mánudagur, 15. desember 2008

Tekið undir

Ég tek undir þessi orð Egils á heimasíðunni hans í dag:

Og manni gæti ekki staðið meira á sama um hver verður formaður í Framsóknarfokknum.
Undirtektirnar taka einnig til freudísku mismælanna.

(Ég held áfram að lauma hér inn stökum athugasemdum og fimmaurabröndurum þar til ég hef manndóm í mér og tíma - í réttum hlutföllum - til að setja saman eitthvað bitastæðara.)

sunnudagur, 30. nóvember 2008

Búinn!

Vonandi verður fleiri en þessum sem hafa gert í sig við Austurvöll gert að þrífa upp eftir sig sjálfir.

En hver mun húsvenja þau? Og hvenær?

mánudagur, 24. nóvember 2008

Typecast

Atvinnutækifæri fyrir fyrrverandi miðlara, spákaupmenn og fjárplógsmenn?

Þurfa ekki einu sinni að koma sér í karakter.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Kleppan

Einu sinni var íslensk útrás sem fór fram í útlöndum.

Nú á hún sér stað á Austurvelli á laugardögum.

mánudagur, 17. nóvember 2008

Tíu litlir bankastrákar - vergjarnar hugmyndir

Hugmyndir eru ekki við eina fjölina felldar.

Nú hefur sama hugmynd tekið mig og geðþekkan drátthagan rithöfund á löpp, eftir því sem ég kemst næst í fjölmiðlum.

Ávöxturinn með mínu nefi er hér, kvæðið Tíu litlir bankastrákar - barnagæla handa brenndri þjóð á heimasíðu Tímarits máls og menningar.

Sjá nánari greinargerð um tilurðina þar...

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Farhandverkamenn

Jibbí, vinna!

Og á sama tíma lævís leið til að innlima tjallann í hið hánorræna genamengi.

Makleg málagjöld eftir framkomuna undanfarið!

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Og sjá...

Fréttir hafa borist af áreiti og fordómum gegn Íslendingum í Bretlandi og Danmörku.

Í því ljósi má spyrja hvort ofsóknirnar séu komnar á annað plan? Eru önnur öfl komin í spilið en bara búðarlokur, landamæraverðir og pulsusalar?

Og nú beinist reiðin ekki bara að fólkinu heldur líka ferfætlingum, þjóðartáknum og stolti okkar. Fram eru komin níðingsleg tilbrigði við fánabrennur og matvælasniðgöngu.

Ég fer þá fyrst að skjálfa ef Hann hefur snúist gegn okkur.

Efast annars nokkur um að það hafi ekki sviðnað svo mikið sem hár í faxi Gråne gamla í gerðinu við hliðina?

þriðjudagur, 28. október 2008

Haldið til blogghaga

Það er smáfrétt í Fréttablaðinu í dag um Gæjann sem geymir aurinn minn, kvæði eftir mig sem birtist á heimasíðu Tímarits Máls og menningar.

Sjá:

Vísir

Einhverra hluta vegna birtist kvæðið sjálft ekki með þessu á Vísi.is, bara í blaðinu. En hér er það:

TMM

Vegna fréttarinnar þykir mér bráðnauðsynlegt mannorðs míns vegna að færa til bókar, svo það sé einhvers staðar skráð, að ég viðhafði ekki við hinn ágæta blaðamann hið forboðna orð "gjörningur" heldur var það lagt mér í munn.

miðvikudagur, 7. maí 2008

sunnudagur, 27. apríl 2008

Að tala niður krónuna

Samviskuspurning:

Rétt upp hönd sá sem hefur talað um fimmkalla, tíkalla og hundraðkalla þegar hann hefur átt við þúsund sinnum hærri fjárhæðir?

Eða (nú bara spurning en engin samviska) heyrt aðra tala þannig?

Þetta er talsmáti sem iðulega hefur heyrst á fjármálafylleríinu - í kojum eða kauphöllum eftir atvikum - undanfarin ár.

Svo hafa spekúlantar talað um kúlur í gríð og erg og átt við milljónir. Hvað er kúla? Er hún ekki nokkurn veginn svona: 0.

Ætli karmalöggan eða [fyllið inn æðri máttarvöld] sé að hnykla vöðvana, hugsi sér að taka fólk á orðinu?

laugardagur, 26. apríl 2008

Sláið ekki því þér munið slegnir verða

Mbl.is er með frétt um það að trukkurinn sem sló lögregluþjóninn um daginn hafi sent frá sér yfirlýsingu vegna atviksins.

Hann segist vera sleginn yfir þessu.

Maðurinn er skáld. Kannski freudískt skáld en skáld engu að síður. Jafnvel skáld af guðs náð.

Afgangurinn af yfirlýsingunni virðist staðfesta það.

Áður en maður hefur lesturinn býst maður við yfirbót.

Ekki þarf að lesa lengi til að sjá að þvert á móti er þetta bara yfirklór.

Í lokin verður ljóst að þetta er í raun hrein og klár yfirfærsla. Á allri ábyrgð og skömm vegna málsins. Það var allt í raun annað hvort öðrum eða öðru að kenna.

Þó hann segi það ekki með þeim orðum felst í þessu ekkert annað en það sem sumir aðrir hafa sagt eftir heimskupör: ég bara lenti í þessu.

Syndin bara féll í kjöltuna á honum. Og hvað gera menn í því?

Yfir!

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Ýmislegt um vorið, að komast undan neanderdalsmönnum og apann sem vandar sig

Vorið er komið, eftir nokkur antiklímöx undanfarnar vikur.

Ég sannfærðist endanlega um þetta nú síðdegis þegar ég þurfti ekki annað en hugsa um að ná í grillið upp á geymsluloft til þess að það byrjaði að rigna.

En það verður samt grillað, fjandinn eigi það - já, grillað eins og enginn sé morgundagurinn.

Svo er sumardagurinn fyrsti á morgun og ekki seinna vænna fyrir vorið að smokra sér milli vetrar og sumars.

Talandi um grill: Fyrir þá sem eru eins og ég að kikna undan nístandi leiðindum þess að fylgjast síendurtekið með neanderdalsmönnum öskra sig hása og slá sér á brjóst inni í trukkastóði get ég hiklaust mælt með því að slökkva á sjónvarpsfréttunum og kveikja á Rondó í útvarpinu. Það er sígild rás RÚV á bylgjulengdinni 87.7.

Umskiptin eru eins og ég get ímyndað mér það að vera eina stundina stjórnlaus í blússandi geðrofi, stökkt og molnandi lauf ofurselt minnsta gusti áreitis. Finna sig svo allt í einu inni á deild 33C á Lansanum siglandi ofurfriðsamlega, lygnum sjó, inn í líknandi mók.

Ég gef ekki upp að svo stöddu hvort ég átti með vísuninni til frummennanna við vörubílstjórana eða lögguna. Kannski báða hópana. Verð þó að segja að ég held að löggan sé langt í frá stærsti sökudólgurinn um það hvernig fór í dag. Það er að minnsta kosti mál að þessari vitleysu linni. Ég get hins vegar ómögulega fengið mig til að eyðileggja góða skapið með því að úttala mig nánar um það núna. Kannski geri ég það seinna.

Fleira títt?

Kannski bara það sem ég og annar af tryggustu lesendum þessarar síðu ræddum um á skípinu í gær. Að minnsta kosti annar hinna tveggja tryggu er skyldur mér í beinan karllegg og báðir dvelja í útlöndum. Þeir eiga það aukinheldur sameiginlegt að leggja stund á heimspeki. Þríhyrningurinn er svo fullkomnaður með því að þeir eru einnig í reglulegu sambandi, útlagarnir, og ræða um hugðarefni sín í boði skíp sömuleiðis - hvar heimspeki mun ekki síst vera á döfinni.

Það er kannski ómaksins vert að bera undir hinn óumdeilanlega beina karllegg nokkuð sem bar á góma hjá mér og hinum hugsanlega beina karllegg í gærkvöldi. Ég tek mér m.a.s. það bessaleyfi að gera bera það á torg ef svo má segja. Vitandi að þar er í yfirfærðri merkingu frekar um að ræða eitthvað sambærilegt við Ingólfstorg en t.d. Rauða torgið eða Times Square.

