sunnudagur, 27. janúar 2008

Styrmir býr til strámann

Í leiðurum Morgunblaðsins undanfarna daga hefur ritstjóri blaðsins hamrað tiltekið járn af alefli. Hann er að þyrla upp moldviðri. Hann er að búa til strámann.

1.

Enda þótt ég sé ekki sérfræðingur um efnið tel ég óhjákvæmilegt í upphafi að gera með mínu nefi nokkra grein fyrir hugtakinu strámanni. Strámaður er fyrirbæri sem þekkt er úr rök- eða mælskulist (ég nota hér orðið list lauslega). Í stað þess að ræða málefnalega og í góðri trú um efni málsins beita menn þeirri brellu að búa til annað umræðuefni – strámann – og reyna að setja hann í staðinn. Hráefni strámannsins getur verið fjölbreytt og verður best skilgreint neikvætt: allt annað en raunverulegt efni og kjarni málsins. Ástæða þessa er vitaskuld sú að menn vita að þeir hafa slæman málstað að verja og vilja að eitthvað annað og viðráðanlegra komi þar í staðinn, helst af öllu þeim í hag.

Efni í strámanninn velja menn af kostgæfni. Fyrir hverja staðhæfingu sem honum er lögð í munn eiga þeir fyrirfram sérsniðin skotfæri: meitluð rök sem falla að hverri slíkri staðhæfingu, núlla hana út og kveða óyggjandi í kútinn. Strámenn geta tekið á sig ýmsar myndir. Þeir geta verið byggðir upp úr einhverju sem tengist efni málsins ekki á nokkurn hátt. Þá eru þeir einfaldlega tilraun til að skipta um umræðuefni, til að setja umræðuna út af sporinu. En strámenn geta líka verið sýnu skuggalegri fyrirbæri. Það er þegar strámenn eru notaðir við spuna á sjálfu umræðuefninu, þegar reynt er að snúa því á hvolf og breiða yfir eða myrkva kjarna þess með öllum tiltækum ráðum. Þá verða strámenn liður í orwellískri viðleitni til að hafa áhrif á söguna, á það sem skrár koma til með að geyma um atburði líðandi stundar. Bókstaflega reyna menn þannig með notkun á strámanni að spinna aðra sögu en þá sem raunverulega gerðist.

Þeir sem vilja byggja strámenn af síðari sortinni þyrla af ásettu ráði upp moldviðri af ósannindum, útúrsnúningi, ýkjum, hálfsannindum, villandi túlkunum og, síðast en ekki síst, órökstuddum ásökunum á hendur þeim sem þeir telja andstæðinga sína. Þessar ásakanir eru yfirleitt lævíslega samdar: nægilega óljósar til að geta falið í sér fjarvistarsönnun fyrir smiðinn en á hinn bóginn má ráða fullvel af þeim hverja þær eiga að hitta fyrir. Úr moldviðrinu hrifsa smiðirnir hálmstrá sín, gera úr þeim fléttur sínar sem þeir tjasla saman og móta þannig strámanninn. Loks drösla þeir sköpunarverki sínu á fætur. Þeir tylla því upp á áberandi stað og hrópa á athygli fjöldans – „komið og sjáið’ann!“ og kannski eitthvað um afhjúpun og makleg málagjöld. Síðan plaffa þeir strámanninn niður. Þeir sýna enga miskunn, tefla öllu sínum vopnum fram.

Svo, á meðan hvort tveggja púðurreykskýið og mannfjöldinn dreifist smám saman og þynnist út, bíður smiður og böðull strámannsins milli vonar og ótta. Hann spyr sig: mun fólk gína við agninu, sættir það sig við þessa aftöku sem lyktir hins upphaflega umræðuefnis? Kemst ég upp með þetta?

2.

Í leiðurum í Morgunblaðinu undanfarna daga hefur verið pískað upp moldviðri af ofangreindu tagi. Í gegnum moldviðrið glittir svo ekki verður um villst í skuggalegar útlínur strámanns sem er að taka á sig mynd í höndum ritstjórans. Hann hefst upp hægt og bítandi, í hverjum leiðaranum á fætur öðrum og jafnvel er viðað til hans víðar í blaðinu. Leiðaraskrifin eru nafnlaus en út frá staðsetningu þeirra, máli og stíl er nærtæk sú ályktun að þau eigi rætur sínar að rekja á einn eða annan hátt til zetu núverandi ritstjóra blaðsins. Strámanni þessum er greinilega ætlað að verða opinber söguskýring Morgunblaðsins á atburðarásinni í kringum nýafstaðin meirihlutaskipti í borgarstjórn Reykjavíkur.

Ásýnd og innihaldi þessa strámanns verður best lýst með orðréttum dæmum og þarf raunar varla meira til. Ég tek skýrt fram þess að ég afmarka umfjöllun mína við eitt tiltekið stef í skrifum blaðsins, eða eina hlið strámannsins. Eftirfarandi dæmi lúta öll að sama atriði. Vel mætti hins vegar bera víðar niður. Allar leturbreytingar hér eftir eru mínar.

Eftirfarandi er úr leiðara Morgunblaðsins, föstudaginn 25. janúar sl.:
„Samfylkingin þolir bersýnilega ekki að missa völdin í borgarstjórn og bregst við með afar ógeðfelldum áróðri gegn Ólafi F. Magnússyni borgarstjóra. Annars vegar með [...] og hins vegar með skipulögðu illu umtali um hinn nýja borgarstjóra sem er svo skammarlegt að furðu gegnir að þetta fólk vilji leggja nafn sitt við [...] Forystumenn Samfylkingarinnar ættu að sjá sóma sinn í að stöðva það ómerkilega tal, sem berst nú úr þeirra röðum.“

Leiðari Morgunblaðsins, laugardaginn 26. janúar sl., er undir fyrirsögninni: „Ósæmileg aðför að borgarstjóra.“ Þar segir meðal annars:
„Forystumenn Samfylkingarinnar hafa síðustu daga staðið fyrir ósæmilegri aðför að nýjum borgarstjóra. [...] Hámarki aðfarar forystumanna Samfylkingarinnar að Ólafi F. Magnússyni er svo náð með illu umtali og rógi, sem forystumennirnir sjálfir og aðrir á þeirra vegum breiða út um hinn nýja borgarstjóra [...] Reykvíkingar eiga að svara þessari aðför forystumanna Samfylkingarinnar að Ólafi F. Magnússyni með því að slá skaldborg um hann [...] Forystumenn Samfylkingarinnar ættu að sjá sóma sinn í því að hafa hægt um sig á næstunni.“

Í sama blaði er viðtal blaðamanns Morgunblaðsins við Ólaf F. Magnússon. Það hefst á inngangi sem lýkur með þeim orðum að rætt sé um „ ... pólitíkina, mótmælin, rógsherferðina, veikindin og fjölskylduna.“ Í viðtalinu er síðan Ólafur spurður: „Stendur yfir rógsherferð gegn þér?“ Vegna þess hvernig tekið er á málinu í leiðurum blaðsins, eins og hér er lýst, er nauðsynlegt að geta þess hvernig Ólafur sjálfur svarar: „Ég hef orðið var við hugmyndaflug og illkvittni sem ég hélt að væri ekki til hjá fólki. Ég set spurningarmerki við mannlegar tilfinningar slíks fólks og starfsheiður þeirra fjölmiðlamanna sem lengst hafa fengið í aðförinni gegn mér. [...] “

Afgangurinn af svari Ólafs tengist ekki því hverjir standi á bak við meinta rógsherferð gegn honum. Hér er rétt að vekja sérstaka athygli á því að Ólafur svarar spurningunni hvorki af eða á heldur með svo almennum hætti að vart verður lengra komist. Því mætti jafnvel halda fram að hann svari alls ekki spurningunni heldur komi með sjálfstæða athugasemd. Af svari hans verður í öllu falli ekki ráðið neitt um það hverjir séu meintir rógberar um hann að því undanskildu að hann telur vera að finna sökudólga meðal fjölmiðlamanna.

Leiðari Morgunblaðsins, sunnudaginn 27. janúar sl., ber yfirskriftina: „Ofbeldi gegn lýðræðinu.“ Þar er vitnað til framangreinds viðtals við Ólaf og hann sagður tala af hreinskilni, opið og heiðarlega, um persónulega hagi sína. Þá segir í leiðaranum:
„Til þess þarf meiri kjark og hugrekki en þeir hafa sýnt, sem að honum hafa veitzt úr launsátri. Það er rétt sem hann segir, að það er einsdæmi, alla vega á lýðveldistímanum, að stjórnmálamaður sé lagður í einelti vegna veikinda. Hvers konar fólk og hvers konar flokkar eru það, sem nota veikindi manns sem vopn gegn honum á vettvangi stjórnmálanna. [...] Nú er þess að vænta, að eineltinu gegn [Ólafi] vegna veikinda hans verði hætt og að pólitískir andstæðingar hans sýni honum þá virðingu að fjalla um störf hans sem borgarstjóra á málefnalegan hátt.“

3.

Á grundvelli þessara dæma leyfi ég mér að telja fullskýrt hvernig sé háttað ásýnd, uppbyggingu og innihaldi þess strámanns sem ritstjóri Morgunblaðsins, hefur á undanförnum dögum reynt að berja saman og pota fram fyrir alþjóð sem lið í söguskýringu Morgunblaðsins á því sem hlýtur að verða minnst sem einnar alræmdustu og verst þokkuðu uppákomu íslenskrar stjórnmálasögu.

Varla þarf að benda á að svo skökku skýtur við að ritstjórinn minnist ekki einu orði á neitt það sem hefur raunverulega og réttilega verið fólkinu í landinu ástæða reiði og vandlætingar í þessu máli öllu saman. Þess í stað snýr hann málinu á hvolf og á rönguna. Svart verður hvítt, tveir plús tveir verða fimm og vörn verður hatrömm sókn. Styrmir býr til strámann úr uppdiktaðri rógsherferð, aðför og einelti á hendur Ólafi F. Magnússyni vegna veikinda hans. Hann bókstaflega smjattar á almennum og óljósum ásökunum um róg, áróður og launráð sem engin rök eða dæmi styðja, hvað þá sanna. Ég ítreka: hvergi hefur opinberlega komið fram að þeir sem ritstjóri Morgunblaðsins sakar um að ráðast gegn Ólafi F. Magnússyni á þann hátt sem hann útmálar svo vandlega hafi svo mikið sem komist nálægt því. Ritstjórinn tekur samt andköf af vandlætingu og fordæmingu yfir ,,hvers konar fólk og flokkar” það er sem gerir svona lagað. Í leiðinni, í þremur leiðurum, skellir hann skuldinni kategórískt hvað eftir annað, beint eða óbeint, á Samfylkinguna, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Dag B. Eggertsson.

Nú er það svo að manni verður næstum því orða vant þegar maður stendur gagnvart svona blygðunarlausum spuna, rangfærslum og illkvittni. En bara næstum því. Svo getur maður ekki orða bundist. Þrír leiðarar, efnislega eins að stórum hluta, hafa farið í byggingu eins strámanns. Ritstjórinn hyggst greinilega dauðrota. Hins vegar lætur hann sem áður segir ekki svo lítið að færa ein einustu rök eða nefna nokkurt dæmi til stuðnings hinum stóralvarlegu ásökunum. Ætlist hann til þess að nokkur taki mark á honum er þó frumskylda hans að rökstyðja mál sitt með fullnægjandi hætti. En hann hirðir ekki um það. Hann einfaldlega kastar þessu fram, eins og smjörklípunni frægu. Ákveður að sjá hvað festist, sjá hvort strámaðurinn hafi burði til að bola raunveruleikanum burt. ,,Let them deny it” er hugsunin.

Þetta er ekki bara spuni, heldur blátt áfram heilaspuni. Hvað veldur? Telur ritstjórinn sig hafinn yfir málefnalega og sanngjarna rökræðu – hafinn yfir sannleikann, kannski? Hvaða tilgangur getur helgað slík meðul, sem beitt er með slíku offorsi?

Mér segir svo hugur um að á því sé dapurlega hversdagsleg og ómerkileg skýring. Ritstjórinn reynir með þessu að deila og drottna. Hann vill reka fleyga. Hann bisar við að sá fræjum tortryggni og brenna brýr ef einhverjar kunna að vera eftir. Ritstjórinn situr vígmóður uppi í Hádegismóum og spilar einhvers konar sjálfskapað pólitískt Matador - kannski líkist það frekar Counter Strike - án þess að skeyta nokkuð um æru eða tilfinningar þeirra leiksoppa sem hann þykist hafa í hendi sér. Í leiðinni hefur hann gleymt, eða lagt til hliðar, eigin sjálfsvirðingu. Leikaðferð hans er einföld: Sviðin jörð. Leikreglurnar? Engar.

Því verður loks að halda til haga að enginn hefur talað fjálglegar eða velt sér meira upp úr veikindum Ólafs F. Magnússonar en ritstjóri Morgunblaðsins og hans lagsbræður. Enginn hefur nýtt sér veikindi Ólafs í pólitískum tilgangi nema einmitt þeir sjálfir.

Ritstjóri Morgunblaðsins hefur með ofangreindum skrifum og misheppnaðri strámannsmíð sinni gengið of langt. Hann hefur orðið sér til skammar. Vonandi sér hann sóma sinn í að biðja þá afsökunar sem hann hefur að sönnu meitt með skrifum sínum, fyrst og fremst Dag B. Eggertsson, sem eins og allir vita sem hafa snefil af þekkingu á þessum málum á síst af öllum skilið það skítkast sem stendur frá ritstjóranum. Ef hann er ekki tilbúinn til þess þá ætti ritstjórinn kannski að íhuga að fara eftir eigin hlakkandi tilmælum og ,,hafa hægt um sig á næstunni”.
Til eru fleyg orð sem höfð voru uppi af svipuðu tilefni, þó ekki jafnalvarlegu. Þau eru að vísu margtuggin en eiga einhvern veginn svo óskaplega vel við í þessu tilviki. Þau mælti af munni stjórnmálamaður sem var að mörgu leyti mikilhæfur og merkilegur og sem ritstjóri Morgunblaðsins ætti að geta verið ófeiminn við að taka sér til fyrirmyndar:

Styrmir Gunnarsson: Svona gera menn ekki.

Höfundur er lögfræðingur, íbúi í Reykjavík og „fráfarandi“ áskrifandi Morgunblaðsins.

24 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir þessa grein.

Það er skilningi mínum gjörsamlega ofvaxið hvað Styrmir Gunnarsson fær að tolla sem Ritstjóri.

Stjórn Árvakurs hlýtur að vera haldin sjálfseyðingarhvöt á hæsta stigi.

Nafnlaus sagði...

Umjöllum mbl. um nýlega skipan héraðdómara er sama marki brennd.

Kærar þakkir fyrir að andæfa siðleysi. Fleiri þyrftu að leggjast á árar með Sigurði Líndal.

Guðmundur sagði...

Þetta er góð grein
Umfjöllum MBL hefur þessu marki brennd í allnokkur undanfarin ár. Má þar minna á umfjöllun um forseta þessa lands sem leiddi til þess að fjöldi fólks skilaði inn ákrift sinni

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir góða grein. Ég vona að fleiri sigli í kjölfarið.

Nafnlaus sagði...

Glæsileg grein og þörf. Þú ættir senda hana inn í 24 stundir ellegar Fréttablaðið.

-Íslensk blaðamennnska færist sannarlega á hærra plan dagin sem Styrmir Gunnarson setur lokið á pennann. Sennilega eru þessi heiftarlegu skrif fjörbrot Styrmis í ritstjórastól Morgunblaðsins.

Nafnlaus sagði...

Tær snilld og talað úr mínu hjarta.
Sigurður Haukur

Nafnlaus sagði...

Magnaður pistill. Hann ætti auðvitað að birtast á opnu Morgunblaðsins. Annars hef ég ekki keypt þetta blað í 5 ár.
Gísli Baldvinsson

Nafnlaus sagði...

Það var loksins að einhver hitti naglann á höfuðið um þessi ógeðfeldu skrif sem eru blaðinu til háborinnar skammar. Þau eru eftir öðru í þessum ömurlega skollaleik.
Gauti B. Eggertsson

Nafnlaus sagði...

