Þetta er hluti af frétt á vísi í dag um að Moskva sé samkvæmt tímaritinu Forbes orðin mesta milljarðamæringaborg í heimi:
,,Að sögn Forbes er Rússland aðalfréttin hjá þeim í ár því milljarðamæringar þar spretta nú upp með miklum hraða. Og Forbes finnst það heillandi að hver einasti þeirra hefur auðgast á eigin hæfileikum. Enginn þeirra hafi erft auðæfi sín og meðalaldurinn hjá þeim sé aðeins 46 ár."
Þetta býður upp á lítinn leik, í ætt við Hvar er Valdi? - Hvar eru glöpin?
Rússland. Milljarðamæringar. Að auðgast á eigin hæfileikum.
Rússland. Milljarðamæringar. Að auðgast á eigin hæfileikum.
Rússland. Milljarðamæringar. Að auðgast á eigin hæfileikum ...
Hvað ætli maður þurfi að endurtaka þetta oft til að trúa því? Eða: ætli það sé hægt að endurtaka þetta nógu oft til að þetta verði satt?
Ef maður vissi ekki betur, að Forbes væri virðulegt blað sem tekur sig alvarlega, þá myndi maður halda að þetta væri einhver kaldhæðni eða grín - kannski einhvers konar æfing í naívisma. Og kannski eru mistök í þýðingunni.
Maður eiginlega vonar það.
PS: Ég fékk tölvupóst frá manni sem benti mér á frumheimildina. Hún er svona:
,,What's fascinating is that every single one of them is self made," said Forbes senior editor Luisa Kroll.
Þannig að Forbes virðist eiga þetta skuldlaust. Vegna þess að ég reyni að vera meðvitað bláeygur og bjartsýnn fyrir hönd mannsins og sérstaklega blaðamennsku í heiminum held ég þó í von um að þetta sé massív kaldhæðni hjá Lovísu Krullu.
Ef svo er þá á hún aðdáun mína óskipta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli