fimmtudagur, 15. janúar 2009

Frímann - framhaldssaga [3/6]

[Frímann - framhaldssaga, 3. hluti. Sjá nánar formála í færslu dags. 5.1.2009]

[...]

Augu Frímanns hvörfluðu niður á brjóst S. Svipur hans var tómur. Hann kinkaði hægt kolli, einu sinni, svo aftur og loks þriðja sinni. Úr þriðja kinkinu leit hann aftur upp á S og spurði:

„En hvað ef fólk hefur úr engu að velja? Þegar það er bara einn kostur í stöðunni, sem fólk neyðist til að taka. Þá er ekki hægt að tala um neitt val, eða hvað?“

Meðan Frímann spurði var eins og hann blési, sífellt fastar, í þá glóð umburðarlyndis og skilnings sem bjarmaði af í svip S. Um leið og hann þagnaði tók S fumlaust til máls. Rödd hans og látæði var eins og áður. Aftur var eins og hann hefði í raun aldrei þagnað, eins og innskot Frímanns hefði ekki verið hans sjálfs nema að nafninu til en í raun aðeins liður í máli S – upphugsað, ákveðið og kallað fram af honum.

„Fólk hefur auðvitað alltaf val. Það er aldrei aðeins einn kostur, þeir eru alltaf að lágmarki tveir: líf eða dauði. Lífið getur falið í sér fleiri kosti eða færri. Allt frá óendanlega mörgum og niður í einn einasta. Dauðinn er hins vegar fasti. Hann er einn og sami kosturinn og alltaf til staðar.“

„En bíddu nú við: er dauðinn nokkurn tímann val? Er hann ekki óumflýjanlegur? Allir deyja á endanum, sama hvað þeir annars gera í lífinu.“

Frímanni þótti þessi spurning liggja svo beint við að hann hálfpartinn greip fram í fyrir S, skaut henni að með ákveðni sem kom honum sjálfum nokkuð á óvart. Ekki var að sjá að það setti S út af laginu.

„Vissulega, en málið er ekki svo einfalt. Athugaðu að þegar ég nefni dauðann sem valkost þarf það ekki að þýða bráðan bana. Þó kemur sá dauði sem ég á við yfirleitt fyrr en seinna og alltaf löngu áður en hinn óhjákvæmilegi dauði sem er endir alls lífs. Þessi dauði sem ég vék að getur verið langdreginn og flókinn eins og tónverk, margra þátta, með öllum tilbrigðum: skorti, vanmætti, vonleysi, örvæntingu, allsleysi, einsemd, niðurlægingu, sjúkdómum, brjálsemi ... Svo mætti lengi telja. En dauðinn er rauði þráðurinn í verkinu, skín alltaf í gegn. Hann er samnefnarinn, frumtónninn. Og brýst í síðasta lagi fram í endakaflanum, sem er alltaf sá sami og leiðir beint og óhjákvæmilega af alfyrsta tóninum sem er sleginn.“

S lét eftir sér dálitla kúnstpásu áður en hann lauk máli sínu:

„Og sá tónn ... Sá tónn er valið, Frímann.”

Áherslan var þung, leiddi hugann að ómstríðum og yfirþyrmandi lokahljómum tormelts tónverks, ef til vill eins og því sem S hafði lýst.

„En hver er þá svo heimskur – já, og svo eigingjarn! – að velja dauðann? Velja ekki allir lífið, ber ekki öllum eiginlega skylda til að velja lífið? Og er þá ekki í raun eftir sem áður aðeins einn valkostur?“

Orðin komu sjálfkrafa í hug Frímanns, hann fann munn sinn og tungu mynda þau og sjálfan sig segja þau. Fyrir framan hann var að sjá sem hvít skyrta S væri jafnvel eini ljósgjafinn í herberginu. Yfir hvítan flötinn liðu af og til litlar gárur, þegar smágert efnið bærðist með fínlegum hreyfingum S. Andlit S var fölt, svo mjög að það rann stundum allt að því saman við kraga skyrtunnar. Þar mótaði fyrir daufu brosi. Hann kinkaði kolli lítið eitt.