Þessi aðferð sem þú lýsir, sýnist mér vera ein útfærslan á taktíkinni sem er yfirleitt beitt til að réttlæta vafasamar ráðningar í opinber embætti. Nærtækasta dæmið er nýleg ráðning héraðsdómara, þar sem gagnrýni á ákvarðanatöku valdhafa er presenteruð sem árásir á manninn sem var ráðinn.

Fín grein hjá þér. Ég vona að sem flestir lesi hana.

Broddi Sigurðarson.

Nafnlaus sagði...

Magnaður pistill.

Magnús Ásgrímsson, fljótlega fyrrverandi áskrifandi Morgunblaðsins

Lilja Ósk sagði...

frábær grein Finnur! Já smmála ættir að senda hana inn í 24 stundir og fréttablaðið...

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þessa góðu grein. Mannvonskan á ritstjórn moggans er ótrúleg. Tek undir með öðrum hér endilega sendu þetta á hin blöðin.

Nafnlaus sagði...

Þetta var nú sennilega merkilegasta grein sem ég lesið í lengri tíma. Gott ef það þetta eigi ekki við almennt um "rökræður" sjálfstæðismanna á seinustu árum. fctwpo

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góða og greinandi grein.

Andri Valur sagði...

Vel mælt

Nafnlaus sagði...

Hér fljótum vér eplin ...

Stígur sagði...

Bravó. Ég legg til að þú birtir þessa grein á prenti undir fyrirsögninni 'Af Styrmi'.

Góðar stundir.

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir frábæra og málefnalega grein! Þeir hafa stundað þetta alltof lengi og komist upp með það á Mogganum, við sagðum upp áskriftinni þegar ófrægingarherferðin gegn sitjandi forseta lýðveldisins fór á forsíðu moggans á sjálfan kjördag.

Enn og aftur kærar þakkir!

Bjössi sagði...

Mér finnst það ansi lágkúrulegt af þér að nýta þér geðsjúkdóm ritstjórans til þess að gera hann að skotspóni.

Húrra!

Nafnlaus sagði...

Frábær grein og fræðandi. Ég er búsett í útlöndum og því miður þá hef ég ekki getað sett mig almennilega inn í málin. Upplýsingar mínar koma frá bloggsíðum vina og kunningja, frétta á ruv.is og svo á mbl.is Ég hef verið að furða mig á því hvers vegna fréttaflutningur mbl.is á þessu máli hefur verið svo lakur. Eina sem hefur verið ritað inn á þann um málið var samdægurs og svo í nokkra daga þar á eftir. Annars hefur málið verið þaggað niður og fréttir af veðri tekið við. Nú kemur þetta allt heim og saman. Píslavotta viðtöl við hinn nýja borgarstjóra eru sóun á mínum tíma og ég held ég reyni nú að afla mér upplýsinga að heimann með öðrum hætti. Þetta er orðið gott.

Nafnlaus sagði...

Frábær grein Finnur!
Góð greining á ástandi sem lengi hefur verið viðvarandi. Ef ég hefði möguleika á myndi ég vilja fá fjölmiðlagreiningu á óhróðrinum um Ólaf F, þannig að í ljós kæmi hvaðan bullið kemur.
Kveðja
Jóna - Vestfirðingur

Nafnlaus sagði...

Tek undir með þér Gauti. Greinin er tær snilld. Hún þyrfti að birtast í sjálfu Morgunblaðinu, blaðinu sem ég sagði upp í morgun eftir áratuga áskrift
Kristín Jóns

Nafnlaus sagði...

Góð grein og rökfræðileg útskýring frábær. gætir þú komið með fleiri slíkar.
Skyldi þó aldrei vera að Styrmir greið sé haldin sjálfseyðingarhvöt, hann ætlar að skilja Moggann sem rjúkandi rúst áður en hann hættir?

Snorri sagði...

Mjer þykir full mikil og góð samstaða jámanna hjer.

Hlutdrægni Morgunblaðsins og Styrmis hefur mátt vera lýðum ljós í lengri tíma. Birtist hlutdrægni blaðsins ekki hvað síst í umfjöllun þess um kvótakerfið.

Mjer þykir þú gera styrmi(og mogganum) óþarflega hátt undir höfði með þessum langhund.