fimmtudagur, 7. janúar 2010

Hýði, feldur, dvali, dá

Bloggarinn í mér tók upp á því að leggjast í ótímabundinn dvala. Ég fæ engu tauti við hann komið. Hann fæst ekkert til að segja hvort og þá hvenær hann hefur hugsað sér að byrja aftur að pikka. Ég læt hann þá bara eiga sig í bili, reyni að pikka annað á meðan. Ef maður hefur einu sinni byrjað að pikka er nefnilega erfitt að hætta.

Það er ekki nema sjálfsögð virðing og kurteisi gagnvart þeim sem kunna að rekast hér inn, og ekki síður sjálfum mér, að setja formlega tilkynningu þessa efnis hér inn. Þó hefur nú skriftin verið á veggnum, ef svo má segja, með kyrrstöðunni hér síðustu mánuði.

Það er alltaf einhvern veginn óviðkunnanlegt að sjá burtsofnuð blogg þar sem engin slaufa hefur verið bundin, miði festur á vegg. Eins og draugaskip, rekandi á reiðanum (setjið inn líkingu, skáldlega að eigin smekk, um heimshöfin og netið). Eða eyðibýli. Ummerki um mannaferðir, hversdagsleika í miðjum klíðum, eins og rétt hafi verið skroppið út, en samt ljóst að enginn hefur verið þar í langan tíma.

Því er hér með afstýrt með þessa síðu.

Hvort og hvenær merkið hefst upp aftur er allsendis óvíst.

Hins vegar auðvitað rétt að leyfa því sem hér hefur verið skrifað að standa svo lengi sem netið stendur uppi til þess að sækja megi í það að vild.