„Heimska og eigingirni, já. En dauðinn er allt að einu valkostur við hliðina á lífinu. Og val fólks verður að virða. Þú veist, vona ég, að það er bjargföst skoðun mín og sjálfur grundvöllur sannfæringar minnar. Meira að segja þegar það val stjórnast af heimsku og eigingirni, eins og þú segir. Þó er rétt að dæma þá sem velja dauðann frekar en lífið ekki of hart því kannski má bæta einu við þessa upptalningu þína: Fáfræði. Sumt fólk er ekki nógu upplýst um hvaða kosti það hefur í raun, það veit ekki hvaða kosti lífið felur í sér. Sumu fólki þarf aðeins að leiðbeina eða hjálpa til að hugsa sig betur um til þess að því verði ljósir kostir sem það hafði ekki einu sinni komið auga á áður, hvað þá íhugað af alvöru.“

Þegar S var um það bil að ljúka máli sínu sviptust augu Frímanns skyndilega í fókus. Það réttist úr baki hans, svipurinn varð íbygginn. Um leið og S sleppti orðinu spurði Frímann lágt en ákveðið:

Sumt fólk, segirðu alltaf. Hvaða fólk er það? Þá hlýtur líka að vera til hitt fólkið, sem öfugt er ástatt um. Þú minnist ekki á það en það felst í því sem þú segir. Og hver ákveður þá hverjir eru hvað?“

„Ég hef hvergi sagt neitt á borð við það sem þú kallar hitt fólkið eða dregið fólk í dilka á annan hátt. Það eru þín orð. Ég bendi aðeins á staðreyndir,“ sagði S og örlaði þá fyrst á geðshræringu í rödd hans. Þó ekki þannig að benti til neinnar reiði, heldur bar hún frekar með sér brýna áherslu á einlægni orðanna eða vott af sárindum vegna þess sem S sakaði Frímann um að hafa gefið í skyn. Broddurinn hvarf jafnskjótt úr rómi S og hann hafði birst. Rödd hans lækkaði og mýktist um leið og hann hélt áfram.

„En það er jafnómögulegt mér eða nokkrum öðrum að breyta því að einhverra hluta vegna er sumt fólk lakar sett en annað. Þetta er einfaldlega staðreynd, hversu dapurleg sem hún má annars teljast. Hvort ástæðan er tilviljun, óheppni, mannaverk, guðleg ráðstöfun eða eitthvað annað er ómögulegt að vita. En enginn mannlegur máttur, ekkert raunhæft skipulag, fær breytt þessu.“

S bar orðin raunhæft skipulag fram eins og þaulreyndur teknókrati sem hafði farið samviskusamlega yfir og útilokað alla aðra möguleika ekki bara einu sinni heldur margsinnis. Hann dró djúpt andann, hljóðlaust og lengi – lengur en Frímann hafði nokkurn tímann séð mann draga að sér andann. Brjóst hans þandist út, axlirnar og olnbogarnir hófust upp og út á við svo hvíti flöturinn fyrir framan Frímann virtist allur stækka. Svipur hans var óbreyttur en röddin hvellari og harðari þegar hann spurði skyndilega:

„Hvor er verr settur fyrir vikið: sá sem velur lífið eða sá sem velur dauðann? Hvor er verr settur fyrir vikið, Frímann?“

Frímann blikkaði augunum. Honum fannst sem árveknin í glansandi augum S hefði stigmagnast í ákefð, allt að því ofsa. Hann leit þó ekki undan.

„Sá sem velur dauðann, held ég,“ svaraði hann umhugsunarlaust.

„Sá sem velur dauðann, heldurðu,“ át S hægt upp eftir honum og endurtók það svo aftur í lágum hljóðum, með áherslu á síðasta orðið. Smám saman dofnaði aftur yfir augum hans og þau færðust í fyrra horf.

„Það held ég líka,“ sagði hann loks alvarlega, næstum hátíðlega. Hann bætti við: „Þá erum við sammála um það, Frímann minn.“

S hallaði sér aftur í stólnum. Um leið var sem hann minnkaði aðeins og skryppi saman. Uppspretta birtunnar í herberginu dreifðist og færðist frá S, kannski vegna þess að ekki bar jafnmikið á hvítu skyrtunni og áður. Frímann dró djúpt andann. Þegar hann velti því nánar fyrir sér gat hann ekki varist þeirri tilfinningu að þetta væri í fyrsta sinn sem hann drægi andann frá því hann bar fram spurningu sína.

Varir S sveigðust, hægt og í stuttum rykkjum, í kalt bros sem þó var sýnilega ekki uppgerð. Augu hans hvörfluðu aftur frá augum Frímanns. Í munnvikunum, hvoru á eftir öðru, brá snöggt fyrir glansandi broddinum á bleikri og liðugri tungu.

[Frímann - framhaldssaga heldur áfram miðvikudaginn 21. janúar.]

Engin ummæli: