miðvikudagur, 11. mars 2009

Siðbótin síðari („leikstjóraútgáfa“)

Grein eftir mig með þessu nafni birtist í Eldhúsdegi, fylgiriti Fréttablaðsins um þjóðmál, í dag. Þar er ég reyndar titlaður lögmaður, en það er ég ekki sem stendur heldur bara ótíndur lögfræðingur.
Hér er ítarlegri útgáfa greinarinnar. Kaflar 1-3 og lokakaflinn eru hinir sömu og í Fréttablaðinu en lengri og með nokkrum málsgreinum sem þurfti að klippa út til að greinin kæmist fyrir. Aðrir kaflar, þ.e. 4-6, birtust ekki í Fréttablaðinu en þeir fjalla allir um nátengd efni.

***

Það er sagt að siðrof hafi orðið á Íslandi í aðdraganda Hrunsins. Siðbótar er þörf. Við þurfum að taka upp góða trú.

1.
Góð trú.

Góð trú er orðrétt þýðing á latneska hugtakinu bona fide. Hugtakið er úr siðfræðinni en eins og önnur viðfangsefni hennar á það við á öllum sviðum mannlífsins. Það er einfalt og skýrir sig svo til sjálft. Fyrir siðasakir má þó leggja til þá frekari skýringu að sá sem hefst að í góðri trú gerir það að eigin frumkvæði og með einlægum ásetningi út frá því sem hann veit að öllu gættu, samkvæmt samvisku sinni, að er satt og rétt (eða sannast og réttast) í hverju máli.

Nú myndu kannski einhverjar hýenur strax byrja að glotta við tönn. (Þið vitið, þessar allra yst til hægri í stóðinu.) „Samviska“? „Einlægni“? Allt gott og blessað með það. En þetta getur enga raunhæfa þýðingu haft þegar valdsmenn taka ákvarðanir. Síðan gala þær herópið sem hefur bergmálað á Íslandi svo lengi: Þeir sem fara með völdin taka þær ákvarðanir sem þeir vilja, á þeim forsendum sem þeir vilja og að öðru leyti alveg óbundnir nema að því eina leyti sem þeir brjóta ekki himinhrópandi sannanlega gegn skráðum og skýrum lagaákvæðum. Þetta er, samkvæmt skilgreiningu, það sem heitir að hafa völdin.

Það þarf ekki að kunna neitt í lögfræði til að átta sig á því hvaða möguleika og svigrúm þetta sjónarmið veitir þeim sem kunna og vilja nota sér það til að hrinda vilja sínum í framkvæmd - ef með þarf alveg óháð því sem lög og siðferði - réttlætið - benda á samkvæmt öllum eðlilegum mælikvörðum.

Það er einmitt þessi afstaða sem hefur verið ríkjandi á Íslandi ákaflega lengi. Þetta hefur ekki aðeins verið raunin með pólitíkusa heldur hafa ámóta viðhorf gegnsýrt íslenskt þjóðlíf almennt. Þar skipta mestu máli annars vegar viðskiptalíf og hins vegar fjölmiðlun og önnur opinber umræða. Það er til barnslega einföld leið út úr því öngstræti sem þetta viðhorf hefur leitt þjóðina í: að fólk ákveði að hafast að í góðri trú. Það þarf sannarlega ekki meira til. Ég tek fram að ég er hins vegar ekki svo „barnslega einfaldur“ sjálfur að telja líklegt á næstunni að þetta verði algilt lögmál hjá öllum mönnum.

Þess vegna er hér mikilvægur skilsmunur: Fyrir þá sem er með beinum hætti trúað fyrir því að fara með hagsmuni annarra, t.d. pólitíkusa og bankamenn, eða eru í sambærilegri stöðu af öðrum ástæðum, t.d. fjölmiðlamenn, er það frumkrafa að þeir ræki störf sín og skyldur í góðri trú.

Það neyðir enginn neinn til að bjóða sig fram í stjórnmálum til þess að fara með völd og áhrif í umboði almennings. Menn krefjast hárrar umbunar – og fá hana – fyrir að sinna störfum hjá fjármálafyrirtækjum að sögn til að varðveita og ávaxta eignir annarra. Þar fyrir utan eru fyrirtækin iðulega hlutafélög á almennum markaði. Til fjölmiðla er stundum vísað sem hins fjórða valds, sem veita á hinum valdgreinunum aðhald. Því fylgir siðferðileg ábyrgð. Hvað sem öðru líður er óumdeilt að fjölmiðlar hafa mikil áhrif – og margir segja úrslitaáhrif – á skoðanamyndun almennings.

Ég læt nægja að taka dæmi af þessum þremur sviðum en vitaskuld mætti telja til fleiri. Krafan um að menn í þessum stöðum hafist að í góðri trú ætti að vera sjálfsögð og verður það vonandi sem allra fyrst. Það sem hér fer á eftir beinist því einkum að mönnum í þessum stöðum.

Til að afmarka umfjöllunarefnið nánar er fyrst rétt að svara mótbárunni sem ég taldi mig strax geta heyrt ávæning af. Það er þetta með „samviskuna“ og „einlægnina“ og hversu raunhæf þau fyrirbæri geta yfirhöfuð verið sem áhrifavaldar og mælikvarði á ákvarðanatöku manna, í stjórnmálum eða annars staðar. Fyrir það fyrsta er auðvitað ljóst að engir, hvorki dómarar, kjósendur, hluthafar né þeir sem nota fjölmiðla, geta „hankað“ mann á því út af fyrir sig að hafa ekki farið eftir samvisku sinni ef maðurinn sjálfur staðhæfir annað. Það verður aldrei sannað, aldrei hafið yfir vafa. Góð trú er siðferðilegt hugtak, í sjálfu sér hvorki áþreifanlegt né mælanlegt.

Það liggur í hlutarins eðli að þegar allt kemur til alls eiga menn það aðeins við sjálfa sig að ákveða hvort þeir vilji hafa góða trú í heiðri. Þeir eru síðan hinir einu sem geta framfylgt því gagnvart sjálfum sér. En ef þeir gera það ekki vil ég halda því fram að þeir viti upp á sig skömmina, hvernig svo sem þeir annars réttlæta gjörðir sínar fyrir sjálfum sér og öðrum.

Þetta síðastnefnda er í raun andsvar mitt við mótbárunni hér á undan: þó það sé ekki hægt að „hanka“ menn og láta þá sæta utanaðkomandi ábyrgð eða viðurlögum leysir það þá ekki frá því að vita sjálfir upp á sig skömmina. Um leið er þetta forsendan sem ég vil gera fyrir umfjöllun minni: hún getur ekki átt við siðleysingja. Það er auðvitað af því að slíkir menn eru blindir á ábyrgð sína af misgjörðum sínum.

Ég vil hins vegar leyfa mér að gera ráð fyrir því að áhrifamenn á Íslandi, bæði í stjórnmálum og annars staðar, séu almennt ekki siðleysingjar, eins misjafnir og þeir annars eru. Þeir vita fullvel hvenær þeir hafast ekki að í góðri trú. Og þá, óháð allri sjálfssefjun og réttlætingu út á við, vita þeir líka upp á sig skömmina.

Ef einhver fellir sig ekki við þessa forsendu er svo sem ekkert um það að segja. En sá sami er þá greinilega töluvert svartsýnni en ég á stöðu íslensks samfélags.

2.
„Dómarinn sá það ekki!“

Jón Ormur Halldórsson skrifaði fyrir nokkrum árum eftirminnilegan pistil í Fréttablaðið þar sem hann lýsti „hægindastólskenningu“ gamals bresks háskólaprófessors sem hafði kennt honum. Sá þóttist hafa merkt að af þeim nýlendum breska heimsveldisins sem hefðu öðlast sjálfstæði á 20. öld hefði lýðræði einungis festst í sessi þar sem arfleifð Breta hafði skilið eftir sig krikket sem þjóðaríþrótt. Þar sem fótbolti var á hinn bóginn þjóðaríþróttin hafði allt farið í bál og brand og þjóðirnar síðan verið ofurseldar byltingum og borgarastyrjöldum.

Prófessorinn benti í meginatriðum á að krikket væri leikur sem byggðist á því að menn virtu að eigin frumkvæði reglur og siðvenjur leiksins og gengust að sjálfsdáðum við brotum. Fótbolti væri á hinn bóginn leikur þar sem menn gengju hverju sinni eins langt og dómarinn framast leyfði – og iðulega lengra ef þeir héldu að hann sæi ekki til – og ekki tíðkaðist að viðurkenna brot sín. Prófessorinn sem Jón vitnaði til spurði loks efnislega eitthvað á þá leið hvort verið gæti að ólík siðferðileg áhrif eða skilyrðing þjóðaríþróttanna tveggja hefði skipt sköpum um þann merkjanlega mun sem var á hvernig þjóðum sem aðhylltust hvorn leikinn um sig hefði farnast.

Því má skjóta inn að það er reyndar annað vitni um höfuðþýðingu siðareglna í krikket að í Bretlandi er alþekkt orðatiltæki notað um það ef einhver hagar sér ósiðlega. Þá er einfaldlega sagt um það sem viðkomandi gerði: It’s not cricket! Allir þar skilja undir eins hvað átt er við: maðurinn var ekki í góðri trú.

Ég ætla ekki að fjölyrða neitt hér um farsóttarkenndan áhuga Íslendinga á fótbolta.

Punkturinn er hins vegar þessi: Bretar segja þetta-er-ekki-krikket! Hér á Íslandi er viðkvæðið: Dómarinn sá það ekki! Í hinni almennu lýsingu á fótboltasiðgæði hér framar ætti hver að geta séð næstum fullkomna hliðstæðu við það sem tíðkast á vettvangi stjórnmála og viðskipta hér á landi. (Og líklega víðar en látum það liggja á milli hluta því böl verður ekki bætt með því að benda á annað.) Ef menn á annað borð láta svo lítið að svara gagnrýni þýðir það yfirleitt ekki annað en að kjarna málsins er kaffært eða misþyrmt með yfirgengilegu þrasi um aukaatriði, hártogunum eða blygðunarlausum rangtúlkunum og mælskubrellum. Að ógleymdri smjörklípunni frægu. Berum þetta saman við orðskvið Bretanna. Erum við stolt?

Dæmi um þetta? Þarf að telja þau upp? Á undanförnum vikum og mánuðum hefur þjóðin í búsáhaldabyltingunni sýnt með afgerandi hætti viðbjóð sinn og vanþóknun á hátterni valds- og viðskiptamanna undanfarin. Ef höfð eru í huga þau skýru og fordæmalausu skilaboð held ég að óhætt sé að sleppa upptalningunni. Hún hefur reyndar líka verið vel og skilmerkilega skjalfærð og skrásett af öðrum. Dæmin eru lýðum ljós. Þau þekkja allir sem á annað borð vilja sjá þau.

3.
Kaldlyndið.


Ég held að eitt orð nái ágætlega yfir það viðhorf, þann skort á góðri trú, sem endurspeglast í mörgum gjörðum íslenskra valdhafa og viðskiptamanna undanfarin ár: Kaldlyndi. Það felur í stystu máli í sér andstæður þeirra einkenna á góðri trú sem tilfærð voru í upphafi greinarinnar. Það er beiting valds með aðra hagsmuni í huga en réttlætið hrópar á. Stundum er það dubbað upp í þetta eða hitt dulargervið sem aðstæður gefa tækifæri til. En oftar er það grímulaust.

Kaldlyndi er viðhorfið um alræði valdhafans og sem ég gat um hér að framan. Einn af íslensku óligörkunum ku hafa lýst einhverju olnbogarými sem hann taldi sér bera með þessum orðum: Ég á ‘etta og ég má ‘etta. Ráðherrar komu í viðtöl og réttlættu þar glottandi gífurlega umdeildar embættisfærslur sem megn óánægja var um í þjóðfélaginu og sætt höfðu harðri málefnalegri gagnrýni. Sumar töldu eftirlitsstofnanir þjóðfélagsins reyndar síðar beinlínis ólögmætar. Viðkvæði ráðherranna var yfirleitt einfalt: Ég ræð.

Þetta voru einkunnarorð kaldlyndisins. Ég á, ég ræð. Og fáir treystu sér til að opna munninn. Af hverju? Það er margslungin spurning fyrir síðari tíma. Meðvirkni? Já. En líka ótti. Sporin hræddu. Línan var svo óbilgjörn að ef einhver dirfðist að malda í móinn eða spilaði ekki möglunarlaust með þá fóru vettlingarnir af. Allir vita hvernig höndin var á litinn þar undir. „Skrímsladeildin” var ræst út. Krákurnar hófu sig á loft. Rödd heyrðist, krákurnar bergmáluðu:

Þú! – lagður niður. Þú! – leggstu niður. Þú! - rekinn! Þú! - færð ekki að vera meira memm. Þú! – skiptu þér ekki af. Þú! – mundu eftir kalda stríðinu. Þú! – kommi. Þú! – vinnur ekki í þessum bæ framar. Þú! – tapaðir í inspektorskjöri í MR á sjöunda áratugnum ... Þú! ... Þú! ... Þú! ...

Bara svo það sé á hreinu: Ég er ekki að persónugera eitt eða neitt. Og nei, mér er sjálfum ekki hætishót í nöp við nokkurn af þeim mönnum sem áttu þátt í að skapa og viðhalda ástandinu eins og það var. Ég ætla meira að segja að leyfa mér að fullyrða að fæstir yfirhöfuð hafi nokkuð persónulega á móti þeim.

En: öfugt við það sem sumir fyrrverandi æðstuprestar þeirra vilja nú halda fram verða atburðir og ástand í mannlegu samfélagi ekki til nema af mannavöldum. Og ástandið varð vissulega svona. Það ástand sköpuðu engir aðrir en valdhafar og áhrifamenn á þeim tíma og þeir bera að sama skapi ábyrgð á því, hver og einn í réttu hlutfalli við völd sín og áhrif þá. Þeir létu undan kaldlyndi sínu. Leyfðu því að ríkja yfir og byggja út sínum eflaust mörgu öðrum mannkostum. Fyrir það – og hugsanlega aðeins það – hefur þjóðin nú, eftir langa mæðu, fengið nóg af þeim.

Að lokum eitt lítið dæmi: Gaumgæfið það hvernig Morgunblaðið hefur fjallað um tilburði þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr til þess að „endurskipuleggja Seðlabankann“, eins og það hefur verið kallað. Eða bara aðgerðir ríkisstjórnarinnar yfirhöfuð, svona heilt yfir.

Morgunblaðið hefur sagt fréttir af þessu eins og öðru: hvað gerist, hvers vegna, hvað finnst hinum og þessum. Líkt og hver annar fjölmiðill. Ég hef ekki orðið var við að sérstök afstaða komi fram í skrifum blaðsins um þetta heldur veit ég ekki annað en að fréttaflutningur þess hafi verið eins hlutlaus og hægt er að ætlast til. (Ég tek fram að ég styð það að fjölmiðlar taki afstöðu þegar svo ber undir - svo lengi sem þeir gera það, auðvitað, í góðri trú.)

Berum þetta saman við það hvernig Morgunblaðinu var beitt í tengslum við atburði fyrir réttu ári þegar Ólafur F. Magnússon söðlaði um í meirihlutasamstarfi í borgarstjórn Reykjavíkur og hóf samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. (Það væri of langt mál að rekja það hér en ég bendi til nánari skýringar á grein sem ég skrifaði um þetta og kallaði Styrmir býr til strámann og er hér á síðunni.)

Hvaða hvatir (keyri?) drifu Morgunblaðið áfram þá? Hvað hefur gerst í millitíðinni? Hvora útgáfuna af Morgunblaðinu, þessu góða og mikilvæga blaði, viljum við frekar hafa?

4.
Sannleikurinn og sannleikarar.

Einu sinni var vikulegur þáttur í ríkissjónvarpinu sem hét Matlock og fjallaði um lögmann með því nafni í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Þetta var lengi vel vinsælasti þáttur RÚV. Hann fjallaði í léttum dúr um lögfræðileg þrekvirki söguhetjunnar, sem var góðleg og gráhærð afa-týpa, og var eiginlega alltaf sami þátturinn: Matlock var verjandi í sakamáli þar sem saklaus maður stefndi lóðbeint í rafmagnsstólinn þar til gamli gráni ekki bara sýndi fram á sakleysi skjólstæðings síns heldur kom venjulega upp um þann seka líka. (Nokkuð sem verjendur í hinum hversdagslega raunveruleika leika ekki svo glatt eftir!)

Ég horfði á þennan þátt eins og margir aðrir þegar ég var barn og man eftir einu sem ég skildi aldrei þá. Það var frasinn sem mönnum var lesinn fyrir og þeir jánkuðu með hönd á helgri bók áður en þeir settust í vitnastúkuna. Hann hljómaði svona, í lauslegri þýðingu:

Sverð þú að segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann?

Ég gat aldrei áttað mig á einu með þetta. Af hverju var verið að orðlengja svona um hlutina? Hvers vegna mönnum ekki bara uppálagt að segja sannleikann, punktur? Hvað var þetta tal um „allan“ og „ekkert nema“? Þurfti þess nokkuð ef menn sóru á annað borð að segja sannleikann, þetta hlaut þá að vera innifalið?

Það þarf hins vegar ekkert að útskýra það fyrir fullorðnu fólki að til eru miklu verri lygarar en venjulegir Gosar sem segja bara alls ekki satt. Hinir eru miklu verri sem segja kannski pínulítið satt – og þá um aukaatriðin – en steinþegja um það sem skiptir máli. Og svo hina, sem ljúga eins og þeir framast geta innan um sannleikskorn á stangli sem ætlað er að gera lygina trúverðuga.

Rétt upp hönd sem hefur velt þessu fyrir sér, lesandi dauðhreinsaðar yfirlýsingar frá fyrrverandi fjármálamógúlum sem eiga að útskýra burt alla hugsanlega ábyrgð þeirra á Hruninu? Eða sambærileg gerilsneydd skrif eða ummæli frá pólitíkusunum? Eru þessir menn, eða málpípur þeirra, að segja satt? Látum svo vera, en þá í hvaða skilningi? Kannski er allt sem stendur á blaðinu alveg hreina satt. En er það allur sannleikurinn? Hvað með það sem stendur ekki á blaðinu? Eða er kannski ekki allt sem stendur á blaðinu alveg satt, sumt bara hálfsatt, sumt sem gæti kannski verið satt, eða þaðan af minna?

Þetta með „allan” og „ekkert nema” sannleikann er nefnilega ekkert innifalið. Smáa letrið getur geymt alla hugsanlega fyrirvara við það hvaða sannleikur er borinn fram, þó það sé ósýnilegt öllu venjulegu fólki. Og smáa letrið er aldrei langt undan þegar hinir kaldlyndu tala.

Þeir sem tala í góðri trú þurfa hins vegar ekkert smátt letur. Þeir bara segja satt. Punktur. Allt innifalið, það þarf ekki einu sinni að taka það fram. Þetta þurfa þeir sem bera ábyrgð á Hruninu að byrja að gera. Og það strax.

Fyrst þá getum við byrjað að taka til höndunum því fyrst þá sjáum við handa okkar skil. Fyrst þá kviknar ljósið.

5.
Af vígum, vilja og vegum.

Vegna Hrunsins er nú rætt um viðamiklar breytingar á íslenskri stjórnskipun með það fyrir augum að ryðja brautina fyrir „nýtt og betra“ Ísland. Breytingar á lögum og og reglum, sérstaklega um fjármál, eru taldar bæði óhjákvæmilegar og bráðnauðsynlegar. En allar breytingar á reglum einum og sér eru dæmdar til að mistakast nema samfara verði grundvallarbreyting á öðru fari þjóðarinnar: hugarfarinu. Það er hægt að breyta stjórnskipuninni, regluverki um dómstóla, á sviði fjármála og fjölmiðla og hverju sem vera skal, betrumbæta, auka við og stoppa í reglurnar út í það óendanlega. En við lok dags er það allt unnið fyrir gýg nema þeir sem reglunum er ætlað að taka til framfylgi og fari eftir þeim í góðri trú.

Það er þetta sem nýíhaldsmenn, sem hér á Íslandi kenna sig við andríki, skilja ekki. Eða þykjast ekki skilja. Þeir birta nú heilsíðuauglýsingar í dagblöðum með svo ótrúlegu fargani af reglugerðum að heiti þeirra þarf að skrifa með smæsta letrinu til að þær komist allar fyrir. Úr verður hin tilætlaða stafasúpa til að hægt sé að slá upp: Sjáiði allar reglurnar sem giltu um íslenska fjármálamarkaðinn. Heill frumskógur! Hver sagði svo að það hefðu ekki verið neinar reglur?!

Látum vera strámannsrökin sem í þessari framsetningu felast. Látum vera að hluti af reglugerðunum sem þarna eru taldar upp eru breytingareglugerðir, en það er eins og að segja að ef maður fari með buxurnar sínar í saumastofu og láti víkka þær eigi hann eftir það tvennar buxur. Látum vera að þessi auglýsing er ekki sett fram í góðri trú heldur sem orðhengilsháttur, útúrsnúningur og hótfyndni. Fyrst fólk er á annað borð komið í leikaraskapinn, tökum þá ýkt dæmi:

Tveir menn. Ein regla: þú skalt ekki morð fremja (Eða fyllið inn misgjörð að eigin vali.) Annar maðurinn myrðir hinn. Var ekki regla sem bannaði þetta? Já. Hvernig gat þetta þá gerst? Jú, af því að morðinginn vildi af einhverjum ástæðum drýgja ódæðið. Þetta er það eina sem skiptir máli, annað í dæminu er bara aukaatriði. Af handahófi: Kannski vissi hann ekki af reglunni sem hefði ella stoppað hann. Kannski var honum sama hvað reglan sagði eða taldi aðra hagsmuni þýðingarmeiri. Kannski drýgði hann ódæðið úr annarri lögsögu, þar sem reglan gilti ekki. Kannski tókst honum að túlka regluna þannig að hún bannaði í raun ekki „þetta tiltekna ódæði“ (maður skyldi aldrei vanmeta lagakróka!) Kannski fékk hann annan til verksins og telur sig því ekki hafa framið neitt morð, ekki þannig, ekki per se ... skiljiði?

Tilvist reglunnar ein og sér getur aldrei bjargað lífi fórnarlambsins. Það getur aðeins vilji hins hugsanlega morðingja til þess að breyta rétt. Því hann veit betur en að deyða annan mann. Það þarf í raun enga reglu til að segja honum það. Góð trú hans á að nægja honum til að komast að réttri niðurstöðu. Ef reglan er flóknari þá kunna flestir að lesa og skilja. Eða geta ráðið sér fagmann í það. Vilji er vegur segir í ensku orðatiltæki og aftur mælist þeim skynsamlega. Reglur geta á endanum í besta falli tafið fyrir þeim sem vill ekki fara eftir þeim, aldrei stoppað hann. En vilji er líka veggur ef þannig ber undir og sá eini sem dugar á endanum.

Það er alveg sama þó við bætum inn „eftirlitsaðila” í dæmið hér á undan. Ef sá vill ekki gera hið rétta eða koma í veg fyrir hið ranga þá erum við engu bættari, hvað sem reglubókin segir. Allt sem gildir um illvirkjann sjálfan á líka við um þann sem ætlað er að halda aftur af honum.

Þannig að: Jújú, einhverjar reglur voru þarna. En fjármálamennirnir sem áttu að fara eftir reglunum vildu ekki gera það. Það þarf kannski ekki að koma hinum raunsæju (eða bölsýnu) á óvart. Hitt var þó sýnu verra að þeir sem áttu að framfylgja reglunum sýndu ekki af sér mikinn dug við það. Að ekki sé gengið svo langt að segja að þeir hafi allt fram að uppdubbun í stöðu varðhunda verið í hópi þeirra sem vildu hvað ákafast lóga þeim. Þegar svo háttar til þarf ekki að spyrja að leikslokum. Á Íslandi varð Hrunið staðreynd.

Hér þurfum við enn og aftur góða trú, ef við gefum okkur þá almennt séð að reglurnar sem við höfum séu yfirleitt skynsamlegar, réttlátar og líklegar til að ná markmiði sínu sem og þær er síðar verða settar.

Ég vona til dæmis að hjá eftirhrunskynslóð fjármálamanna fái þrifist nefnd eins og hin svokallaða yfirtökunefnd sem menn reyndu að stofna hér fyrir fáum árum til að hafa eftirlit með yfirtökuskyldu (þar með eignatengslum) og fleiru í íslensku fjármálalífi. Nefndin starfaði ekki á grundvelli laga heldur frjáls samkomulags milli aðila á fjármálamarkaði. Hún hafði engar formlegar vald- eða þvingunarheimildir en reiknað var með því að persónur og leikendur á Markaðnum færu eftir ábendingum og álitum nefndarinnar sjálfviljugir. Enda stóðu þeir sjálfir straum af starfi hennar og átti hún að hafa til að bera bæði næga sérþekkingu og úrræði til að komast að sem bestu eða „réttustu” mögulegri niðurstöðu hverju sinni.

Þess má geta að formaður nefndarinnar var lagaprófessor sem er að öðrum ólöstuðum líklega sá óumdeildasti í sínu fagi vegna þekkingar sinnar og hlutleysis og svo grandvar að sagt er – ég sel það ekki dýrara en ég keypti það – að íbúðarhús hans og fjölskyldunnar hafi staðið ómálað árum saman vegna þess að hann fann hvergi málara sem vildi skrifa undir símaskrárþykkan verksamninginn eða vinna verkið öðruvísi en svart.

Hvernig gekk nefndinni að starfa? Í sem skemmstu máli kom það strax í ljós hvaða mjög svo einhliða skilning Markaðsmennirnir lögðu í það að vera ekki bundnir við að fara eftir álitum nefndarinnar „frekar en þeir vildu“.

Og hvað varð svo um yfirtökunefndina? Hún var lögð niður 1. júlí 2008. Um leið og fyrsta starfstímabili hennar lauk. „Reynslan ekki nægilega góð til að halda áfram,” sagði formaður samtaka fjármálafyrirtækja. Hvað skyldi hann hafa átt við með því?

6.
Sakaruppgjör eða gleymskusáttmáli.

Þegar fólkið sem olli Hruninu hefur sagt satt – sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann – og góð trú hefur verið tekin upp þarf að gera upp við fortíðina svo við getum haldið áfram á sæmilega traustum grunni. Til þess þurfum við að bíða eftir niðurstöðum þeirra stofnana sem nú rannsaka Hrunið og mjög líklega á endanum úrlausnum dómskerfisins.

Þegar við höfum fengið bestu mögulegu vitneskju um það hvað gerðist og hver gerði hvað er auðvitað æskilegast að hinir ábyrgu bæti sjálfviljugir fyrir það eftir fremsta megni og sæti eðlilegum og réttlátum viðurlögum. Ég ætla ekki að fjölyrða um það. Ástæðan er náttúrlega sú að það ætti að sjá um sig sjálft ef þetta gengur eftir með góðu trúna og sannleikann. Ef sú verður raunin sláum við líka tvær flugur í einu höggi. Þá hverfur líka eins og dögg fyrir sólu móðursýkin og takmarkalaus tortryggnin sem hefur stundum verið of áberandi undanfarna mánuði. (Að mörgu leyti skiljanlega, má ég bæta við.)

En ef það gerist ekki, eða ekki að fullu, þá eigum við í raun ekki annan kost en að treysta því að stofnanir þjóðfélagsins upplýsi málin af dug og heilindum og vona að þær nái sem bestum árangri samkvæmt þeim lagaramma og reglum sem þær vinna eftir.

Ef menn þrjóskast og þverskallast, þykjast hafa gleymt öllum Hruns-dansinum, sérhverju spori og snúningi, segjast ekkert muna af ballinu, hverja þeir dönsuðu við, drógu á tálar, kysstu eða kýldu og kannast að sjálfsögðu ekkert við kreditkortareikninginn – þá er því miður bara eitt í stöðunni: Við verðum bara að sætta okkur við það. Kyngja því og halda áfram. Það er eins gott að gera sér grein fyrir þessu strax: eftir því sem Hruns-dansararnir verða iðrunarlausari og ósamvinnuþýðari, þeim mun minna munum við fá að vita um það hvað gerðist og þeim mun meira verður beint tjón okkar af Hruninu.

Við skulum leyfa okkur að vona að svona verði þetta ekki. En verum samt ekki blind fyrir möguleikanum. Ef svo illa fer að raunin verður þessi má rifja upp það sem Spánverjar gerðu upp úr miðjum áttunda áratugnum eftir að valdatíð Franco lauk og lýðræði komst þar á. Spánverjar vissu að það að láta alla sem báru beina og óbeina ábyrgð á ódæðum og misgjörðum á Franco-tímanum var í fyrsta lagi vonlaust verkefni praktískt séð. Í öðru lagi var það áhættusamt fyrir viðkvæmt og á þeim tíma ennþá óstöðugt samkomulag um nýstofnað sambandslýðveldi. Í þriðja lagi, því miður, var fullnaðaruppgjör í raun grátlega þýðingarlítið miðað við umfang skaðans, sem var óafturkræfur.

Þá varð til, með einhvers konar óformlegu sammæli í þjóðfélaginu, hinn svokallaði sáttmáli gleymskunnar, El Pacto de Olvido. Spánverjar ákváðu að hafast ekkert að gegn flestum þeim, a.m.k. af minni spámönnum og meðspilurum, sem báru ábyrgð á fasistastjórninni og gerðum hennar. Flestir af fasistunum og samverkamönnum þeirra voru einfaldlega látnir afskiptalausir.

En – og þetta er stórt EN – í afskiptaleysinu fólst ekki bara að ekki yrði af saksókn eða öðrum opinberum aðgerðum gegn sökudólgunum. Afskiptaleysið varð nefnilega almennt, ekki bara af hálfu yfirvalda heldur allra. Þjóðfélagið lokaði augum sínum fyrir þeim. Svo mjög að það varð í raun kannski meiri og maklegri refsing en nokkur önnur. Það vissu allir hverjir sökudólgarnir voru og létu aðra vita ef með þurfti, þeir gátu yfirleitt ekki dulist. Hvar sem þessir menn komu fóru um á almannafæri þagnaði skvaldrið og glaðværðin skyndilega. Ef kveðja var borin fram var henni ekki tekið. Fólkið horfði annað, lauk erindum sínum hratt og hvarf hljóðlega á burt, staðirnir tæmdust og ósýnilegu mennirnir stóðu einir eftir. Kannski fengu þeir hljóða afgreiðslu hjá starfsfólkinu en áreiðanlega ekki bros og spjall. Aldrei gátu þeir rofið múrinn. Tilvist þeirra var ekki viðurkennd af samfélaginu. Þeir urðu skuggar meðal lifenda.

Þeir vissu upp á sig skömmina. Og fengu að lifa með henni, aleinir.

Þó ekkert annað verði að veruleika til að þeir menn sem báru beint eða óbeint ábyrgð á Hruninu hjá okkur axli þá ábyrgð sína og sýni iðrun og yfirbót geta Íslendingar bundist samtökum um sinn gleymskusáttmála út af Hruninu. Ef mennirnir glotta þá enn og flytja bara burt með sitt og sína, senda okkur hinn óeiginlega fingur frá fjarlægum stöðum, þá er í raun ekkert við því að gera. En þá skulum við ekki gera þeim það til geðs að fá móðursýkiskast af bræði, þó vissulega munum við gernýta öll möguleg úrræði til að hafa hendur í hári þeirra og þess sem þeir skulda okkur. Ef svo grátlega vill til að þetta gerist, skulum við þá bara yppa öxlum. Snúa svo baki við þessum mönnum fyrir fullt og allt. Um leið og við tækjum síðan til höndunum við að byggja aftur upp samfélagið myndum við vissulega hugsa okkar en bara segja eitt:

Farið hefur fé betra.

7.
Alltaf pláss við plóginn.

Ég veit ég talaði í byrjun um það efni greinarinnar ætti bara við fullum fetum um menn í tilteknum stöðum. Að það væri frumkrafa að þeir hefðust að í góðri trú og segðu satt en kannski væri barnsleg einfeldni að leyfa sér að vona að allir menn, eða jafnvel bara við öll hér í örsamfélaginu okkar, gerðu hið sama. En maður skyldi aldrei segja aldrei.

Hvað rúmar stærsti loftkastalinn marga skýjaglópa?

Svarið?

Það er pláss fyrir alla.