Svo líkingin sé tekin alla leið er ég þá maðurinn sem stend þar stundum á kassa og tala út í loftið. Við sjálfan mig eða stöku vegfaranda eftir atvikum. Hinn hugsanlegi er þá hettupeysudrengurinn sem hangir þar lon og don og rennir sér á bretti. Hinn óumdeilanlegi er maðurinn sem kemur og sest á bekk, þegir og fær störu á meðan hann veltir fyrir sér stórum spurningum. Stendur kannski upp til að fá sér Hlölla þegar svengdin kemur allt í einu óþyrmilega aftan að honum. Splæsir svo í ís á eftir. Sem hann er ekki fyrr búinn með en hann kemst að því að slíkt óhóf er ekki dygðugt og fær nagandi samviskubit. Verður að setjast aftur á bekkinn til að brjóta það til mergjar.

Jæja, hinn hugsanlegi sagði mér að hann og hinn óumdeilanlegi væru ef svo má segja hvor af sínum skólanum í heimspekifræðunum. Hinn fyrrnefndi er að minnsta kosti að hluta hallur undir svokallaða meginlandsheimspeki. Hinn síðarnefndi síður en svo og er analýtíker fram í fingurgóma, blæs á alla frumspeki og vill hafa fast land undir fótum í hverju skrefi. Ég man ekki betur en þeir sem eru ginnkeyptir fyrir svoleiðis séu kenndir við engilsaxneska skólann, eða eitthvað slíkt.

Mér datt þá allt í einu í hug að um þetta mætti kannski nota dæmið fræga um apamergðina sem situr til eilífðarnóns og hamrar á lyklaborð. Sumir segja að það séu stærðfræðileg líkindi, jafnvel vissa, fyrir því að fyrr eða síðar myndi tilviljunin þannig leiða í ljós eitt stykki Hamlet eða álíka meistarastykki.

Ég velti fyrir mér hvort segja mætti að apaskarinn væri þá meginlandsmennirnir, þar sem það er góðlátlega liðið og e.t.v. hvatt til að menn setji næstum hvað sem er niður á blað. Í þeirri von eða vissu að smám saman þokist þeir nær og höndli jafnvel á endanum Þekkinguna (já, með stóru Þ-i).

Engilsaxarnir á hinn bóginn eru bara einn api. Sem vandar sig.

Nú hefur hinn óumdeilanlegi (sem veit hver hann er, þ.e. ef hann er þá ekki kominn því lengra í efahyggjunni) tækifæri til að bregðast við og setja fram yfirvegað álit sitt á þessari líkingu í ummælakerfinu. Eða bara senda mér tölvupóst.

mánudagur, 21. apríl 2008

Gítarveggir

Ég sá Hellvar spila í Kastljósinu áðan. Prýðileg hljónst. Þau reisa massíva gítarveggi ofaná tölvutrommutakti. Og Heiða er með flotta rödd. Ég fékk alls konar nostalgísk æsku- og unglingsáraendurlit úr öðrum áttum sem bónus við tónlistina þeirra sem slíka.

Ef vel tekst til er eitthvað dáleiðandi og angurvært - stundum angistarlegt - við vel hlaðna veggi úr rifnum gíturum. Margt verra til en að dvelja innan þeirra í dálitla stund.

laugardagur, 19. apríl 2008

¿Qué?


Ef myndin prentast vel geta glöggir lesendur séð í henni lýsingu á þjóðfélagsumræðu á Íslandi síðustu vikur.

Kannski meira um það síðar. Það er vissara að taka fram að þetta er óháð gildi margs í hinni sömu umræðu, sem ég ætla ekki að draga í efa.

(Tæknivinna var í höndum Kára Jóhanns Sævarssonar vinar míns, sem sinnti henni af listfengi líkt og endranær.)

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Fölsk flögg: bábiljan um mengunarbyrðar Íslendinga

Aðeins tilhugsunin um hina óskaplegu hugmynd um að setja á fót olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum hefur álíka áhrif á mig og það sem hugsa mætti sér sem móðir allra misheppnaðra krítarstroka á bónaða skólatöflu, ef fólk getur gert sér slík ósköp í hugarlund. Ég get alveg viðurkennt að þetta tekur einnig til tilfinninga minna í málinu.

(Guð og góðar vættir forði mér nú frá sjálfbirgingslegum og sjálfskipuðum rökfræðingum sem rjúka þar með upp og gefa mér umsvifalaust rauða spjaldið fyrir svokölluð ,,tilfinningarök". Sú flokkun er einhvers konar tilraun til að varpa rýrð á sum rök, gera þau ómerkari en önnur og afgreiða þau þannig með ódýrum hætti út af borðinu. En það er önnur Ella. Ég er svo sem alveg til í að ræða það einhvern tímann en þangað til leggst ég bara bljúgur á höggstokkinn og bið hlutaðeigandi að spara sig hvergi. Ég vil þá heldur bíða hel en vera memm með þeim.)

Svo ég útskýri aðeins nánar væri ég líklega sem Aðalvíkingur, ef hið óhugsandi gerðist, í þeirri stöðu að þurfa á sumrin að fylgjast með skipunum sigla fyrir víkina, nær eða fjær, koma undan Straumnesinu og hverfa fyrir Ritinn. Og kannski yrði á endanum ekki bara um sjónmengun að ræða. Ég þarf ekki að hnýta við ,,á þessu einstaka svæði". Það vita það allir sem þekkja til.

Það var fín umfjöllun, eða tilraun til umfjöllunar, um þetta í Íslandi í dag í gærkvöldi. Sölvi sjónvarpsmaður og hverfisbróðir minn úr Laugarnesinu fær prik fyrir viðleitni til að spyrja nokkurra aðkallandi spurninga.

Til dæmis: er eðlilegt að það fáist bara einhverjir útúrsnúningar og almennir frasar sem segja ekki neitt þegar spurt er hver á bak við þessar meintu þreifingar? ,,Rússneskir og bandarískir kaupsýslumenn" er álíka skýrt og að segja að forsvarsmaður hins stórkostlega öfugnefnda fyrirtækis Íslensks hátækniðnaðar sé homo sapiens frá norðurhveli jarðar. Ég segi meintu þreifingar því að það er ekkert á borðinu með þetta enn í dag. Þrátt fyrir nokkurra mánaða umræðu. Ég vona að það sé til marks um það hversu mikil alvara er í raun á bak við þetta.

En það er ábyrgðarhluti - eins og stjórnmálamönnum finnst gaman að segja - að halda einhverri leynd yfir þessu og hafa ekki spilin á borðinu. Málið er þess eðlis að þetta kemur öllum við. Afsakiði meðan ég æli ef menn bera við einhverjum viðskiptahagsmunum. Það er orðið þreyttara skálkaskjól en sérverkefnin fyrir menn sem þarf að fjarlægja hægt og hljótt úr opinberu starfi ASAP. Eins og það sé massíf samkeppni meðal þeirra sem eru að reyna að pimpa út þessari stöð annars vegar eða hins vegar meðal hinna, meintra áhugamanna um að reisa ferlíkið. Þessi leynd er afar tortryggileg svo ekki sé meira sagt.

Svo er þetta sjónarmið um að ,,horfa á málin í hnattrænu samhengi, olíuhreinsunarstöð/álver mengar alls staðar jafnmikið/skaðar umhverfið meira annars staðar vegna óumhverfisvænni framleiðslu, við - mannkynið, gefa menn til kynna með prestlegri andakt - komumst ekki af án þessa, einhvers staðar verða vondir að vera" o.s.frv.

Þetta hefur verið notað í álversumræðum á þann hátt að íslensk álver knúin af rafmagni frá ,,endurnýjanlegum orkugjöfum" séu hnattrænt séð æskilegri en kolaknúin álver annars staðar. Það kann vel að vera eitthvað til í þessu, á einhverju plani, en menn teygðu þetta sjónarmið ansi langt og reyndu að breiða yfir mjög mikið með því. Nú gengur þetta sama sjónarmið aftur ljósum logum með því að einhver einhver fundið upp á því að segja að við notum öll olíu og einhvers staðar verða vondir að vera, við getum ekki skorast undan okkar byrðum í þessum efnum o.s.frv.

Síðast í gær sá ég Pétur Blöndal í Íslandi í dag þylja þetta í belg og biðu upp eins og einhvers konar fermingarvers. Ég verð að segja að þá fannst mér taka steininn úr. Ég hélt að sá ágæti maður - ég meina þetta alls ekki í neinu háði, maðurinn hefur virst mér almennt séð skynsamur og vandaður - væri þeirrar lífsskoðunar að óhætt væri að flokka meðal sérhyggjumanna. Ekki alveg ,,hver er sjálfum sér næstur, guð hjálpar þeim sem hjálpar sjálfum sér o.s.frv." en alla vega þeim megin á vellinum.

