengi.

„Það sem gerðist er fáheyrt, hreinlega nýr veruleiki fyrir okkur og kannski sá nýi veruleiki sem við höfum óttast. Kröfum lögreglumanna varðandi ný valdbeitingartæki til að verja sig mun alla vega fjölga og þær verða háværari í framhaldi af þessu. Það er grundvöllur að starfinu að menn geti unnið sína vinnu án þess að eiga sífellt á hættu að verða fyrir skaða.“

laugardagur, 15. mars 2008

Um samband löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins

Orð dagsins eru vísa sem ég bögglaði saman í starfsmannaveislu Alþingis sem haldin var í gærkvöldi á Hótel Sögu. Þar mun vera löng hefð fyrir því að tala úr pontu í bundnu máli. Á mínu borði þótti ekki hægt að láta sitt eftir liggja. Borðfélagar mínir tjáðu mér að nýliðum væri, líkt og oft áður fyrr og síðar, ætlað að ganga fram fyrir skjöldu í áhættusömum verkefnum. Sem ég og gerði.

Fyrirsögnina á færslunni má hafa til nánari skýringar um efni vísunnar - ef þess þarf þá með.
Á Alþingi' eru' ötulir flokkar
ekkert smá bráðgerra
manna sem fyrir munn okkar
mæla Já, ráðherra!
Vísunni er hér með blygðunarlaust komið á stafrænt flot. Vegna þess að ég veit ekkert um lesendafjölda (eða -fæð) síðunnar - og hef reyndar hingað til kosið að varðveita það grandleysi mitt, eins og það væri orðað á lögfræðísku - dettur mér í hug að hér væri gráupplagt að setja fram margbrotna og langorða líkingu við flöskuskeyti.

En ég læt það eiga sig.

mánudagur, 10. mars 2008

Orðakleppur I - Ég man ekki eitthvað um upphaf á viðtali við fyrrverandi fegurðardrottningu í Fréttablaðinu um helgina

(Stutt, og að þessu sinni frekar þokukennd, færsla um íslensku. Ég vona að úr verði sería. Það kemur í ljós þegar og ef Orðakleppur II birtist. Og að nýir orðakleppar komi hér fram meðan ég held þræði og kunnátta mín í rómverskum tölum endist.)

Þetta viðtal við fyrrverandi fegurðardrottinguna (það er annars áhugavert hugtak af ýmsum ástæðum og kannski verðugt viðfangsefni síðar) hófst með einhverjum lágkúrulegum - í skilningi Þórbergs - hætti sem kallaði fram heimsendaspámanninn fyrir hönd tungumálsins innra með mér.

En ég man bara ekki lengur hvernig þessi fyrsta setning var sem kveikti með mér heimsósómann. Ég kannski bæti því við ef ég man eftir að fletta þessu upp.

---

PS: Líkt og kemur fram í athugasemd hér fyrir neðan var upphafið á viðtalinu: ,,Það er að taka fjölskylduna tíma að koma sér fyrir í Bolton."

Ég segi bara eins og í talblöðrunum í Andrés-blöðunum: Stuna!

Dæmin um þetta orðalag eru reyndar legíó - eins og Árni Matt myndi segja - bæði í skrifuðu og töluðu máli núorðið. Ég held ég gangi bara alla leið hér í mínu meinhorni og kalli þetta hvimleitt, svo ekki sé fastar að orði kveðið - jafnvel plagsið!

Svo er til afbrigði af þessu sem oft sést í fyrirsögnum. Þá gengur þetta svo langt að sögninni að vera er sleppt og úr verður eitthvað á borð við:
Að veiðast vel í Laxá
eða
KR að spila vel í deildinni
Þarna glatast öll merking í raun, það sést að minnsta kosti ef maður les þetta hægt og hugsar málið aðeins, og þetta verður eitthvað annað en venjuleg íslenska. Ég skrifaði einu sinni nett meinhorns-bréf til ritstjóra veiðisíðu sem ég les oft á netinu þegar svona fyrirsagnir voru orðnar frekar regla en undantekning þar. Vona að ég hafi ekki virst vera of mikill kverúlant en mér þykir þetta bara skipta máli og finnst allt í lagi að vera opinskár með það. Bréfið var líka mjög pent og bréfaskipti okkar í kjölfarið í mestu vinsemd. En þetta orðalag ríður þarna röftum ennþá.

Í athugasemdunum hér fyrir neðan hefur Eirik vinur minn lagt út af þessu.

Er hægt að enda Orðakleppinn öðruvísi en á þessum orðum:

Góðar stundir.

Fátt er svo með öllu illt...

Það er frétt inni á Eyjunni um bandamann John McCain sem situr í súpunni samkvæmt fyrirsögninni vegna umfangsmikilla fjársvika. Svo les maður fréttina og sér að... tja, getur maður sagt að maðurinn eigi sér töluverðar málsbætur, eins og komist er að orði í dómum?

Samkvæmt nýjustu fréttum í þessu máli á Renzi að hafa stolið 400.000 dollurum frá 50 félagasamtökum sem berjast gegn fóstureyðingum.

Ætli maðurinn sé einhvers konar Trójuhestur demókrata eða lýðréttindasamtaka, sendur inn til að eyðileggja fyrir Pro Life-liðinu?

Afgangurinn af fréttinni dregur að vísu aðeins úr líkindum á því - til þess er náunginn einfaldlega greinilega of slímugur og vafasamur - en það er gaman að velta fyrir sér möguleikanum á kreatívri pólítík sem þessari.

Líklega samt bara ef nettóniðurstaðan er manni að skapi.

fimmtudagur, 6. mars 2008

Að auðgast á eigin hæfileikum

Þetta er hluti af frétt á vísi í dag um að Moskva sé samkvæmt tímaritinu Forbes orðin mesta milljarðamæringaborg í heimi:

,,Að sögn Forbes er Rússland aðalfréttin hjá þeim í ár því milljarðamæringar þar spretta nú upp með miklum hraða. Og Forbes finnst það heillandi að hver einasti þeirra hefur auðgast á eigin hæfileikum. Enginn þeirra hafi erft auðæfi sín og meðalaldurinn hjá þeim sé aðeins 46 ár."

Þetta býður upp á lítinn leik, í ætt við Hvar er Valdi? - Hvar eru glöpin?

Rússland. Milljarðamæringar. Að auðgast á eigin hæfileikum.
Rússland. Milljarðamæringar. Að auðgast á eigin hæfileikum.
Rússland. Milljarðamæringar. Að auðgast á eigin hæfileikum ...

Hvað ætli maður þurfi að endurtaka þetta oft til að trúa því? Eða: ætli það sé hægt að endurtaka þetta nógu oft til að þetta verði satt?

Ef maður vissi ekki betur, að Forbes væri virðulegt blað sem tekur sig alvarlega, þá myndi maður halda að þetta væri einhver kaldhæðni eða grín - kannski einhvers konar æfing í naívisma. Og kannski eru mistök í þýðingunni.

Maður eiginlega vonar það.

PS: Ég fékk tölvupóst frá manni sem benti mér á frumheimildina. Hún er svona:

,,What's fascinating is that every single one of them is self made," said Forbes senior editor Luisa Kroll.

Þannig að Forbes virðist eiga þetta skuldlaust. Vegna þess að ég reyni að vera meðvitað bláeygur og bjartsýnn fyrir hönd mannsins og sérstaklega blaðamennsku í heiminum held ég þó í von um að þetta sé massív kaldhæðni hjá Lovísu Krullu.

Ef svo er þá á hún aðdáun mína óskipta.

mánudagur, 3. mars 2008

PS

Annars dettur mér í hug tilbrigði við fyrirsögnina hér fyrir neðan, sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma virðist alveg eins geta átt við:

Upp með lyftunni. En niður af gluggasyllunni!

Fyrirsagnir

Þar til á föstudaginn var besta fyrirsögn sem ég man eftir að hafa séð í íslensku dagblaði fyrirsögn á plötudómi í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum, sem ég held að Skarphéðinn Guðmundsson hafi átt heiðurinn af, um þá nýútkomna plötu hljómsveitarinnar Lands og sona. Þeir gengu með meik í maganum þá - sem er heilbrigður metnaður og ekkert nema gott um það að segja. Höfðu tekið upp plötu á ensku með upptökustjóra sem átti að hafa starfað með hinum og þessum stjörnum. Og hljómsveitarnafnið varð auðvitað að vera tamara á erlendri tungu - Shooting Blanks var sveitin skírð upp, minnir mig.

Fyrirsögn plötudómsins, sem ég man annars ekkert úr, var: Amerískur Hreimur.

Á föstudaginn var þessari fyrirsögn loksins velt úr efsta sætinu. Þá sá ég utan á nýjasta tölublað tímaritsins Frjálsrar verslunar í hillu á Borgarbókasafninu. Þar mun vera löng úttekt á íslensku viðskiptaumhverfi um þessar mundir og hrunið á hlutabréfamörkuðum.

Fyrirsögnin á forsíðunni með úttektinni er: Upp stigann. En niður með lyftunni!

Ég leit ekki í blaðið svo ég veit ekki hver á heiðurinn af þessu, viðmælandi blaðsins eða blaðamaður. En þetta er ekki hægt að kalla annað en list. Verðskuldar stórt kudos.