[Frímann - framhaldssaga, 5. og 6. hluti. Sjá nánar formála í færslu 5.1.2009.]
[...]
Frímann sat kyrr. Svipur hans var friðsæll og spakur en hann andaði örar en áður. Kannski var það vegna nálægðarinnar við S – ef mannleg nánd fer yfir ákveðin mörk getur hún vakið með sumum innilokunarkennd. Þeirri sérkennilegu hugsun skaut upp í annars stilltum huga Frímanns hversu sérstakt það væri og reyndar aðdáunarvert að þrátt fyrir þessa nálægð við S fyndi hann enga lykt leggja af honum eða úr vitum hans.
S tók til máls.
„Þú þarft ekki að segja mér sérstaklega hvað það er sem þú óttast og hvaða valkosti fáfræði þín hefur byrgt þér sýn á. Þar að auki skiptir í raun engu máli hvað nákvæmlega um er að ræða. Ef þú skilur orð mín rétt á annað borð þá sérðu væntanlega að þau hafa almenna skírskotun og eiga við um hvaðeina sem fáfræðin felur fyrir þér.“
S færði sig framar í stólnum. Hann sat beinn í baki með olnbogana út til hliðanna og hendurnar ósýnilegar, faldar einhvers staðar í fellingum skyrtunnar. Hann talaði lágt en af festu:
„Sjáðu til: Jafnvel þó þú tækir ekki þennan valkost af fúsum vilja þýðir það ekki að hann sé þar með útilokaður. Ég skal útskýra þetta nánar. Mundu að áðan samsinntir þú því að hafa þegar áttað þig á að mengi vilja þíns og mengi valkosta þinna væru ekki samsvarandi. Þú manst vonandi líka að þegar svo háttar hefur einungis valmengið þýðingu í raun og veru, hversu sanngjarnt sem það annars má telja. Nú hlýturðu því að sjá hvað af þessu leiðir: valkosturinn er enn til staðar hvað sem líður fúsum vilja þínum. En taktu nú eftir: með fúsum vilja þínum á ég aðeins við vilja þinn eins og hann birtist sjálfum þér við fyrstu sýn – í sjónhendingu.“
S mjakaði sér aðeins framar á stólbríkina. Andlit hans var nú komið svo nálægt andliti Frímanns að þegar hann tók til máls á ný fann Frímann gustinn af tali hans á enni sínu. Aftur skaut óboðinni og skammlífri hugsun upp í huga hans: það sem hann fann á enni sínu var aðeins léttur og óreglulegur þrýstingur sem fylgdi hrynjandinni í máli S – í andardrættinum vottaði hvorki fyrir varma né raka, svo hann fyndi.
„Ef vilji þinn og valkostir eru ekki á sömu bylgjulengd er það alls ekki óbreytanleg staðreynd, Frímann. Mundu að fáfræði má uppræta með meiri og betri þekkingu. Við vorum sammála um það. Það er hægt að stilla þetta tvennt saman: viljann og valkostina. Þú getur stillt saman bylgjulengdirnar svo þær snertist – renni jafnvel saman. Og magni hvor aðra, allt eftir lögmálum eðlisfræðinnar, sem þú þekkir auðvitað.“
„En hvernig? Hvernig get ég ... stillt sjálfan mig?“ spurði Frímann, fremur klaufalega, eins og hann réði ekki við líkingamálið. Hann roðnaði aðeins og gerði sig líklegan til að umorða spurninguna en S þaggaði niður í honum með skilningsríku brosi um leið og hann hélt áfram að tala.
„Til dæmis með því að spyrja sjálfan þig hvort líklegt sé að val annarra ráðist eingöngu af einskærum áhuga þeirra, öðru nafni fúsum vilja? Eða hvort annað skipti þar hugsanlega máli? Þá geturðu einnig íhugað að ákvarðanir fólks og gerðir þess stjórnast af mismunandi orsökum. Stundum þurfum við að gera eitthvað af illri nauðsyn sem við viljum helst ekki gera, ef það þjónar einhverju langtímamarkmiði sem okkur er í mun að ná. Við leggjum sitthvað á okkur fyrir hinn eiginlega tilgang: hið endanlega val okkar. Og hvert er það? Því höfum við þegar svarað. Í sem stystu máli: lífið. Hvað ert þú tilbúinn að leggja á þig fyrir lífið, Frímann?“
Veikur og breytilegur blásturinn sem fylgdi rödd S var eins og morsmerki á enni Frímanns. Í lokaorðunum óx þrýstingurinn greinilega, náði hámarki með ávarpinu og hvarf svo. Frímann klæjaði undan þessu, einu sinni svo mjög að hann fékk ákafa löngun til að klóra sér. Hann sinnti því þó ekki. Hléð var aðeins til áherslu því S bætti strax við. Nú kom flati fulltrúatónninn aftur fram í rödd hans:
„Þó það sé auðvitað óþarfi og fyrirfram gefið finnst mér vissara að taka fram að enginn getur með réttu beitt annan mann neins konar nauðung til að gera eitthvað gegn vilja sínum. Allir sjá hvílíkt ofbeldi og óréttlæti það væri,” sagði S og skyndilega vék hið daufa hlutleysi úr rödd hans fyrir þungri áherslu:
„Það sem ég hef sagt, Frímann, má draga saman þannig: Fólk getur aðeins sjálft valið og ákveðið, af fúsum og frjálsum vilja, að gera eitthvað gegn vilja sínum. Þetta hljómar kannski þversagnakennt í fyrstu en ég á við að fólk taki þannig endanlega hagsmuni sína fram yfir tímabundna hagsmuni sína. Þetta er meginatriðið í því sem ég hef verið að segja. Enginn nema sá sem bera á byrðina getur valið hversu mikið hann vill leggja á sig fyrir lífið, eins og hann hefur valið það. En þá er líka augljóslega ekki um neina nauðung að ræða. Og hvert er fórnarlambið ef engin er nauðungin? Hver er fórnarlamb ef það er ekkert ofbeldi? Seg þú mér: hvar verður ofbeldið?“
Nokkra hríð var þögn, eins og báðir byggjust við að hinn myndi taka til máls. Orð S niðuðu enn í eyrum Frímanns en hljóðnuðu smám saman. Um leið var sem hugsanir hans sjálfs tækju að rísa upp og réttast við eftir langdregna bælingu, eins lággróður undan fargi. Eitthvað bærðist innra með Frímanni. Efasemdir og óljós vafi, sem hin annars mjög svo sennilegu og sannfærandi orð S höfðu vakið með honum en jafnharðan kaffært, tóku á sig mynd spurningar.
Þetta kom meira að segja Frímanni sjálfum á óvart. Þegar spurningin var fullmótuð kannaðist hann hreinlega ekki við hana. Hann var hvorki viss hvaðan hún kom né hvort hann féllist á efni hennar, eins og huga hans var nú farið. Honum var skapi næst að kyngja henni aftur, eins og kekki í hálsinum. Svo fór þó ekki. Spurningin slapp út, fram hjá huga Frímanns og í raun án viðkomu þar – þrátt fyrir vilja hans en ekki vegna hans. Hann fann hana rísa hægt en óviðráðanlega upp á við innra með sér – stök og dúandi loftbóla, glitrandi í myrku djúpinu, líkt og síðasta andvarp drukknaðs manns, sem sekkur og hverfur í sortann fyrir neðan.
Spurning Frímanns leið út í andrúmsloftið, jafnhæværsklega og innihald loftbólunnar sem springur á yfirborðinu.
„Hvað er nauðung? Og hvenær er nauðung? Getur nauðungin ekki líka birst í hinu innra: verið bæði mikil og knýjandi innra með fólki þó hún sé hvergi sjáanleg að utan?“
Í annað sinn í samtali þeirra var sem S væri sleginn út af laginu. En aðeins andartak. Eftir stutt hik hristi hann höfuðið ákveðið. Hann horfði enn sem fyrr í augu Frímanns og sagði milt en staðfastlega.
„Nei, Frímann, þannig er það ekki. Innra með okkur er ekkert nema okkar eigin frjálsi vilji og okkar eigið frjálsa val. Ef viljinn ræður ekki för, til dæmis vegna ytri aðstæðna, eins og við ræddum áðan, þá getur ekkert stýrt gjörðum okkar nema val okkar. Hvað annað getur svo sem haft áhrif á okkur, innst inni, en þetta tvennt? Er hægt að neyða sjálfan sig til einhvers? Hefurðu til dæmis prófað að hætta að anda? Hefurðu fundið þig knúinn til að ná ástum einhvers sem þér býður við? Hefurðu ... “
S hugsaði sig um augnablik. Von bráðar virtist hann finna hentugt dæmi því hann lauk setningunni með hæglátu öryggi þess sem veit að hann spilar út hæsta trompinu.
„ ... hefurðu reynt að sannfæra sjálfan þig um eitthvað sem þú veist, innst inni, að er ekki satt?“
Frímann þagði skamma stund, hugsi og dálítið þungur á brún. Svo gerði hann nokkuð sem hann hafði ekki gert frá upphafi samtals þeirra: hann leit í augu S og brosti. Bros hans var þakklátt, feginsamlegt og afsakandi í senn. Hann brást ekki á annan hátt við orðum S en brosið skildi eftir sig greinilega breytingu á andliti hans. Svipur hans varð heiður og bjartur og það brá fyrir glampa í augunum. Ennið sléttaðist, varir og kinnar roðnuðu og fylltust, eins og blóm spryngju út.
Og munnurinn sveigðist í þöglu brosi af því tagi sem gæðir lífi og leyndardómi gyllt og glitrandi líkneski af akfeitum skáeygum og sköllóttum munkum frá Austurlöndum fjær. Þetta var bros uppljómunar og visku, bros þess sem veit að hann þarf ekki framar að spyrja neins.
IV.
Frímann þakkaði S mörgum orðum fyrir ráð hans og góðvild. Hann bjóst til að fara. Með látbragði sínu og svip baðst S undan þökkunum og kinkaði aðeins kolli lítillega. Frímann hafði kvatt S, staðið upp og snúið sér við til hálfs þegar hann stoppaði og sneri sér hægt að S á ný. Hann settist aftur og spurði kumpánlega.
„Mætti ég níðast á þolinmæði þinni og forvitnast um eitt enn?“ spurði hann og tók svo strax til máls, áður en S hafði í raun haft ráðrúm til að svara.
„Ég veit þú ert búinn að ráðleggja mér jafnítarlega og ég get með nokkru móti ætlast til. Samt óttast ég að eitthvað eða einhver gæti orðið til þess að ég missti sjónar á ráðum þínum. Gleymd leiðsögn er gagnslaus, sama hversu góð hún er. Getur þú gefið mér einhver ráð til þess að tryggja að orð þín ónýtist mér ekki og fari forgörðum?“
S kinkaði kolli, eins og hann hefði allt eins átt von á spurningunni. Hann benti Frímanni að koma nær. Frímann hallaði sér fram í sætinu, svo þeir nálguðust jafnvel enn meir en áður.
„Ég held að ef þú gætir þess að hafa ráð mín hugföst héðan í frá þá eigir þú ekki á hættu að gleyma þeim. En þó þú gleymir þeim ekki er alls ekki tryggt að í öllum tilvikum náirðu að beita þeim rétt og lesa úr þeim. Það getur tekið langan tíma, leitt fólk í blindgötur og kostað ómælt erfiði og vonbrigði að tileinka sér þann hugsunarhátt sem þessi almennu viðmið spretta öll af. Slíkir byrjunarörðugleikar geta leitt til þess að fólk glati trúnni á heilræði sem því hafa verið veitt og telji þau jafnvel fals og svikráð. Þannig fara einlægar ráðleggingar oft í súginn án þess að þær hafi nokkru sinni náð að uppfylla tilgang sinn og sanna gildi sitt í raun.“
Það var sem þessi raunsæju orð slægju á bjartsýni Frímanns. Kinnar hans og varir misstu lit sinn og fölnuðu. Smágerar hrukkur komu aftur fram á enni hans, líkt og sprungur í þornandi leðju. Hann spurði loks, varfærnislega: „Get ég átt von á því að þannig fari með mig?“
„Því treysti ég mér því miður ekki til að svara, af fenginni reynslu. Það er mjög misjafnt hvort fólk hafi til að bera þá staðfestu og þrautseigju sem þarf til að láta ekki tímabundin skakkaföll glepja sér sýn á hið endanlega markmið,“ svaraði S, með dapurlegri áherslu, sem hann undirstrikaði með stuttri þögn. Þegar hann tók aftur til máls hafði rödd hans fengið sinn venjulega blæ og var orðin mild og yfirveguð.
„Hins vegar er til önnur leið, bæði einfaldari og heillavænlegri, ef þú vilt í raun tryggja að ráð mín lifi áfram með þér hvað sem á bjátar.“
Frímann kinkaði kolli. Aftur var óvíst hvort hann væri þannig að svara óbeinni spurningu S eða hvetja hann til að halda áfram. S horfði íhugull í augu Frímanns stutta stund. Enn bærðist fíngerður vefnaður skyrtu S ofurlítið með hreyfingum hans, eins og vængbörð risaskötu sem skríður um djúpin.
Svo – líkt og þegar skatan hremmir skyndilega bráð sem hélt sig óhulta – gerði S nokkuð óvænt. Hann hallaði sér hratt niður og í áttina að Frímanni – nokkuð sem hann gat auðveldlega gert úr sæti sínu vegna þess hve nálægt hvor öðrum þeir sátu. Langleitt höfuðið skaust leiftursnöggt hjá vinstri vanga Frímanns og staðnæmdist við vinstra eyrað, rétt ofan við hálsinn, munnurinn opinn og grönin aðeins fýld, kannski vegna hinnar skyndilegu áreynslu sem svo snögg hreyfing útheimti. Andartak var S kyrr í þessari einkennilegu stöðu. Axlir hans og bak hófust og hnigu tvisvar sinnum með andardrættinum. Stundin sem þannig leið virtist lengri en hún í raun var – líklega vegna þess hve aðstæðurnar, það er afstaða líkama þeirra tveggja, voru óvenjulegar. Loks sneri S andlitinu að Frímanni og hvíslaði nokkrum orðum í eyra hans, slitið og með drjúgri þögn á milli. Svo hallaði hann sér rólega til baka aftur, niður í hægindastólinn og seig makindalega í mjúk hægindin.
Frímann sat hreyfingarlaus meðan á öllu þessu stóð. Augu hans fylgdu ekki einu sinni hinni snöggu hreyfingu S. Þau störðu beint fram allan tímann, líkt og hreyfingin hefði aldrei orðið eða þau ekki orðið hennar vör.
Það sem S hvíslaði fór hins vegar ekki fram hjá Frímanni. Það meðtók hann svo skýrt og greinilega að áhrifin jöðruðu við að vera líkamleg. Orð S verkuðu þannig á Frímann að honum fannst hann strax finna fyrir þeim í blóði sínu, hvernig þau mettuðu á nokkrum sekúndum allan líkama hans. Þegar S hafði hallað sér aftur blikkaði Frímann augunum hratt, þrisvar sinnum, og spurði:
„En hvernig getur eitthvað, sem ég fæ ekki séð, vísað mér veginn? Hvernig get ég hagað mér samkvæmt einhverju sem er mér hulið?“
„Ýmislegt af því sem hefur áhrif á okkur, þar á meðal megnið af því sem við trúum og fylgjum, sjáum við alls ekki,“ svaraði S hlutlausri röddu. Enn og aftur brá þar fyrir flötum tóni fulltrúans. „Ástin er ósýnileg, hatrið líka, metnaður, afbrýði og góðvild sömuleiðis. Ég gæti haldið áfram en þú skilur hvað ég á við. Við efumst ekki um tilvist þessara hluta þó við sjáum þá ekki. Vilji ráðamanna, hvað er hann? Ákvarðanir manna sem við þekkjum ekki, um málefni sem við skiljum ekki, teknar á stöðum sem við höfum aldrei komið til – og munum þar að auki líklegast aldrei gera. Þetta hefur afgerandi áhrif á líf okkar án þess að við verðum þess áþreifanlega vör. Allt sem ég taldi upp þekkjum við þegar á reynir og getum auðveldlega greint í framkvæmd. Svipað gildir um það sem ég sagði þér.“
S þagnaði, líkt og hann hefði lokið máli sínu, og hagræddi sér í stólnum. Frímann svaraði engu en svipur hans kallaði á frekari skýringar. Enn einkenndist rödd S af þolinmæði þegar hann bjóst við að útskýra mál sitt frekar, þó greina mætti skýran en kurteisan tón sem gaf til kynna að hér eftir hefði hann ekki meira um málið að segja. Áherslurnar voru skýrar og eindregnar.
„Sjáðu til. Þú getur litið á þetta sem vilja allra manna en þó vilja einskis manns; skoðun og ákvörðun allra en þó einskis. Afleiðingarnar á ábyrgð allra manna en þó á ábyrgð einskis manns. Þá ætti þér, Frímann, að vera ljóst hvernig réttlæti allra og engra er slegið föstu og því framfylgt af hönd allra, sem þó er um leið einskis manns hönd.“
S þagnaði og horfði í augu Frímanns. Hann tók aftur til máls, alvarlega og með áherslu sem gaf til kynna að hann lyki brátt máli sínu.
„Hönd í hönd. Hvor leiðir og hvor er leidd? Er einhver munur? Hvernig er hægt að greina þar á milli? Hið eina rökrétta er auðvitað þetta: báðar leiða og báðar eru leiddar. Á sama tíma. Þú munt finna þetta líka. Þú hættir að velta fyrir þér muninum þegar þú finnur ekki lengur fyrir honum. Á endanum muntu sjá að það er enginn munur. Á endanum verður þér ljóst að það að leiða og það að vera leiddur er einfaldlega einn og sami hluturinn: Þú ert leiddur og þú leiðir sjálfur. Og að lokum veistu ekki einu sinni af því að þú ert leiddur – þú leiðir þig sjálfur!“
V.
Bros S hjaðnaði hægt á vörum hans. Frímann kinkaði kolli til S í kveðjuskyni, svo djúpt og rólega að það var næstum eins og hann hneigði sig. Svo sneri hann sér við og gekk áleiðis til dyranna. Á bak við sig skynjaði hann að S stóð upp, gekk á eftir honum og lagði hönd um herðar hans til að fylgja honum til dyra.
Enn og aftur stóð Frímann ósjálfráða hugsun að verki í höfði sér. Hann hafði tekið eftir hinum fíngerðu höndum S í upphafi samtalsins og undraðist skyndilega ósamræmið milli þeirrar myndar og snertingarinnar sem hann fann nú fyrir. Höndin hvíldi fremur þungt á öxl hans. Hann fann að hún var stór og sterk. Tak hennar var þéttingsfast en þó langt í frá þannig að það ylli honum óþægindum. Frekar þótti honum snertingin innileg; traustvekjandi hvernig hún stýrði honum örugglega og ákveðið til dyranna án þess þó að vera á nokkurn hátt ágeng eða ýtin.
Eftir nokkra umhugsun fannst Frímanni þetta ósamræmi svo áberandi að hann langaði einna helst að líta við og athuga málið. Þó stillti hann sig um það. Bæði gat slíkt tillit verið túlkað sem svo að hann kærði sig ekki um þess háttar snertingu og þar með verið túlkað sem ókurteisi. Hið öndverða var í raun réttara. Honum var þetta síður en svo á móti skapi og hefði þar að auki verið tilbúinn að þola það samt sem áður til að gæta allrar kurteisi í garð velgjörðamanns síns. Einnig var honum ljóst að ámóta órökréttum og undarlegum hugdettum hafði skotið upp í huga honum af og til meðan hann talaði við S. Allar höfðu þær gufað upp jafnóðum og þær dúkkuðu upp. Hann ætlaði ekki að byrja að elta ólar við slíka hugaróra nú. Hann leit því hvergi en horfði staðfastlega beint fram fyrir sig meðan hann nálgaðist dyrnar. Þær stóðu opnar og hann þurfti því hvorki að stoppa né hægja á sér þegar að þeim kom heldur gekk beint út úr herberginu.
Þegar Frímann gekk í gegnum dyrnar fann hann takið um herðar sér þéttast og þyngjast, eins og S þrýsti þær í kveðjuskyni, en án þess að hann fyndi takið linast aftur. Og órætt merki um velvild S hlaut það að vera að takið linaðist ekki þegar dyrnar byrjuðu að lokast á hæla þeim―enda þótt margir hefðu þá talið allri og ítrustu kurteisi fullnægt með fylgdinni eða hugsanlega brugðist við hugboði um að ef hurðin lokaðist myndu þeir læsast úti. Frímann fann nú að komið var að kveðjustund og taldi sér þá loks óhætt að líta um öxl og segja eitthvað að skilnaði við S.
Frímann leit við og greip í tómt. Hann stóð einn fyrir utan dyrnar.
Þung hurðin féll að stöfum og hrökk í lás með lágum skilvirkum smelli, löngu áður en hann hafði rænu á að grípa í húninn.
-FIN
Engin ummæli:
Skrifa ummæli