En nú allt í einu eru einhverjar meintar hnattrænar skyldur á Íslendingum í að taka á okkur mengun og þungaiðnað fyrir heiminn? Ef þetta er prinsippafstaða hjá Pétri Blöndal og öðrum - töluvert minni spámönnum - sem þessu hafa haldið fram þá má kannski bara fagna því (svo aftur sé notað orðskrípi frá stjórnmálamönnum) þegar á allt er litið. Að minnsta kosti hefðu þá ýmsir ástæðu til að fagna.

Því það verður ekki bæði sleppt og haldið. Við getum varla án mótsagnar sett okkur á þann háa hest að þykjast geta valið og hafnað að vild þegar kemur að því að axla byrðar fyrir heiminn.

Ef við viljum þá ekki vera ómerkingar orða okkar verðum við að byrja á að auka þróunaraðstoð landsins upp fyrir það algera lágmark sem við látum nú af hendi rakna. Þurfum að færa okkur töluvert framar á þeirri meri.

Svo er matarskortur í heiminum: hvílir ekki hnattræn skylda á okkur að opna fyrir frjálsan aðgang að fiskimiðunum fyrir sveltandi meðbræður okkar, hvaðan sem vera skal? Jafnvel lána þeim eitthvað af þessum bátum sem virðast vera til á landinu án þess að mega fiska.

Við skulum ekki gleyma útlendingamálum. Ísland er eitt lokaðasta land á byggðu bóli að því leyti, bæði fyrir flóttamönnum og öðrum innflytjendum. Í samræmi við hið nýuppfundna prinsipp eigum við að galopna dyrnar, ekki seinna en í gær. Leyfum lýðnum að koma til okkar, því að þeirra er íslenskt ríkisfang! Strjálbýlið hérna er líka margfalt meira en víðast annars staðar. Örfáar hræður á ferkílómeter - rétt rúmlega þrjár, líklega. Og öll þessi auðu hús úti á landi, er það ekki, eins og alltaf er verið að segja?

Ber okkur ekki líka skylda til að bjóða fram víðerni Íslands til að urða geislavirkan úrgang? Má ekki auðveldlega finna út með reikningi að það sé löngu tímabært að grafa slatta af úrani og plútóníum á fáförnum stað uppi á hálendi? Eða losa það í hafið. Varla þarf nokkuð annað en að líta með samanburðar- og hlutfallsgleraugum á heimsflatarmálið og aftur á strjálbýlið, hugsanlega líka á heilsufarsupplýsingar um kvilla af völdum geislavirkni til að þetta blasi við.

Fangelsi í Bandaríkjunum - og eflaust víðar - eru yfirfull og miklu stærra hlutfall fólks í fangelsi þar en hér. Var ekki að losna heil herstöð á Miðnesheiði? Við getum varla leyft okkur að setja á fót enn eitt þekkingarþorpið þegar svo stendur á. Svo er meira að segja nú þegar gaddavírsgirðing utan um svæðið og kontról póst við útganginn. Ef einhver er stressaður með að fá svona marga afbrotamenn inn í landið gætum við reynt að fá þarna fanga sem eru ekki of óstýrilátir. Ætli nýju bestu vinir okkar, einræðisstjórnin í Kína, væri ekki til í að úthýsa til okkar eitthvað af sínum pólitísku föngum? Þeir yrðu ábyggilega viðráðanlegri en krakkdíler úr Queens.

Svona mætti halda lengi áfram. Og ég er ekki einu sinni byrjaður að færa mig upp á skaftið í fáránleikanum, ef einhver hélt það, þó það væri kannski gaman að velta nokkrum slíkum hlutum upp.

Þetta er ný notkun á fræga höfðatölufrasanum, öfug í þetta sinn: nú er höfðatalan ekki notuð til að plástra þjóðarstoltið með misvelviðeigandi tölfræðisamanburði heldur til að koma brauðfótum undir þessa bábilju. Hún gerir út á einhvers konar órökrétt píslarvætti, manni verður helst hugsað til hugmyndarinnar um erfðasyndina. Henni er einungis - ég endurtek: einungis - ætlað að þjóna öðrum og alveg óskyldum hagsmunum, nefnilega því einu að finna einhverja leið, alveg sama hversu órökrétta, til að verja þessa vondu hugmynd. Svo treysta menn á eins og venjulega að ef þetta er kallað nógu hátt og nógu oft þá holi dropinn steininn o.s.frv.

Ég leyfi mér að fullyrða að enginn sem þetta segir heldur þessu fram í einlægni - það þarf ekki annað en að horfa á ferilskrá viðkomandi, hugsanlega flokkskírteini og afstöðu að öðru leyti í umhverfismálum - heldur er þetta bara hentifáni, falskt flagg, til að koma til leiðar öðru markmiði. Mikið óskaplegt kaldlyndi held ég að þurfi til að hafa sig í að halda þessu fram án þess að blikna.

Ég man reyndar ekki betur en umhverfisráðherra hafi svarað þessum röddum nokkuð vel og skörulega á þingi um daginn. Og þurfti nokkurn rögg til því að kappræðumenn og málaliðar eiga alltaf jafnauðvelt að sveipa sig skinhelgi með útúrsnúningum af þessum toga.

Með leyfi: þessi svokölluðu rök hljóma eins og eitthvað af málefnunum.com, innhringitímum í útvarpi eða aðsendum blaðagreinum - og þá af þeirri gerð sem eru, eða voru, settar við hliðina á myndasögunum í Mogganum.

Ég veit ekki af hverju en ég þegar ég hugsa um þetta svífur fyrir augum mér passamynd af kinnfiskasognum öldruðum manni með vatnsblá ufsaaugu og gisna burstaklippingu. Ég er ekki viss hvers vegna. Ég þyrfti kannski að leggjast á sófa hjá einhverjum og láta greina þetta samkvæmt kúnstarinnar reglum.

Grundvallaratriðið er að þetta eru útúrsnúningar og hártoganir og engum til sóma sem étur þetta upp.

Sölvi snerti á öðru sem honum gekk voðalega illa að fá svar við: hann spurði hvort það væri forsvaranlegt að láta þetta malla í einhverju svona leynimakki í langan tíma því að ef það gengi nógu lengi stæðum við kannski frammi fyrir því að allir gerðu ráð fyrir að af þessu yrði og ákvörðunin tæki sig bara sjálf. Ég er reyndar nokkuð viss um það að einmitt þetta er stór hluti af leikskipulaginu hjá þeim sem vilja koma þessu á koppinn sama hvað. Ásamt einhvers konar klappliðsstemningu hjá sveitarstjórnarmönnum með merki erlends gjaldmiðils - ég bið lesendur að afsaka en nákvæmari upplýsingar liggja ekki fyrir á þessu stigi málsins - í augunum.

Með klappliðinu - væri nær lagi að kalla þá klappstýrur? - finnast engar efasemdir um að peningar geti hugsanlega ekki réttlætt allar fórnir eða til séu aðrir hagsmunir sem geti vegið þyngra - eða vegi eitthvað yfirhöfuð. Hvað þá fínlegri og blæbrigðaríkari þankar á borð við það hvernig þjóðfélag við viljum skapa hér til framtíðar, hvernig við viljum vera og hvað við viljum standa fyrir. Mér er til efs að þessir menn hafi jafnvel hugsað sér að selja sig - og okkur auðvitað með, gleymum því alls ekki - sérstaklega dýrt, hvað þá meira. Svo þykjast þeir geta komist upp með að segja bara fimmaurabrandara um framlegðarlausa fjallasýn á milli þess sem þeir þylja samviskusamlega hræðsluáróður um að fjórðungnum sé að blæða út og hálfkveðnar vísur um að það verði ,,að gera eitthvað".

Svörin við þessari spurningu Sölva voru mjög loðin, gengu mest út á það að ,,málið væri á sveitarstjórnarstiginu", að ,,Alþingi hefði ekki stjórntækin lengur" - sem má vel vera satt að einhverju leyti - og svo framvegis. En á meðan á iðnaðarráðuneytið þá ekki að vera að styrkja forvinnuna - eða hvað sem er svo sem verið að gera, það veit það enginn - um milljónir, eins og fram kom að gert hefði verið.

Það þarf skýra prinsippafstöðu frá stjórnvöldum um þessi mál sem allra fyrst. Þá á ég við ríkisstjórn og Alþingi og þá sem þessar stofnanir skipa. Þar treysti ég á allt gott og skynsamt fólk en kannski helst á þá sem trommuðu upp með slagorð á borð við Fagra Ísland þegar reiptogið stóð sem hæst um atkvæðin fyrir aðeins tæpu ári síðan. Ég reyndar held að margir á þessum vettvangi hafi verið að reyna að segja þetta á nærgætinn hátt og óbeint - að þetta séu einfaldlega óraunhæfar hugmyndir og loftkastalar, og þá í þeim skilningi ef hægt er að hugsa sér austurþýska kassablokk eða ámóta óskapnað sem loftkastala.

Ég vona að þetta sé réttur skilningur. Ef svo er mega læðupokarnir sem plotta um þetta halda áfram að fremja sitt gjamm og glamur og spúa sínu súra galli mín vegna.

En svo haninn gali þrisvar við dæmum úr tuggubók stjórnmálamannsins, þá harma ég - þó ég springi seint eins og ekkjurnar í ævintýrunum - segi og skrifa harma að enn skuli finnast fólk á Íslandi sem er eða þykist vera áfram um að hér rísi olíuhreinsunarstöð og sem rekur ómerkilegan á- og undirróður fyrir þeirri forneskju og glapræði.

föstudagur, 11. apríl 2008

Orðakleppur V - Veraldartímabil

Vík svolítið út af venjunni hér með því að vera ekki með neitt eiginlegt heimsósómatal um rislítið eða að mínu mati lélegt mál. Og þó - þetta er bara svo furðulegt dæmi að ég veit ekki alveg á hvaða bás á að setja þetta.

Það er frétt á mbl.is um að til standi að stofna minningarsjóð um Vilhjálm Vilhjálmsson. Þar er þessi setning:
Þá hefur Sena gert samning við Minningarsjóðinn um öll verk Vilhjálms út veraldartímabilið.
Veraldartímabilið?

Er þetta nýtt orð yfir eilífð? Eða kannski framtíð, í þessu samhengi?

Bráðum kemur betri tíð með blogg í haga

Ég hef verið á miklu spani og þeytingi og ég veit ekki hvað.

Í gærkvöldi lauk nokkurra vikna allstífri törn með Óperukórnum í Reykjavík með bara býsna vel heppnaðri þátttöku í flutningi á Missa Solemnis með sinfoníunni í Háskólabíói.

Bloggið hefur setið kirfilega á hakanum á meðan enda er maður auðvitað bara einhamur sama hversu mikið kaffi maður lætur ofaní sig (sem ég geri reyndar í miklu hófi enda mun meiri te-maður, eins og kunnugir vita).

En þráðurinn er ekki langt undan og ég seilist aftur í hann von bráðar.

Þessa færslu má skoða sem ,,fregnir af andláti mínu eru stórlega ýktar"-gerðarinnar.

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Að trúnaðarmála yfir gagnsæið

Á Eyjunni (og annarri hverri bloggsíðu á landinu, þ.e. þeim sem ekki eru að fjalla um stóru meiraprófsmómælin niðri í bæ) er fjallað um för ráðherra og blaðamanna með einkaþotu til Búkarest á NATO-fund. Þar er haft eftir aðstoðarmanni forsætisráðherra, sem svarar fyrir þessa ráðstöfun fyrir hönd ráðherranna:

,,Gréta vildi ekki gefa upp kostnað við leigu vélarinnar og sagði að ákvæði væri í leigusamningi við Icejet um að verðið væri trúnaðarmál."

Mér finnst verulega stór spurning hvort úrskurðarnefnd um upplýsingamál myndi fallast á það sem virðist vera túlkun aðstoðarmannsins á umfangi lögbundins upplýsingaréttar fólks og fjölmiðla að ríkið geti takmarkað aðgang að upplýsingum af því tagi sem hér um ræðir með einföldu samkomulagi við þriðja mann um að upplýsingarnar teljist trúnaðarmál.

Í sjálfu sér er ekki hönd á neinu festandi í þessari stuttu athugasemd aðstoðarmannsins en ég væri til í að sjá nánari rökstuðning hennar eða ráðherranna fyrir því undir hvaða takmörkun í upplýsingalögum nr. 50/1996 þau telja þessar upplýsingar geta fallið og hvers vegna.

Væntanlega mun viðkomandi blaðamaður láta reyna á það.

Nema þetta sé allt saman aprílgabb, eins og einhver í kommentakerfinu á Eyjunni hélt.

mánudagur, 31. mars 2008

Orðakleppur IV - Undir árás

Fyrirsögnin á forystugrein Fréttablaðsins í dag er: Undir árás. Hún fjallar um grunsemdir manna um Soros-legt samkrull einhverra kaupahéðna gegn krónunni.

Ég veit eiginlega ekki hvar skal byrja með þetta - eða yfirhöfuð hvort segja þurfi meira. Ekki nema kannski það að er ekki laust við að maður sé í mikilli kvöl (sjá fyrri Orðaklepp) fyrir hönd tungunnar þegar svona er skrifað í víðlesnasta dagblað landsins.

fimmtudagur, 27. mars 2008

Á bananabeðnum

Ég sá þetta í hálffimm fréttum Kaupþings í fyrradag:
Yfirdráttarlán heimila bera skammtímavexti og hafa því breytingar á stýrivöxtum Seðlabankans strax áhrif á slíka vexti. Í dag standa stýrivextir í 15% og hafa ekki mælst hærri frá því Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið í ársbyrjun 2001. Háir vextir ættu að öðru óbreyttu að draga úr hvata heimila til frekari skuldsetningar. Ekki hefur þó dregið úr yfirdráttarlánum heimila svo marktækt sé og má í raun segja að frá því um mitt árið 2007 hafi slík lán verið fremur með leitni til aukningar í stokknum.
Þetta feitletraða vakti helst athygli.

Svo geta nokkur vel heppnuð goggl fyllt í myndir í kringum þessar flísar sem sitja eftir í kollinum á manni eftir lestur annars gleymds texta.

Samanber þessa frétt úr Mogganum í byrjun mánaðarins (7. mars):
Vélsleðasalan 50% meiri

Sala á vélsleðum hefur gengið vel í vetur og þakka vélsleðasalar það snjónum. Sölumönnum ber saman um að samsetning vélsleðasölunnar sé að breytast. Dregið hafi úr sölu á ferðasleðum en sala fjallasleða aukist. Það bendir til þess að þeim fjölgi sem nota sleðana sem leiktæki í styttri ferðum en að áhugi á löngum vélsleðaferðum hafi minnkað.
Aftur sat þetta feitletraða (fyrirsögnin) í mér.

Um þessar mundir getur maður svo ekki opnað sjónvarpið án þess að sjá Örn Árnason í havaí-skyrtu með málarahatt, sólskinsbrosandi. Hann hallar sér aftur í skræpótta hjólhýsainnréttingu, glaðbeittur og sællegur - gott ef ekki með hanastél með míniatúrregnhlíf, eða er minnið að skreyta myndina núna? - teygir handleggina makindalega eftir bakinu á settinu og dæsir Þetta er bara gaman! eða eitthvað ámóta. Hann er næstum eins og karakter úr David Lynch-mynd, mínus hrollur (og þó, kannski bara öðruvísi hrollur).

Svo á myntin að detta: ...kaupa hjólhýsi kaupa hjólhýsi kaupa hjólhýsi ekki seinna en núna strax á stundinni í einum hvínandi grænum helvítis hvelli helst í gær hvar er nafnspjaldið hjá þjónustufulltrúanum!

Þá brýst eitthvað um í manni sem reynist vera þetta (úr Blaðinu heitnu í sumar, 1. ágúst):
Brjáluð sala í hjólhýsum

Vegna blíðviðris hafa sumarvörur af öllum stærðum og gerðum rokið út úr fyrirtækjum og Íslendingar keppst við að birgja sig upp af vörum sem henta heitasta tíma ársins. Sala hjólhýsa sem og húsbíla og fellihýsa hefur stóraukist og verið með ólíkindum það sem af er sumri.

„Það er búin að vera brjáluð sala og geysileg eftirspurn eftir hjólhýsum," segir Arnar Barðdal, framkvæmdastjóri Víkurverks. Hann bætir því við að hjólhýsin hafi algerlega slegið í gegn hjá þjóðinni, þó einnig seljist talsvert af húsbílum og fellihýsum.

Rúmlega helmingur fólks borgar með bílalánum. Hinir staðgreiða ýmist eða setja gamlan tjaldvagn eða fellihýsi upp í nýtt hjólhýsi og nota það sem útborgun. Hægt er að fá 100% lán fyrir herlegheitunum og margs konar greiðslumöguleikar eru mögulegir.

Þarf að feitletra eitthvað af þessu?

Jæja, nóg af upptalningu. Þessar tilvitnanir segja ákveðna sögu um þjóðarsálina blessuðu.

Er það bara ég eða hefur það ef til vill hent fleiri að setja í huganum stórt upphrópunarmerki við það þegar maður sér að þrátt fyrir gengishrunið, vöruskiptahallann, vaxtabrjálæðið, þensluna og allt það, já þrátt fyrir efnahagsástandið eins og það er og óþarfi er að útmála frekar, er fólk enn ófeimið við að botna yfirdráttinn eins og enginn sé morgundagurinn? Eða getur verið að vilji hafi ekkert með það að gera, að fólk eigi engra kosta völ? Ef svo er er ástandið sannarlega verra en maður hafði ímyndað sér.

Og varðandi þessar auglýsingar sem gera sitt ítrasta til að pranga hjólhýsum og allra handa færanlegum híbýlum inn á fólk: ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að jarðvegurinn sé jafnfrjór og hann greinilega var síðasta sumar miðað við umfjöllunina í Blaðinu hér ofar. Örn Árna eða enginn Örn Árna - kaupir einhver hjólhýsi þegar fasteignin hans, sem kannski var aldrei að neinu leyti í hans eigu, er komin í mínus, jafnvel?

Nema hér sé verið að herja á nýjan markað: á þá sem þurfa að smækka við sig, einmitt af þessum ástæðum. Fínt þá að vera móbæl - eða fljótandi, liquid, svo notuð sé nærtæk líking - og geta kannski flúið með hjólhýsið og fjölskylduna með Norrænu til Danmerkur. Gerst landflótta í smá tíma. Ágætis sósjall í Danmörku náttúrlega og lítið mál fyrir þykkhúðaða Frónbúa að leiða hjá sér Þórðargleðina í Baunanum. Kannski fer maður að sjá beinskeyttari áróður í þessum dúr ef ferðahýsin hreyfast ekki því hraðar af plönunum á næstu vikum. Þá eru þessir gaurar með jafnlangt viðskiptanef og stutt er í siðferðinu.

Er hugsanlegt - svo þetta sé tekið, játa ég fúslega, dálítið yfir strikið - að til verði úr Íslendingum einhvers konar sígaunar Norðurlandanna?

Ætli verði pískrað á götuhornum í Norður-Evrópu í framtíðinni, þegar hjólhýsalestirnar (nú ekki dregnar af Reinsum, Bensum og Krúserum) fara skröltandi hjá:

Þarna fara Íslendingarnir.

Þeir spiluðu rassinn svo rosalega úr buxunum að þegar skellurinn kom varð hann margfaldur: gengið hrapaði, fasteignaverðið líka en vextir og verðbólga stefndu á óendanlegt. Allt í einu voru menn ekki bara skuldugir heldur eignirnar í mínus líka. Innlendir og erlendir bankar eignuðuðust næstum allt á uppboðum eða með innlausnum. Nú er landið eitt risavaxið þrotabú, draugabæir út allt. Bara nokkrir verðir hér og þar, í nætur- og dagvörslu, og menn í brýnasta viðhaldi. Enginn getur keypt eignirnar til baka því bankarnir, sem eru náttúrlega glóbal stofnanir og geta ekki hlustað á neitt þjóðhollustuvæl, þurfa að verja svo háar stöður.

Og hér fara Íslendingarnir.

Ég er jafnmikill formælandi ákvörðunarfrelsis einstaklingsins og hver annar, bæði hvað varðar kaupahéðna og kaupendur, en er til of mikils mælst að fara fram á það að hjól- og fellihýsasalar vakni, hnusi dálítið út í loftið og finni hinn óeiginlega kaffiilm? Þá af hinum vel viðbrennda og malaða efnahag þjóðarinnar? Ef fólk getur látið eitthvað á móti sér eins og staðan er í dag er það að bæta hjólhýsi á hundrað prósent láni á bílaplanið.

Í strangri yfirfærðri merkingu myndi ég segja um þá ágætu menn sem þenja fiðluna sem óðir við núverandi ástand og kreista út úr henni þessa skerandi tóna eins og Radiohead sagði í texta um árið:

When I am king you will be first against the wall.

Af undirtektum

Einn í einu...

þriðjudagur, 25. mars 2008

Getspeki

Sá sem þekkir fyrirmyndina að kvæðinu hér fyrir neðan vinnur-heybindivél-þegar-það-sekkur-skerið. Rétt athugasemd fer í stóra pottinn. Miði er möguleiki o.s.frv.

Þið sem eruð útilokuð vegna innherjastöðu - þið vitið hver þið eruð. Þið megið samt koma með villandi vísbendingar.

Þetta er kannski of auðvelt... en getið nú húsfreyjur (og -freyir (?))!

Fjörutíu prósent tíðarandi

Búð á Breiðstræti

Red white and blue
og fánar blakta
á bílastæðum.

Tvö ránfuglsaugu
með rauðum æðum

á bráðina stara
og reikna út.

Alltaf að spara.

fimmtudagur, 20. mars 2008

Orðakleppur III - Að vera í kvöl

Eiður Smári er tæklaður í leik með Barcelona. Hann engist í grasinu og það þarf að skipta honum út af. Íþróttafréttamaður Stöðvar 2 lýsir atvikinu í fréttatíma með þeim hætti að áhorfendur engjast engu minna í sætum sínum:
Eiður Smári er greinilega í mikilli kvöl...
Tvítyngd fjölmiðlun, einhver?

mánudagur, 17. mars 2008

Hver borgar?

Menn eru ekkert að skafa af hlutunum í nafngiftum á málþingum um ástandið núna:

Er allt að fara til fjandans? spyr einn titillinn.

Held það sé ráðstefna á vegum Viðskiptablaðsins.

Það er beitt grein af vefútgáfu Guardian, guardian.co.uk, skrifuð í framhaldi af brunaútsölunni á bandaríska fjárfestingabankanum Bear Stearns, sem var fimmti stærsti fjárfestingabanki í BNA. Fyrirsögnin er America was conned - who will pay?

Þar segir m.a.:
Business, of course, needs consumers to carry on spending in order to make money, so a way had to be found to persuade households to do their patriotic duty. The method chosen was simple. Whip up a colossal housing bubble, convince consumers that it makes sense to borrow money against the rising value of their homes to supplement their meagre real wage growth and watch the profits roll in.

As they did - for a while.

Now it's payback time and the mood could get very ugly. Americans, to put it bluntly, have been conned. They have been duped by a bunch of serpent-tongued hucksters who packed up the wagon and made it across the county line before a lynch mob could be formed.
Þetta er, a.m.k. framan af, kunnugleg lýsing á atburðarás.

sunnudagur, 16. mars 2008

Orðakleppur II - Valdbeitingartæki

Þessi orðakleppur er sóttur í sarpinn.

Það bókast hér með að orð(ó)myndin valdbeitingartæki er í besta falli klaufaleg, þokukennd og óþörf ambaga. Í versta falli er hún meðvituð - en vissulega jafnklaufaleg og -þokukennd - leið til að koma sér hjá því að nefna hlutina sínum réttu nöfnum.

Í síðara tilvikinu væri markmiðið væntanlega það að komast hjá eða draga úr því sem mælandinn telur að myndu vera óþægileg viðbrögð annarra við því sem sagt er og þar með að þurfa að takast á við þau. Slíkt eiga þeir ekki að þurfa að óttast sem hafa málefnalega skoðun að verja. Sem skoðunin um að lögregla þurfi að vopnbúast frekar má vissulega kallast - einkum þegar horft er á samhengið í dæminu sem hér um ræðir, sjá neðar - hvort sem fólk er sammála þeirri skoðun eða ósammála.

Kannski er þetta tabú í íslensku samfélagi en það þarf þá bara að snúa það tabú niður eins og önnur, ræða málið málefnalega og (vonandi) komast að málefnalegri niðurstöðu.

Hver sem ástæðan var þá var tönnlast á þessu í nokkurra mánaða gamalli frétt Moggans, frá 12. janúar sl., um árás nokkurra manna á lögregluþjóna við skyldustörf. Hér er niðurlag hennar:
Eitt af því sem nefnt hefur verið til sögunnar lögreglumönnum til frekari verndar er svonefnd rafbyssa, en embætti ríkislögreglustjóra hefur innleiðingu slíkra byssna til skoðunar. Sveinn Ingi Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir félagið vilja leita leiða til að búa betur að lögreglumönnum og nefnir ný valdbeitingartæki í því samhengi.

„Það sem gerðist er fáheyrt, hreinlega nýr veruleiki fyrir okkur og kannski sá nýi veruleiki sem við höfum óttast. Kröfum lögreglumanna varðandi ný valdbeitingartæki til að verja sig mun alla vega fjölga og þær verða háværari í framhaldi af þessu. Það er grundvöllur að starfinu að menn geti unnið sína vinnu án þess að eiga sífellt á hættu að verða fyrir skaða.“

laugardagur, 15. mars 2008

Um samband löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins

Orð dagsins eru vísa sem ég bögglaði saman í starfsmannaveislu Alþingis sem haldin var í gærkvöldi á Hótel Sögu. Þar mun vera löng hefð fyrir því að tala úr pontu í bundnu máli. Á mínu borði þótti ekki hægt að láta sitt eftir liggja. Borðfélagar mínir tjáðu mér að nýliðum væri, líkt og oft áður fyrr og síðar, ætlað að ganga fram fyrir skjöldu í áhættusömum verkefnum. Sem ég og gerði.

Fyrirsögnina á færslunni má hafa til nánari skýringar um efni vísunnar - ef þess þarf þá með.
Á Alþingi' eru' ötulir flokkar
ekkert smá bráðgerra
manna sem fyrir munn okkar
mæla Já, ráðherra!
Vísunni er hér með blygðunarlaust komið á stafrænt flot. Vegna þess að ég veit ekkert um lesendafjölda (eða -fæð) síðunnar - og hef reyndar hingað til kosið að varðveita það grandleysi mitt, eins og það væri orðað á lögfræðísku - dettur mér í hug að hér væri gráupplagt að setja fram margbrotna og langorða líkingu við flöskuskeyti.

En ég læt það eiga sig.

mánudagur, 10. mars 2008

Orðakleppur I - Ég man ekki eitthvað um upphaf á viðtali við fyrrverandi fegurðardrottningu í Fréttablaðinu um helgina

(Stutt, og að þessu sinni frekar þokukennd, færsla um íslensku. Ég vona að úr verði sería. Það kemur í ljós þegar og ef Orðakleppur II birtist. Og að nýir orðakleppar komi hér fram meðan ég held þræði og kunnátta mín í rómverskum tölum endist.)

Þetta viðtal við fyrrverandi fegurðardrottinguna (það er annars áhugavert hugtak af ýmsum ástæðum og kannski verðugt viðfangsefni síðar) hófst með einhverjum lágkúrulegum - í skilningi Þórbergs - hætti sem kallaði fram heimsendaspámanninn fyrir hönd tungumálsins innra með mér.

En ég man bara ekki lengur hvernig þessi fyrsta setning var sem kveikti með mér heimsósómann. Ég kannski bæti því við ef ég man eftir að fletta þessu upp.

---

PS: Líkt og kemur fram í athugasemd hér fyrir neðan var upphafið á viðtalinu: ,,Það er að taka fjölskylduna tíma að koma sér fyrir í Bolton."

Ég segi bara eins og í talblöðrunum í Andrés-blöðunum: Stuna!

Dæmin um þetta orðalag eru reyndar legíó - eins og Árni Matt myndi segja - bæði í skrifuðu og töluðu máli núorðið. Ég held ég gangi bara alla leið hér í mínu meinhorni og kalli þetta hvimleitt, svo ekki sé fastar að orði kveðið - jafnvel plagsið!

Svo er til afbrigði af þessu sem oft sést í fyrirsögnum. Þá gengur þetta svo langt að sögninni að vera er sleppt og úr verður eitthvað á borð við:
Að veiðast vel í Laxá
eða
KR að spila vel í deildinni
Þarna glatast öll merking í raun, það sést að minnsta kosti ef maður les þetta hægt og hugsar málið aðeins, og þetta verður eitthvað annað en venjuleg íslenska. Ég skrifaði einu sinni nett meinhorns-bréf til ritstjóra veiðisíðu sem ég les oft á netinu þegar svona fyrirsagnir voru orðnar frekar regla en undantekning þar. Vona að ég hafi ekki virst vera of mikill kverúlant en mér þykir þetta bara skipta máli og finnst allt í lagi að vera opinskár með það. Bréfið var líka mjög pent og bréfaskipti okkar í kjölfarið í mestu vinsemd. En þetta orðalag ríður þarna röftum ennþá.

Í athugasemdunum hér fyrir neðan hefur Eirik vinur minn lagt út af þessu.

Er hægt að enda Orðakleppinn öðruvísi en á þessum orðum:

Góðar stundir.

Fátt er svo með öllu illt...

Það er frétt inni á Eyjunni um bandamann John McCain sem situr í súpunni samkvæmt fyrirsögninni vegna umfangsmikilla fjársvika. Svo les maður fréttina og sér að... tja, getur maður sagt að maðurinn eigi sér töluverðar málsbætur, eins og komist er að orði í dómum?

Samkvæmt nýjustu fréttum í þessu máli á Renzi að hafa stolið 400.000 dollurum frá 50 félagasamtökum sem berjast gegn fóstureyðingum.

Ætli maðurinn sé einhvers konar Trójuhestur demókrata eða lýðréttindasamtaka, sendur inn til að eyðileggja fyrir Pro Life-liðinu?

Afgangurinn af fréttinni dregur að vísu aðeins úr líkindum á því - til þess er náunginn einfaldlega greinilega of slímugur og vafasamur - en það er gaman að velta fyrir sér möguleikanum á kreatívri pólítík sem þessari.

Líklega samt bara ef nettóniðurstaðan er manni að skapi.

fimmtudagur, 6. mars 2008

Að auðgast á eigin hæfileikum

Þetta er hluti af frétt á vísi í dag um að Moskva sé samkvæmt tímaritinu Forbes orðin mesta milljarðamæringaborg í heimi:

,,Að sögn Forbes er Rússland aðalfréttin hjá þeim í ár því milljarðamæringar þar spretta nú upp með miklum hraða. Og Forbes finnst það heillandi að hver einasti þeirra hefur auðgast á eigin hæfileikum. Enginn þeirra hafi erft auðæfi sín og meðalaldurinn hjá þeim sé aðeins 46 ár."

Þetta býður upp á lítinn leik, í ætt við Hvar er Valdi? - Hvar eru glöpin?

Rússland. Milljarðamæringar. Að auðgast á eigin hæfileikum.
Rússland. Milljarðamæringar. Að auðgast á eigin hæfileikum.
Rússland. Milljarðamæringar. Að auðgast á eigin hæfileikum ...

Hvað ætli maður þurfi að endurtaka þetta oft til að trúa því? Eða: ætli það sé hægt að endurtaka þetta nógu oft til að þetta verði satt?

Ef maður vissi ekki betur, að Forbes væri virðulegt blað sem tekur sig alvarlega, þá myndi maður halda að þetta væri einhver kaldhæðni eða grín - kannski einhvers konar æfing í naívisma. Og kannski eru mistök í þýðingunni.

Maður eiginlega vonar það.

PS: Ég fékk tölvupóst frá manni sem benti mér á frumheimildina. Hún er svona:

,,What's fascinating is that every single one of them is self made," said Forbes senior editor Luisa Kroll.

Þannig að Forbes virðist eiga þetta skuldlaust. Vegna þess að ég reyni að vera meðvitað bláeygur og bjartsýnn fyrir hönd mannsins og sérstaklega blaðamennsku í heiminum held ég þó í von um að þetta sé massív kaldhæðni hjá Lovísu Krullu.

Ef svo er þá á hún aðdáun mína óskipta.

mánudagur, 3. mars 2008

PS

Annars dettur mér í hug tilbrigði við fyrirsögnina hér fyrir neðan, sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma virðist alveg eins geta átt við:

Upp með lyftunni. En niður af gluggasyllunni!

Fyrirsagnir

Þar til á föstudaginn var besta fyrirsögn sem ég man eftir að hafa séð í íslensku dagblaði fyrirsögn á plötudómi í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum, sem ég held að Skarphéðinn Guðmundsson hafi átt heiðurinn af, um þá nýútkomna plötu hljómsveitarinnar Lands og sona. Þeir gengu með meik í maganum þá - sem er heilbrigður metnaður og ekkert nema gott um það að segja. Höfðu tekið upp plötu á ensku með upptökustjóra sem átti að hafa starfað með hinum og þessum stjörnum. Og hljómsveitarnafnið varð auðvitað að vera tamara á erlendri tungu - Shooting Blanks var sveitin skírð upp, minnir mig.

Fyrirsögn plötudómsins, sem ég man annars ekkert úr, var: Amerískur Hreimur.

Á föstudaginn var þessari fyrirsögn loksins velt úr efsta sætinu. Þá sá ég utan á nýjasta tölublað tímaritsins Frjálsrar verslunar í hillu á Borgarbókasafninu. Þar mun vera löng úttekt á íslensku viðskiptaumhverfi um þessar mundir og hrunið á hlutabréfamörkuðum.

Fyrirsögnin á forsíðunni með úttektinni er: Upp stigann. En niður með lyftunni!

Ég leit ekki í blaðið svo ég veit ekki hver á heiðurinn af þessu, viðmælandi blaðsins eða blaðamaður. En þetta er ekki hægt að kalla annað en list. Verðskuldar stórt kudos.

fimmtudagur, 31. janúar 2008

Manifesto er of hátíðlegt orð og minningargrein of drastískt - en hér verður ekki alltaf heitt á könnunni

Takk þeir sem litu inn og lásu. Líka þeir sem skildu eftir sig athugasemdir í gestabókinni. Og þeir sem létu orðið berast á einn eða annan hátt. Netið er öflugra gjallarhorn en ég bjóst við. Miðað við viðbrögðin, hér og annars staðar, stendur það ekki svo langt að baki hliðrænni birtingu, svona alla vega fyrir þá sem staddir eru nógu langt hérna megin við helga steininn.

Það er kannski augljóst að ég bjó til síðuna, sem er frekar berangursleg enn sem komið er, til þess að birta greinina hér fyrir neðan. En ég hugsa mér nú að lauma einhverju hér inn við og við, kannski að lágmarki vikulega. Treysti mér hins vegar ekki til að ábyrgjast að vera mjög virkur, a.m.k. ekki fyrst um sinn. Sígandi lukka o.s.frv. Hér verða a.m.k. ábyggilega ekki bornar á borð nákvæmar skýrslur um daglegar ferðir mínar og smæstu athafnir í dagbókarstíl. Þegar mér verður mál - mikið eða lítið - þá verður þessi síða kannski óeiginleg korktafla fyrir hitt og þetta. Eða grátmúr. Eða sála-sófi.

Nei, líklega ekki sála-sófi.

Þannig að: kannski verður ekki alltaf heitt á könnunni. En kofinn verður vonandi ekki alltaf tómur.

Ef einhver hefur áhuga má alltaf guða á gluggann...

sunnudagur, 27. janúar 2008

Styrmir býr til strámann

Í leiðurum Morgunblaðsins undanfarna daga hefur ritstjóri blaðsins hamrað tiltekið járn af alefli. Hann er að þyrla upp moldviðri. Hann er að búa til strámann.

1.

Enda þótt ég sé ekki sérfræðingur um efnið tel ég óhjákvæmilegt í upphafi að gera með mínu nefi nokkra grein fyrir hugtakinu strámanni. Strámaður er fyrirbæri sem þekkt er úr rök- eða mælskulist (ég nota hér orðið list lauslega). Í stað þess að ræða málefnalega og í góðri trú um efni málsins beita menn þeirri brellu að búa til annað umræðuefni – strámann – og reyna að setja hann í staðinn. Hráefni strámannsins getur verið fjölbreytt og verður best skilgreint neikvætt: allt annað en raunverulegt efni og kjarni málsins. Ástæða þessa er vitaskuld sú að menn vita að þeir hafa slæman málstað að verja og vilja að eitthvað annað og viðráðanlegra komi þar í staðinn, helst af öllu þeim í hag.

Efni í strámanninn velja menn af kostgæfni. Fyrir hverja staðhæfingu sem honum er lögð í munn eiga þeir fyrirfram sérsniðin skotfæri: meitluð rök sem falla að hverri slíkri staðhæfingu, núlla hana út og kveða óyggjandi í kútinn. Strámenn geta tekið á sig ýmsar myndir. Þeir geta verið byggðir upp úr einhverju sem tengist efni málsins ekki á nokkurn hátt. Þá eru þeir einfaldlega tilraun til að skipta um umræðuefni, til að setja umræðuna út af sporinu. En strámenn geta líka verið sýnu skuggalegri fyrirbæri. Það er þegar strámenn eru notaðir við spuna á sjálfu umræðuefninu, þegar reynt er að snúa því á hvolf og breiða yfir eða myrkva kjarna þess með öllum tiltækum ráðum. Þá verða strámenn liður í orwellískri viðleitni til að hafa áhrif á söguna, á það sem skrár koma til með að geyma um atburði líðandi stundar. Bókstaflega reyna menn þannig með notkun á strámanni að spinna aðra sögu en þá sem raunverulega gerðist.

Þeir sem vilja byggja strámenn af síðari sortinni þyrla af ásettu ráði upp moldviðri af ósannindum, útúrsnúningi, ýkjum, hálfsannindum, villandi túlkunum og, síðast en ekki síst, órökstuddum ásökunum á hendur þeim sem þeir telja andstæðinga sína. Þessar ásakanir eru yfirleitt lævíslega samdar: nægilega óljósar til að geta falið í sér fjarvistarsönnun fyrir smiðinn en á hinn bóginn má ráða fullvel af þeim hverja þær eiga að hitta fyrir. Úr moldviðrinu hrifsa smiðirnir hálmstrá sín, gera úr þeim fléttur sínar sem þeir tjasla saman og móta þannig strámanninn. Loks drösla þeir sköpunarverki sínu á fætur. Þeir tylla því upp á áberandi stað og hrópa á athygli fjöldans – „komið og sjáið’ann!“ og kannski eitthvað um afhjúpun og makleg málagjöld. Síðan plaffa þeir strámanninn niður. Þeir sýna enga miskunn, tefla öllu sínum vopnum fram.

Svo, á meðan hvort tveggja púðurreykskýið og mannfjöldinn dreifist smám saman og þynnist út, bíður smiður og böðull strámannsins milli vonar og ótta. Hann spyr sig: mun fólk gína við agninu, sættir það sig við þessa aftöku sem lyktir hins upphaflega umræðuefnis? Kemst ég upp með þetta?

2.

Í leiðurum í Morgunblaðinu undanfarna daga hefur verið pískað upp moldviðri af ofangreindu tagi. Í gegnum moldviðrið glittir svo ekki verður um villst í skuggalegar útlínur strámanns sem er að taka á sig mynd í höndum ritstjórans. Hann hefst upp hægt og bítandi, í hverjum leiðaranum á fætur öðrum og jafnvel er viðað til hans víðar í blaðinu. Leiðaraskrifin eru nafnlaus en út frá staðsetningu þeirra, máli og stíl er nærtæk sú ályktun að þau eigi rætur sínar að rekja á einn eða annan hátt til zetu núverandi ritstjóra blaðsins. Strámanni þessum er greinilega ætlað að verða opinber söguskýring Morgunblaðsins á atburðarásinni í kringum nýafstaðin meirihlutaskipti í borgarstjórn Reykjavíkur.

Ásýnd og innihaldi þessa strámanns verður best lýst með orðréttum dæmum og þarf raunar varla meira til. Ég tek skýrt fram þess að ég afmarka umfjöllun mína við eitt tiltekið stef í skrifum blaðsins, eða eina hlið strámannsins. Eftirfarandi dæmi lúta öll að sama atriði. Vel mætti hins vegar bera víðar niður. Allar leturbreytingar hér eftir eru mínar.

Eftirfarandi er úr leiðara Morgunblaðsins, föstudaginn 25. janúar sl.:
„Samfylkingin þolir bersýnilega ekki að missa völdin í borgarstjórn og bregst við með afar ógeðfelldum áróðri gegn Ólafi F. Magnússyni borgarstjóra. Annars vegar með [...] og hins vegar með skipulögðu illu umtali um hinn nýja borgarstjóra sem er svo skammarlegt að furðu gegnir að þetta fólk vilji leggja nafn sitt við [...] Forystumenn Samfylkingarinnar ættu að sjá sóma sinn í að stöðva það ómerkilega tal, sem berst nú úr þeirra röðum.“

Leiðari Morgunblaðsins, laugardaginn 26. janúar sl., er undir fyrirsögninni: „Ósæmileg aðför að borgarstjóra.“ Þar segir meðal annars:
„Forystumenn Samfylkingarinnar hafa síðustu daga staðið fyrir ósæmilegri aðför að nýjum borgarstjóra. [...] Hámarki aðfarar forystumanna Samfylkingarinnar að Ólafi F. Magnússyni er svo náð með illu umtali og rógi, sem forystumennirnir sjálfir og aðrir á þeirra vegum breiða út um hinn nýja borgarstjóra [...] Reykvíkingar eiga að svara þessari aðför forystumanna Samfylkingarinnar að Ólafi F. Magnússyni með því að slá skaldborg um hann [...] Forystumenn Samfylkingarinnar ættu að sjá sóma sinn í því að hafa hægt um sig á næstunni.“

Í sama blaði er viðtal blaðamanns Morgunblaðsins við Ólaf F. Magnússon. Það hefst á inngangi sem lýkur með þeim orðum að rætt sé um „ ... pólitíkina, mótmælin, rógsherferðina, veikindin og fjölskylduna.“ Í viðtalinu er síðan Ólafur spurður: „Stendur yfir rógsherferð gegn þér?“ Vegna þess hvernig tekið er á málinu í leiðurum blaðsins, eins og hér er lýst, er nauðsynlegt að geta þess hvernig Ólafur sjálfur svarar: „Ég hef orðið var við hugmyndaflug og illkvittni sem ég hélt að væri ekki til hjá fólki. Ég set spurningarmerki við mannlegar tilfinningar slíks fólks og starfsheiður þeirra fjölmiðlamanna sem lengst hafa fengið í aðförinni gegn mér. [...] “

Afgangurinn af svari Ólafs tengist ekki því hverjir standi á bak við meinta rógsherferð gegn honum. Hér er rétt að vekja sérstaka athygli á því að Ólafur svarar spurningunni hvorki af eða á heldur með svo almennum hætti að vart verður lengra komist. Því mætti jafnvel halda fram að hann svari alls ekki spurningunni heldur komi með sjálfstæða athugasemd. Af svari hans verður í öllu falli ekki ráðið neitt um það hverjir séu meintir rógberar um hann að því undanskildu að hann telur vera að finna sökudólga meðal fjölmiðlamanna.

Leiðari Morgunblaðsins, sunnudaginn 27. janúar sl., ber yfirskriftina: „Ofbeldi gegn lýðræðinu.“ Þar er vitnað til framangreinds viðtals við Ólaf og hann sagður tala af hreinskilni, opið og heiðarlega, um persónulega hagi sína. Þá segir í leiðaranum:
„Til þess þarf meiri kjark og hugrekki en þeir hafa sýnt, sem að honum hafa veitzt úr launsátri. Það er rétt sem hann segir, að það er einsdæmi, alla vega á lýðveldistímanum, að stjórnmálamaður sé lagður í einelti vegna veikinda. Hvers konar fólk og hvers konar flokkar eru það, sem nota veikindi manns sem vopn gegn honum á vettvangi stjórnmálanna. [...] Nú er þess að vænta, að eineltinu gegn [Ólafi] vegna veikinda hans verði hætt og að pólitískir andstæðingar hans sýni honum þá virðingu að fjalla um störf hans sem borgarstjóra á málefnalegan hátt.“

3.

Á grundvelli þessara dæma leyfi ég mér að telja fullskýrt hvernig sé háttað ásýnd, uppbyggingu og innihaldi þess strámanns sem ritstjóri Morgunblaðsins, hefur á undanförnum dögum reynt að berja saman og pota fram fyrir alþjóð sem lið í söguskýringu Morgunblaðsins á því sem hlýtur að verða minnst sem einnar alræmdustu og verst þokkuðu uppákomu íslenskrar stjórnmálasögu.

Varla þarf að benda á að svo skökku skýtur við að ritstjórinn minnist ekki einu orði á neitt það sem hefur raunverulega og réttilega verið fólkinu í landinu ástæða reiði og vandlætingar í þessu máli öllu saman. Þess í stað snýr hann málinu á hvolf og á rönguna. Svart verður hvítt, tveir plús tveir verða fimm og vörn verður hatrömm sókn. Styrmir býr til strámann úr uppdiktaðri rógsherferð, aðför og einelti á hendur Ólafi F. Magnússyni vegna veikinda hans. Hann bókstaflega smjattar á almennum og óljósum ásökunum um róg, áróður og launráð sem engin rök eða dæmi styðja, hvað þá sanna. Ég ítreka: hvergi hefur opinberlega komið fram að þeir sem ritstjóri Morgunblaðsins sakar um að ráðast gegn Ólafi F. Magnússyni á þann hátt sem hann útmálar svo vandlega hafi svo mikið sem komist nálægt því. Ritstjórinn tekur samt andköf af vandlætingu og fordæmingu yfir ,,hvers konar fólk og flokkar” það er sem gerir svona lagað. Í leiðinni, í þremur leiðurum, skellir hann skuldinni kategórískt hvað eftir annað, beint eða óbeint, á Samfylkinguna, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Dag B. Eggertsson.

Nú er það svo að manni verður næstum því orða vant þegar maður stendur gagnvart svona blygðunarlausum spuna, rangfærslum og illkvittni. En bara næstum því. Svo getur maður ekki orða bundist. Þrír leiðarar, efnislega eins að stórum hluta, hafa farið í byggingu eins strámanns. Ritstjórinn hyggst greinilega dauðrota. Hins vegar lætur hann sem áður segir ekki svo lítið að færa ein einustu rök eða nefna nokkurt dæmi til stuðnings hinum stóralvarlegu ásökunum. Ætlist hann til þess að nokkur taki mark á honum er þó frumskylda hans að rökstyðja mál sitt með fullnægjandi hætti. En hann hirðir ekki um það. Hann einfaldlega kastar þessu fram, eins og smjörklípunni frægu. Ákveður að sjá hvað festist, sjá hvort strámaðurinn hafi burði til að bola raunveruleikanum burt. ,,Let them deny it” er hugsunin.

Þetta er ekki bara spuni, heldur blátt áfram heilaspuni. Hvað veldur? Telur ritstjórinn sig hafinn yfir málefnalega og sanngjarna rökræðu – hafinn yfir sannleikann, kannski? Hvaða tilgangur getur helgað slík meðul, sem beitt er með slíku offorsi?

Mér segir svo hugur um að á því sé dapurlega hversdagsleg og ómerkileg skýring. Ritstjórinn reynir með þessu að deila og drottna. Hann vill reka fleyga. Hann bisar við að sá fræjum tortryggni og brenna brýr ef einhverjar kunna að vera eftir. Ritstjórinn situr vígmóður uppi í Hádegismóum og spilar einhvers konar sjálfskapað pólitískt Matador - kannski líkist það frekar Counter Strike - án þess að skeyta nokkuð um æru eða tilfinningar þeirra leiksoppa sem hann þykist hafa í hendi sér. Í leiðinni hefur hann gleymt, eða lagt til hliðar, eigin sjálfsvirðingu. Leikaðferð hans er einföld: Sviðin jörð. Leikreglurnar? Engar.

Því verður loks að halda til haga að enginn hefur talað fjálglegar eða velt sér meira upp úr veikindum Ólafs F. Magnússonar en ritstjóri Morgunblaðsins og hans lagsbræður. Enginn hefur nýtt sér veikindi Ólafs í pólitískum tilgangi nema einmitt þeir sjálfir.

Ritstjóri Morgunblaðsins hefur með ofangreindum skrifum og misheppnaðri strámannsmíð sinni gengið of langt. Hann hefur orðið sér til skammar. Vonandi sér hann sóma sinn í að biðja þá afsökunar sem hann hefur að sönnu meitt með skrifum sínum, fyrst og fremst Dag B. Eggertsson, sem eins og allir vita sem hafa snefil af þekkingu á þessum málum á síst af öllum skilið það skítkast sem stendur frá ritstjóranum. Ef hann er ekki tilbúinn til þess þá ætti ritstjórinn kannski að íhuga að fara eftir eigin hlakkandi tilmælum og ,,hafa hægt um sig á næstunni”.
Til eru fleyg orð sem höfð voru uppi af svipuðu tilefni, þó ekki jafnalvarlegu. Þau eru að vísu margtuggin en eiga einhvern veginn svo óskaplega vel við í þessu tilviki. Þau mælti af munni stjórnmálamaður sem var að mörgu leyti mikilhæfur og merkilegur og sem ritstjóri Morgunblaðsins ætti að geta verið ófeiminn við að taka sér til fyrirmyndar:

Styrmir Gunnarsson: Svona gera menn ekki.

Höfundur er lögfræðingur, íbúi í Reykjavík og „fráfarandi“ áskrifandi Morgunblaðsins.