miðvikudagur, 21. janúar 2009

Frímann - framhaldssaga [4/6]

[Frímann - framhaldssaga, 4. hluti. Sjá formála í færslu 5.1.2009.]

III.

Frímann fékk á tilfinninguna að ef hann hefði ekki meira að segja þá væri fundi þeirra S þar með lokið. Það sem meira var: hann var viss um að ef hann segði ekki eitthvað þá þegar myndi hann ekki framar fá tækifæri til að leita ráða hjá S. Og Frímann vildi vita meira. Kannski kom það til vegna þess að Frímann var hvort tveggja í senn dálítið ákveðnari – sumir sögðu frekari – og dálítið útsjónarsamari – sumir sögðu ófyrirleitnari – en aðrir í kringum hann. Því var það að hann þurfti ekki að hugsa sig um til að detta eitthvað í hug sem tryggt gat áframhaldandi áheyrn S – það brann þegar á vörum hans. Augu hans leituðu uppi augu S og glímdu þau til sín frá óvissum stað í loftinu. Honum voru í fersku minni viðbrögð S við fyrri spurningu hans um hið sama og einsetti sér því að velja hvert orð af kostgæfni.

„Gæti ég verið einn af þeim sem þú vísaðir til með orðunum sumt fólk?“

Frímanni sjálfum til nokkurrar undrunar reyndust áhyggjur hans og ásetningur um varfærni óþarfi því sjálfkrafa og án umhugsunar orðaðist hin viðkvæma spurning á réttan hátt: hún gaf hvorki til kynna að S gerði mannamun né Frímann sjálfur.

Í fyrsta sinn frá því tal þeirra hófst var sem S væri ekki viðbúinn orðum Frímanns. Hann svaraði ekki strax. Á honum var þó ekki að merkja mikla undrun nema hvað augabrúnirnar lyftust rétt sem snöggvast og brosið flökti aftur á vörum hans.

„Góð spurning, Frímann,“ Hann rétti aftur úr sér í og varð aftur alvarlegur en þó einlægur í bragði:

„En þó hún sé góð get ég ekki svarað henni. Þú einn getur það. Aðeins þú sjálfur veist hvað þú vilt og hvort það geti mögulega ræst gegnum val þitt eða hvort þetta tvennt sé ... hvað skal segja?“ – hann hallaði undir flatt og pírði augun rétt sem snöggvast – „...ekki á sömu bylgjulengd.“

Frímann virtist ekki gera sér svar þetta að góðu og spurði þegar í stað.

„En hvernig get ég komist að raun um það?“

Í þetta sinn stóð ekki á svarinu. Eins og í samtalinu lengst af voru orðaskipti þeirra í slíkri samfellu að þau virtust renna óaðgreinanlega saman í eina og sömu ræðuna.

„Ertu viss um að þú sért ekki þegar búinn að því?“ spurði S. Nú brá fyrir dálítilli skerpu í rödd hans. Hann hallaði sér fram og var nær Frímanni en nokkru sinni þegar hann tók aftur til máls.

„Ég held þú vitir það nú þegar. Værir þú nokkuð að spyrja mig nema þú hefðir áttað þig á að það sem þú vilt er ekki meðal þess sem þú hefur kost á að velja? Ég held að þú hefðir ekki komið hingað nema vegna þess að þér er þetta ljóst. Þú lagðir fyrir mig tvö vandamál í upphafi samtals okkar. Svarið við hinu fyrra var þér í raun ljóst þá þegar, þó það hafi kannski ekki verið þér að skapi. Í raun er það því aðeins seinna vandamálið sem er raunverulegt erindi þitt hingað, ekki satt?“

Frímann svaraði engu. S lét það liggja á milli hluta. Þögn Frímanns virtist honum nægilegt svar. Ákefðin sem vaknað hafði í rödd S vék aftur fyrir skilningi og nærgætni:

„Ef þetta er rétt hjá mér þá held ég að við þurfum að umorða spurninguna dálítið, ekki satt?“

Spurningin hékk í loftinu andartak, án þess að Frímann svaraði, áður en S spurði aftur.

„Hver veit: kannski er það sem þú telur vera vandamál alls ekkert vandamál eftir allt saman. Sum vandamál hverfa við nánari skoðun og íhugun. Það má ekki gleyma því að það sem var satt og rétt í gær er ekki endilega satt og rétt í dag. Það sem var bannað í gær – jafnvel fordæmt – telst sjálfsagt í dag. Núið, okkar veruleiki, sker úr um það sanna og rétta, ekki steinrunnar kreddur fortíðarinnar.“

Frímann kinkaði aftur kolli, en ákveðnar í þetta sinn, eins og hann tæki á sig rögg. Augu hans voru límd við augu S og höfðu fengið á sig slikju, sem fylgt getur löngum störum á sama hlutinn.

Rödd S fékk á sig hlutlausan og formlegan blæ – gerilsneyddan tón hins grandvara en nafnlausa fulltrúa.

„Gott og vel. Áðan urðum við sammála um að það fólk sem velur dauðann fremur en lífið láti stýrast af heimsku, eigingirni eða fáfræði. Til að dæma það ekki of hart skulum við láta heimskuna og eigingirnina liggja á milli hluta. Bæði er, að hvorugur okkar er til þess bær að fella þess háttar dóma yfir öðrum, og raunar ekki nokkur maður. Einnig kemur þar til sú einfalda staðreynd að jafnvel þótt við gætum slegið fastri heimsku eða eigingirni annarra væri lítið við því að gera. Persónulegir eiginleikar, hvort sem er brestir eða kostir, eru bæði ónæmir fyrir og algerlega óskyldir þeim meðölum sem tiltæk eru í umræðu skynsams fólks, nefnilega: rökum. Einbeitum okkur því að fáfræðinni. Því hún er ekki ónæm fyrir rökum, þvert á móti. Hún er einfaldlega skortur sem alla getur hrjáð. Eða öllu heldur: einkenni á slíkum skorti. Fáfræði er ekkert annað en skortur þekkingar – líkt og hungur er skortur matar og syfja er skortur svefns. Þennan skort má seðja og uppræta með rökum og skynsamlegri umræðu. Því fáfræði er ekki óbreytanlegt persónueinkenni nokkurs manns ... – er það nokkuð?“

Frímann hristi höfuðið. Augu hans fylgdu ekki hreyfingunni. Þau voru kyrr, beindust enn sem fyrr að augum S. Í svip hans mótaði fyrir hæglátri sælu þess sem veit sig með vissu nálgast áfangastað, þó nánari staðsetning hans sé honum kannski ekki að öllu leyti kunn.

„Auðvitað ekki!“ S var hálfafsakandi, eins og svarið hefði í raun verið gefið og spurningin aðeins retorísk – eiginlega móðgun við skynsemi þeirra beggja. Hann bætti við, tónninn í rödd hans varð aftur flatur og ópersónulegur, eins og hann læsi tilkynningar í útvarpi:

„Og vegna þess að fáfræði er ekki persónueinkenni eins eða neins er það ekki áfellisdómur yfir nokkrum manni að benda honum á fáfræði hans. Hann hefur jafnframt enga ástæðu til að taka þannig ábendingu nærri sér. Slíkt væri líka fádæma dramb og hroki, að telja sig vera hafinn yfir fáfræðina og þurfa engrar frekari þekkingar við. Allir hafa gott af mat þegar þá svengir, allir hafa gott af svefni þegar þá syfjar og allir hafa gott af meiri og betri þekkingu. Ekki bara þegar hún kemur þeim vel eða staðfestir skoðanir þeirra, heldur hvenær sem er. Þar á meðal, og kannski allra helst, þegar hún stríðir fljótt á litið gegn fyrri sannfæringu þeirra. Eða fordómum.“

Aftur samsinnti Frímann orðalaust, í þetta sinn ótilkvaddur, með því að kinka kolli.

„Þess vegna skulum við einbeita okkur að valkostum þínum, Frímann. Við skulum athuga hvort þú hefur í raun komið auga á þá alla eða hvort hugsanlegt sé að fáfræði þín valdi því að þér hafi yfirsést einhverjir eða ekki gert þér nægilega vel grein fyrir þeim.“

[...]

[Frímann - framhaldssaga heldur áfram mánudaginn 26. janúar.]

fimmtudagur, 15. janúar 2009

Frímann - framhaldssaga [3/6]

[Frímann - framhaldssaga, 3. hluti. Sjá nánar formála í færslu dags. 5.1.2009]

[...]

Augu Frímanns hvörfluðu niður á brjóst S. Svipur hans var tómur. Hann kinkaði hægt kolli, einu sinni, svo aftur og loks þriðja sinni. Úr þriðja kinkinu leit hann aftur upp á S og spurði:

„En hvað ef fólk hefur úr engu að velja? Þegar það er bara einn kostur í stöðunni, sem fólk neyðist til að taka. Þá er ekki hægt að tala um neitt val, eða hvað?“

Meðan Frímann spurði var eins og hann blési, sífellt fastar, í þá glóð umburðarlyndis og skilnings sem bjarmaði af í svip S. Um leið og hann þagnaði tók S fumlaust til máls. Rödd hans og látæði var eins og áður. Aftur var eins og hann hefði í raun aldrei þagnað, eins og innskot Frímanns hefði ekki verið hans sjálfs nema að nafninu til en í raun aðeins liður í máli S – upphugsað, ákveðið og kallað fram af honum.

„Fólk hefur auðvitað alltaf val. Það er aldrei aðeins einn kostur, þeir eru alltaf að lágmarki tveir: líf eða dauði. Lífið getur falið í sér fleiri kosti eða færri. Allt frá óendanlega mörgum og niður í einn einasta. Dauðinn er hins vegar fasti. Hann er einn og sami kosturinn og alltaf til staðar.“

„En bíddu nú við: er dauðinn nokkurn tímann val? Er hann ekki óumflýjanlegur? Allir deyja á endanum, sama hvað þeir annars gera í lífinu.“

Frímanni þótti þessi spurning liggja svo beint við að hann hálfpartinn greip fram í fyrir S, skaut henni að með ákveðni sem kom honum sjálfum nokkuð á óvart. Ekki var að sjá að það setti S út af laginu.

„Vissulega, en málið er ekki svo einfalt. Athugaðu að þegar ég nefni dauðann sem valkost þarf það ekki að þýða bráðan bana. Þó kemur sá dauði sem ég á við yfirleitt fyrr en seinna og alltaf löngu áður en hinn óhjákvæmilegi dauði sem er endir alls lífs. Þessi dauði sem ég vék að getur verið langdreginn og flókinn eins og tónverk, margra þátta, með öllum tilbrigðum: skorti, vanmætti, vonleysi, örvæntingu, allsleysi, einsemd, niðurlægingu, sjúkdómum, brjálsemi ... Svo mætti lengi telja. En dauðinn er rauði þráðurinn í verkinu, skín alltaf í gegn. Hann er samnefnarinn, frumtónninn. Og brýst í síðasta lagi fram í endakaflanum, sem er alltaf sá sami og leiðir beint og óhjákvæmilega af alfyrsta tóninum sem er sleginn.“

S lét eftir sér dálitla kúnstpásu áður en hann lauk máli sínu:

„Og sá tónn ... Sá tónn er valið, Frímann.”

Áherslan var þung, leiddi hugann að ómstríðum og yfirþyrmandi lokahljómum tormelts tónverks, ef til vill eins og því sem S hafði lýst.

„En hver er þá svo heimskur – já, og svo eigingjarn! – að velja dauðann? Velja ekki allir lífið, ber ekki öllum eiginlega skylda til að velja lífið? Og er þá ekki í raun eftir sem áður aðeins einn valkostur?“

Orðin komu sjálfkrafa í hug Frímanns, hann fann munn sinn og tungu mynda þau og sjálfan sig segja þau. Fyrir framan hann var að sjá sem hvít skyrta S væri jafnvel eini ljósgjafinn í herberginu. Yfir hvítan flötinn liðu af og til litlar gárur, þegar smágert efnið bærðist með fínlegum hreyfingum S. Andlit S var fölt, svo mjög að það rann stundum allt að því saman við kraga skyrtunnar. Þar mótaði fyrir daufu brosi. Hann kinkaði kolli lítið eitt.

„Heimska og eigingirni, já. En dauðinn er allt að einu valkostur við hliðina á lífinu. Og val fólks verður að virða. Þú veist, vona ég, að það er bjargföst skoðun mín og sjálfur grundvöllur sannfæringar minnar. Meira að segja þegar það val stjórnast af heimsku og eigingirni, eins og þú segir. Þó er rétt að dæma þá sem velja dauðann frekar en lífið ekki of hart því kannski má bæta einu við þessa upptalningu þína: Fáfræði. Sumt fólk er ekki nógu upplýst um hvaða kosti það hefur í raun, það veit ekki hvaða kosti lífið felur í sér. Sumu fólki þarf aðeins að leiðbeina eða hjálpa til að hugsa sig betur um til þess að því verði ljósir kostir sem það hafði ekki einu sinni komið auga á áður, hvað þá íhugað af alvöru.“

Þegar S var um það bil að ljúka máli sínu sviptust augu Frímanns skyndilega í fókus. Það réttist úr baki hans, svipurinn varð íbygginn. Um leið og S sleppti orðinu spurði Frímann lágt en ákveðið:

Sumt fólk, segirðu alltaf. Hvaða fólk er það? Þá hlýtur líka að vera til hitt fólkið, sem öfugt er ástatt um. Þú minnist ekki á það en það felst í því sem þú segir. Og hver ákveður þá hverjir eru hvað?“

„Ég hef hvergi sagt neitt á borð við það sem þú kallar hitt fólkið eða dregið fólk í dilka á annan hátt. Það eru þín orð. Ég bendi aðeins á staðreyndir,“ sagði S og örlaði þá fyrst á geðshræringu í rödd hans. Þó ekki þannig að benti til neinnar reiði, heldur bar hún frekar með sér brýna áherslu á einlægni orðanna eða vott af sárindum vegna þess sem S sakaði Frímann um að hafa gefið í skyn. Broddurinn hvarf jafnskjótt úr rómi S og hann hafði birst. Rödd hans lækkaði og mýktist um leið og hann hélt áfram.

„En það er jafnómögulegt mér eða nokkrum öðrum að breyta því að einhverra hluta vegna er sumt fólk lakar sett en annað. Þetta er einfaldlega staðreynd, hversu dapurleg sem hún má annars teljast. Hvort ástæðan er tilviljun, óheppni, mannaverk, guðleg ráðstöfun eða eitthvað annað er ómögulegt að vita. En enginn mannlegur máttur, ekkert raunhæft skipulag, fær breytt þessu.“

S bar orðin raunhæft skipulag fram eins og þaulreyndur teknókrati sem hafði farið samviskusamlega yfir og útilokað alla aðra möguleika ekki bara einu sinni heldur margsinnis. Hann dró djúpt andann, hljóðlaust og lengi – lengur en Frímann hafði nokkurn tímann séð mann draga að sér andann. Brjóst hans þandist út, axlirnar og olnbogarnir hófust upp og út á við svo hvíti flöturinn fyrir framan Frímann virtist allur stækka. Svipur hans var óbreyttur en röddin hvellari og harðari þegar hann spurði skyndilega:

„Hvor er verr settur fyrir vikið: sá sem velur lífið eða sá sem velur dauðann? Hvor er verr settur fyrir vikið, Frímann?“

Frímann blikkaði augunum. Honum fannst sem árveknin í glansandi augum S hefði stigmagnast í ákefð, allt að því ofsa. Hann leit þó ekki undan.

„Sá sem velur dauðann, held ég,“ svaraði hann umhugsunarlaust.

„Sá sem velur dauðann, heldurðu,“ át S hægt upp eftir honum og endurtók það svo aftur í lágum hljóðum, með áherslu á síðasta orðið. Smám saman dofnaði aftur yfir augum hans og þau færðust í fyrra horf.

„Það held ég líka,“ sagði hann loks alvarlega, næstum hátíðlega. Hann bætti við: „Þá erum við sammála um það, Frímann minn.“

S hallaði sér aftur í stólnum. Um leið var sem hann minnkaði aðeins og skryppi saman. Uppspretta birtunnar í herberginu dreifðist og færðist frá S, kannski vegna þess að ekki bar jafnmikið á hvítu skyrtunni og áður. Frímann dró djúpt andann. Þegar hann velti því nánar fyrir sér gat hann ekki varist þeirri tilfinningu að þetta væri í fyrsta sinn sem hann drægi andann frá því hann bar fram spurningu sína.

Varir S sveigðust, hægt og í stuttum rykkjum, í kalt bros sem þó var sýnilega ekki uppgerð. Augu hans hvörfluðu aftur frá augum Frímanns. Í munnvikunum, hvoru á eftir öðru, brá snöggt fyrir glansandi broddinum á bleikri og liðugri tungu.

[Frímann - framhaldssaga heldur áfram miðvikudaginn 21. janúar.]

mánudagur, 12. janúar 2009

Frímann - framhaldssaga [2/6]

[Frímann - framhaldssaga, 2. hluti. Sjá nánar formála í færslu dags. 5.1.2009.]

II.

„Velkominn Frímann. Ertu nú búinn að ákveða hvað þú ætlar að verða þegar þú verður stór? Eða vefssst það ennþá fyrir þér, eins og mig grunar?“ spurði S og virtist smjatta á orðunum. Hann benti Frímanni að fá sér sæti á stólkolli í seilingarfjarlægð frá hægindastólnum sem hann sjálfur sat í.

S vætti munnvikin með tungubroddinum. Sá var siður hans þegar hann gladdist yfir einhverju. Yfirleitt gerðist það þegar hann þóttist viss um að hafa rétt fyrir sér. Það var ekki óalgengt vegna þess að S var maður mikillar og algildrar sannfæringar.

Frímann kinkaði kolli. Hann undraðist skarpskyggni S. Kurteisin í svip hans blandaðist lotningu og sá skuggi efa, sem þrátt fyrir allt hafði borið á traust hans á ráðsnilld S, dvínaði stórum.

Það var heitt í herberginu og lítil birta. Í loftinu var sætur og höfugur keimur sem Frímann kom ekki fyrir sig en varð samdauna áður en hann hafði ráðrúm til að kryfja hann frekar. Hann sá innviði herbergisins ekki skýrt vegna rökkursins. Það rétt mótaði fyrir kunnuglegri lögun og útlínum húsgagna, sem þar að auki virtust í dökkum litum. Á gólfinu var þykkt teppi, sem saug í sig fætur bæði fólks og húsgagna. Það virtist jafnvel drekka í sig hljóð, slík var þögnin í herberginu. Ekki var bara að engin hljóð bærust að utan; því hefði mátt koma í kring með ýmsum hætti. Þögnin var önnur og meiri – algerari. Hún var allt að því merkjanleg sem stöðugur ofurlágur hátíðnisónn eða ískur, líkt og undir vatnsyfirborði. Í öllu falli var eins og þau hljóð sem venjulega fylgja mönnum væru ekki til staðar. Ekkert marr í gólfum og innanstokksmunum, enginn þytur í klæðum eða gluggatjöldum, ekkert bank, engin búkhljóð, smellir eða brestir ... Meira að segja orð virtust hljóma skemur en venjulega í þessu herbergi.

Frímann og S sátu þannig þegjandi gegnt hvor öðrum, í skuggsýnu og tímalausu tómarúmi, umluktir algerri þögn og einhverju þyngra og þéttara en lofti. Það var því líkast sem herbergið og allt sem inni í því var væri smágert módel inni í glerhvolfi, líkt og þeim sem höfð eru til skrauts á jólum og innihalda vökva og örlitlar gervisnjóflygsur sem þyrlast upp og umhverfis módelið þegar glasinu er velt við. Hefði þessu herbergi verið velt við á þennan hátt einmitt á þessari stundu er erfitt að segja hvað hefði þyrlast upp af gólfinu, upp úr gólfteppinu þykka og þyrsta. Ef til vill ekki nema ryk og ló, húð- og hárflygsur, tréflísar, smámynt og annað slíkt rusl sem lendir á gólfum húsakynna og treðst niður eða safnast saman með tímanum þar sem umgangur og hreingerningartól ná ekki til. Samt er freistandi að ímynda sér að nokkuð fleira og áhugaverðara hefði flotið upp úr viðjum vefnaðarins með slíkri snöggri og umbyltandi veltu glerhvolfsins. Hvað ef orð hefðu verið þarna innanum, öll orðin sem hlutu að hafa fallið í þessu herbergi eða enduðu þau ekki gólfinu eins og allt annað? Og ef svo hefði verið, ef þessi föllnu og földu orð hefðu þannig þyrlast upp og umlukið Frímann og S eitt andartak áður en aðdráttarafl teppisins endurheimti þau, er þá hugsanlegt að í öllum þeim fuglabjargsklið hefðu eyru Frímanns greint þó ekki væri nema stök orð eða glefsur fyrri samtölum S við fólk í hans sporum?

Þar sem Frímann sat fyrir framan S, þornandi í hálsinum en blotnandi í lófunum, hefði hann að minnsta kosti ekki slegið hendi á móti einhverri vísbendingu eða hugmynd um það hvernig aðrir höfðu borið sig að við sömu aðstæður. En hvort sem orðin voru þarna eða ekki innan um allt ruslið, kom auðvitað ekki til þess að neitt hreyfði við neinu af þessu heldur gerðist það eitt að S ók sér í sæti sínu og hallaði undir flatt, eins og til að ýta við Frímanni, hvetja hann til að rjúfa þögnina, kasta teningnum.

Frímann dró djúpt andann. Hann strauk yfir hrukkað ennið, slétti gljáandi hárið og bjóst til að bera fram erindið.

„Ég get ekki ákveðið mig,“ sagði hann. „Eða réttara sagt: ég veit hvað ég vil helst verða en ég veit samt ekki hvort ég get valið það.“ Hann hikaði dálítið en hélt svo áfram: „Og ég held ég viti líka hvað ég vil ekki verða en ég er samt ekki viss hvort ég get komist hjá því að velja það.“

Hann sagði þessi orð hægt og með óeðlilegri áherslu, sérstaklega síðari hlutann. Það var eins og hann þyldi orðrétt eftir minni upp setningar á tungumáli sem hann skildi ekki. Enda var það nærri lagi. Þessi stirðu orð mörkuðu endastöð hugsunar hans og hugmyndaflugs, framandi stað sem hann hafði einungis náð með ítrustu fyrirhöfn; stað sem hann hafði aldrei komið til áður og gat aðeins reynt að lýsa en ekki ratað um, hvað þá komist lengra áleiðis. Frímanni var nefnilega ýmislegt tamara en að hugsa abstrakt. Meðan hann talaði vandaði hann sig eins og hann gat. Hann starði á stífaðan skyrtukraga S, hnepptan þétt upp í háls, og skrautlegt bindið með stóra hnútnum sem vissi ekki hvað hét og kunni ekki að binda. Um leið og Frímann lauk máli sínu leit hann upp og mætti augum S. Þau sögðu honum hið sama og mild rödd hans:

„Ég held ég skilji hvað þú átt við og hverjir kostir þínir eru, sá góði og sá slæmi. Eða eigum við ekki frekar segja sá sssíðri?“

S rétti úr sér í hægindastólnum, þar sem hann hafði fram að því hallað sér makindalega aftur. Hann mjakaði sér fram í sætinu og skaut út hökunni og brjóstkassanum. Olnbogarnir sköguðu út fyrir bólstraðar armhvílurnar. Fínlegar hendurnar löfðu slakar fram af þeim, eins og framlenging af ljónshrömmunum sem flúraðir voru í viðinn. Hann var í víðri og drifhvítri skyrtu úr fínlega ofnu efni, áreiðanlega silki. Hún bylgjaðist mjúklega með hreyfingum hans. Það hægðist á rödd S. Hún lækkaði og þykknaði og varð þægileg áheyrnar. Augu hans voru blíð og vökul og blikkuðu aldrei.

„Við skulum velta aðeins fyrir okkur saman sagnorðunum að vilja og að velja, Frímann,“ sagði S. Hann talaði hægt og formlega. Raddblærinn var þó á einhvern hátt hvetjandi og allt að því frísklegur, eins og hjá kennara sem kynnir umfjöllunarefni fyrirlestrar í upphafi hans og reynir að glæða strax áhuga nemendanna.

„Það sem við veljum er ekki endilega alltaf það sem við viljum helst og stundum meira að segja það sem við viljum helst ekki. Hér máttu ekki misskilja mig. Þér er auðvitað yfirleitt frjálst að velja það sem þú helst vilt og forðast það sem þú vilt ekki, svo lengi sem þú treður ekki öðrum um tær á meðan. Þessi réttur er, eins og ég vænti að þú vitir, mitt helsta hjartans mál. Enginn getur svipt nokkurt okkar þessum rétti. Honum hef ég helgað líf mitt og alla krafta, öllum stundum. En því miður er það nú svo, til allrar óhamingju, að staða sums fólksss ... “

Hér stoppaði S í miðju kafi, fyrirvaralaust en á yfirvegaðan hátt og án þess að sleppa andanum. Síðasta orðið dó bara út á vörum hans án þess að annað tæki við. Önghljóðið bar með sér örlítinn vott af smámælgi. Svo hjaðnaði stúturinn á vörum hans hægt og rólega og munnurinn lokaðist, eins og hringvöðvi eftirá. Augnsamband þeirra rofnaði ekki þrátt fyrir þögnina, þvert á móti óx það og efldist, líkt og með veldisvexti, þann stutta tíma sem hún varði. Það bar vitni um næmi S fyrir tímasetningu að rétt áður en þögnin fór að jaðra við að verða þrúgandi hélt hann áfram, með nákvæmlega sömu röddu og áherslu, eins og hann hefði aldrei hætt að tala.

„ ... að staða sums fólks í tíma og rúmi er stundum þannig að það sem það vill og það sem það velur getur ekki verið sami hluturinn.”

Frímann hrukkaði ennið en áður en hann náði að segja nokkuð hélt S áfram. Hann talaði nú hraðar og ákveðnar, með vott af óþolinmæði, eins og maður sem hefur lokið við að útskýra flókinn hlut í aðalatriðum og rennir svo yfir formsatriðin í snatri.

„Þú ert skarpur strákur svo við getum leyft okkur stærðfræðislettu. Köllum hið fyrra viljamengið en það síðara valmengið. Ég á við að viljamengið og valmengið hjá sumu fólki eru stundum algerlega óskyld. Viljamengið hjá fólki er getur verið jafnstórt og hugsast skal en ef það felur ekki jafnframt í sér valmengið þá er það í raun ekkert nema draumórar. Það kunna að vera skiljanlegir draumórar; hóflegir, fallegir, sanngjarnir og jafnvel verðskuldaðir draumórar. Það kann að teljast til þess sem nú á dögum er kallað hvorki meira né minna en sjálfsögð mannréttindi! En draumórar eru það engu að síður. Hjá sumu fólki er það því bara valmengið sem skiptir máli. Það er eini raunveruleiki þess. Innan takmarka þess lifir það og hrærist, hvað sem viljamengi þess annars geymir. Hvað þessu fólki viðkemur er því í raun tómt mál að tala um hvað það vill. Það er þýðingarlaust, ef menn vilja á annað borð vera raunsæir. Og það viljum við, ekki satt Frímann? Við erum hér að tala um raunverulega og áþreifanlega hluti, líf þitt og framtíð en stöndum ekki í óráðshjali um staðleysur og loftkastala! Eina raunverulega spurningin fyrir sumt fólk er því ekki hvað það vill, heldur hvað það velur.“

[...]

[Frímann - framhaldssaga heldur áfram föstudaginn 16. janúar.]

þriðjudagur, 6. janúar 2009

Frímann - framhaldssaga [1/6]

[Frímann - framhaldssaga, 1. hluti. Sjá nánar formála í færslu dags. 5.1.2009.]

I.

Frímann vaknaði morgun einn með stöðugt og áleitið suð í ungum kollinum. Það hófst og hneig sitt á hvað og hljómaði holt og fjarlægt, líkt og hafið í sjóreknum kókbelg. Hann hristi höfuðið, hélt fyrir eyrun, þrýsti og danglaði á þau en tókst ekki að losna við hljóðið. Hann kyngdi stórum, stóð á haus og drakk á hvolfi, framkallaði ákafa geispa og drynjandi ropa, tyggði jórturleður og reyndi í stuttu máli öll húsráð og kerlingabækur sem hann kunni - og skeytti engu þó sum væru ætluð við allt öðrum kvillum. En það var með hálfum huga. Hann vissi innst inni að það var allt til einskis. Þetta var engin hella eða neitt slíkt. Og suðið fór bara vaxandi. Von bráðar hafði það magnast í frumskóg af blýöntum, krafsandi í kór sömu skrjáfandi spurninguna, aftur og aftur, fastar og fastar. Frímann gafst loks upp á að reyna losna undan eða hunsa þessa spurningu. Hann viðurkenndi fyrir sjálfum sér að hann stóð frammi fyrir erfiðu vali sem gat ekki lengur skotið sér undan. Unglingsárin voru brátt að baki og hann varð að taka ákvörðun um hvað hann hygðist gera í framtíðinni, hvað hann vildi leggja fyrir sig.

Hann hafði lengi brotið heilann um þetta en án árangurs. Vangaveltur hans skiluðu honum engu nema óljósum grun eða tilfinningu sem hann átti erfitt með að festa hendur á en var einhvern veginn svona: enda þótt hann væri nokkuð viss um það hvað hann vildi helst (og hvað hann vildi helst ekki), hafði hann á tilfinningunni að ákvörðunin sem hann stóð frammi fyrir væri flóknari en svo að þetta eitt gæti ráðið úrslitum. Hvað olli því gat hann hins vegar ekki áttað sig á. Að minnsta kosti gat hann ekki með góðu móti sett það skýrt niður fyrir sér, eins og hið þvælda og óljósa orðalag sem ráðgáta hans tók á sig í huga hans bar vissulega með sér. Við þetta lét Frímann þó ekki hugfallast. Hann vissi nefnilega að hann átti hauk í horni þar sem var kennimaður nokkur og hugsuður er hafðist við skammt frá þar sem Frímann bjó, S að nafni.

Enginn vissi hvað maðurinn hét í raun og veru en allir kölluðu hann einfaldlega S. Hvernig nafnið kom til - hvort það var fyrsti stafurinn í nafninu hans, ættarnafninu eða eitthvað annað - var ekki vitað en þetta nafn eða tákn hafði komist á flot þegar vísað var til hans. Og þar sem allir verða nú að heita eitthvað og annað var ekki í boði hafði það festst við hann.

S var aðkomumaður þar um slóðir. Hann hafði tekið sér bólfestu þar rúmlega hálfum öðrum áratug fyrr, eða um það leyti sem Frímann fæddist. Ekki var vitað hvaðan hann kom nema að hann hafði flust á þetta svæði einhvers staðar að vestan. S hafði alla tíð haldið sér mjög til hlés og fáir eða enginn af almenningi þekkti hann í sjón, hvað þá meira. Hlédrægni hans var þó ekki takmarkalaus því þrátt fyrir hana var talið víst að hann hefði eignast hóp af fáum en traustum trúnaðarvinum á svæðinu. Lítið var um samband hans við þá vitað, þar á meðal hvorki nákvæmlega hverjir þeir voru né hversu margir. En áhrif S á svæðinu höfðu með tímanum sannarlega orðið mikil þrátt fyrir það að um persónu hans væri almennt ekkert vitað.

Sú virðing, og allt að því lotning, sem smám saman hafði farið að tengjast S kom einkum til af því hvernig hinum fámenna hópi lagsmanna hans hafði vegnað allt frá því hann birtist á svæðinu. Velgengni fyrirtækja þeirra, framkvæmda og, ekki síst, stjórnmálastarfs var undraverð. Allt sem þeir tóku sér fyrir hendur blómstraði svo að eftir var tekið, einkum vegna þess að almennt var ástandið mjög á hinn veginn hjá öðrum á þessu svæði. Fólk lagði saman tvo og tvo og fékk út að velgengni þeirra hlyti fyrst og fremst að stafa af þeirri náð að vera í kunningsskap við S. Enda var ekki til þess vitað að nokkur þeirra hefði gert neinar rósir í viðskipta- eða stjórnmálalífi áður en S kom til sögunnar – nema síður væri. Enginn vissi þó til þess að S kæmi nokkurs staðar nálægt með beinum hætti og því lá beinast við að halda að ráð hans og annað fulltingi eitt og sér skiluðu lagsmönnum hans svo skjótum og góðum ábata. Þar að auki störfuðu flestir þeirra sitt í hverju lagi og alls ekki á sömu sviðum í þjóðfélaginu, svo ekki gat verið um það að ræða að aðstoð S, hver sem hún annars var, væri einungis á þröngu sérsviði. Með tímanum varð þessi tilgáta fólks að viðteknum sannindum. Það gekk svo langt að yfirleitt var talið öruggt merki um að einhver hefði verið tekinn inn í þennan óopinbera hóp ef sá hinn sami naut velgengni, sérstaklega ef annað hafði áður verið uppi á teningnum.

Sagt var að S hefði, þrátt fyrir hlédrægnina, tekið þeim vel sem leituðu til hans og leiðbeint og leyst úr spurningum margra sem glímt höfðu við ámóta vandkvæði og Frímann nú. Frímann grunaði reyndar að næstum enginn gæti komist hjá að velta fyrir sér ámóta spurningum á einhverju stigi ævinnar. Hann renndi einnig í grun að sá tímapunktur kæmi iðulega fyrr og með mun afdráttarlausari hætti hjá fólki í hans heimahögum en víða annars staðar. Fólkið sem leitað hafði til S var sagt að hefði hlotið talsverða bót sinna mála og stundum mikla gæfu og frama. Fæst eða ekkert af því var reyndar sjálft til frásagnar þar um. Að misjöfnum tíma liðnum eftir að hafa ráðfært sig við S hafði það nær undantekningarlaust farið burt, að sagt var haldið út í heim til að freista gæfunnar. Brottför þess var iðulega með fulltingi eða milligöngu einhvers úr hirð S. Enginn vissi hvert en af fólki þessu bárust af og til fregnir um velmegun og hagsæld í fjarlægum löndum. Þessar fregnir voru yfirleitt loðnar, alltaf óstaðfestar og bárust eftir krókaleiðum. Ómögulegt var að rekja þær en ef það var á annað borð reynt reyndust flestar enda einhvers staðar í námunda við hirðmenn S. Þeir sem heima sátu áttu hins vegar flestir auðvelt með að skilja, eða að minnsta kosti skýra, tíðindaleysið: hver gat áfellst þann sem fann fræið fyrir að vilja sitja einn að brauðinu?

Eitt var víst: Enginn hafði enn snúið aftur til baka. Eða eins og algengara var að fólk orðaði það: enginn hafði komið heim með skottið á milli lappanna. Bent hafði verið á að sú staðreynd sannaði ekkert eitt og sér og gæti jafnvel verið tvíbent sönnunargagn, eins og gefur að skilja. Manna á milli var þetta þó frekar en ekki talið staðfesta þær stopulu fregnir sem bárust af velgengni fólksins úti í heimi. Þegar allt kom til alls voru tveir möguleikar í stöðunni, sagði fólkið heima við sjálft sig og hvort annað ef slíkt barst á annað borð í tal, sem var sjaldan: Annað hvort hafði þessu fólki mistekist eða því hafði gengið vel. Ef því hafði mistekist voru hæg heimatökin að snúa aftur og líklega eina úrræði þess hvort eð var. Hverjum fannst ekki skömmin skárri en sultur og skortur? Ef því hafði hins vegar gengið vel var einfaldlega engin ástæða til að snúa heim.

Þessi röksemdafærsla þótti jafn sannfærandi og hún var einföld. Sannfæringarkraftur hennar virtist reyndar vaxa í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem ræddu saman hverju sinni og það hversu oft hún var endurtekin. Fyrst enginn hafði komið aftur hlutu allir að vera meira eða minna á grænni grein, eða hvað? Eða næstum allir, því auðvitað varð að gera ráð fyrir þess háttar hversdagsógæfu sem alls staðar, heima og heiman, gat hrifsað fólk til sín. Slys, ofbeldisglæpir, hamfarir, dóp, drykkjuskapur og annað ámóta voru vissulega óyndislegir hlutir en jafnóumflýjanlegir í mannlegu samfélagi fyrir því: tilviljunarkennd kviksyndi tilverunnar. Vissulega sorgleg örlög en gátu tæplega uppskorið meiri viðbrögð en axlayppingu og bókhaldaralegan svip sem sagði selaví - svona er lífið.

Frímann var sjálfur óviss um það hvað hann ætti að halda um fólkið sem hafði farið og afdrif þess. Hann var kannski hvort tveggja í senn, dálítið gagnrýnni í hugsun (sumir sögðu tortryggnari) og dálítið betur gefinn (sumir sögðu hrokafyllri) en margir í kringum hann. Hver þessara lyndiseinkunna hafði verið notuð um hann, í öllum hugsanlegum samsetningum og í ýmsum tilgangi. Frímann hafði auðvitað orðið var við það og með tímanum hafði þetta gert að verkum að hann var stundum ekki viss hvort hann gæti treyst alfarið á eigið hyggjuvit. Sérstaklega ekki þegar kom að jafnmikilvægum spurningum og hann stóð nú frammi fyrir.

Loks afréð Frímann að gera eins og svo margir á undan honum, að leggja mál sín fyrir S og spyrja hann ráða. Það gat ekki sakað, hann hlaut að ákveða sjálfur hvort hann færi eftir ráðunum eða léti þau sem vind um eyru þjóta.

Hann S getur örugglega hjálpað mér að ákveða mig. Ráð hans virðast hafa reynst svo mörgum öðrum leiðarvísir hingað til, hugsaði Frímann og hélt á fund S.

mánudagur, 5. janúar 2009

Frímann - framhaldssaga (Dálítill formáli)

Ég seildist ofan í hina óeiginlegu skúffu og náði þar í smásögu sem ég skrifaði síðsumars árið 2006. Ég var þá - eða átti að vera - að skrifa kandídatsritgerð í lögfræði, á einhvers konar endaspretti vegna skilafrests sem nálgaðist ört. Það gekk sæmilega og virtist jafnvel geta nást. Þá birtist einn morgun grein í Fréttablaðinu sem ég las og gat svo ekki hætt að hugsa um. Á endanum leiddi hún hreinlega til þess að ég varð að láta ritgerðina til hliðar um sinn.

Ég byrjaði að setja saman þessa sögu. Klukkutímarnir sem ég ætlaði að eyða í það urðu að heilum degi og síðan að rúmri viku. Þá var sagan tilbúin í meginatriðum. Og ég hafði um leið dregið mig úr endasprettinum fyrir útskrift þá um haustið. (Sem skipti reyndar engu máli.) Sagan fékk á endanum titilinn Frímann - framhaldssaga.

Ég sýndi fáum söguna á sínum tíma, bara þröngum hópi. Og sendi hana á eitt dagblað og eitt tímarit með ósk um birtingu. Fékk svar frá tímaritinu. Það var neikvætt um birtinguna. En ekki þó um söguna sem slíka, ef mig minnir rétt. Það var uppbyggilega gagnrýnið og vinsamlegt, eins og von og vísa er frá þeim bænum. Þannig að sagan fór ofan í skúffu. Búin að gegna þeim tilgangi sínum að vera ventill fyrir vangaveltur mínar um þessi efni. Það er í sjálfu sér einn, og alls ekki sísti, tilgangur þess að skrifa. Og ég kláraði ritgerðina.

Það kom mér svo sem ekki mikið á óvart að sagan flygi ekki inn þar sem ég sendi hana. Hún er í lengri kantinum (22 A4 síður með 1,5 línubili og 12 punkta letri) og flæmist hvorki víða í atburðarás né persónugalleríi. Hún er að formi til mestmegnis samtal tveggja manna. Og óhlutbundið og kannski á köflum órætt samtal í þokkabót. Ég ætla ekki að segja til um hvort vit sé í því, hvort þráðurinn haldi. En þarna reyndi ég á minn hátt að tefla saman og vinna úr þeim hugmyndum og hugrenningum sem vöknuðu með mér við lestur greinarinnar úr Fréttablaðinu sem ég vík nánar að hér rétt á eftir.

Ég ætla ekki að japla á því sem fara brátt að verða bragðlausar tuggur og frasar um ástand undanfarinna mánaða. Tek fram að ég á þar við lýsingar á atburðum og ástandi, ekki greiningu á hinu sama eða því sem gera þarf. Maður þarf orðið engan inngang til að fjalla um það, sem er út af fyrir sig stórfínt.

Ég þarf þannig ekki að gera grein fyrir neinu sérstöku samhengi þegar ég segi að hin mjög svo tímabæra umræða sem virðist í startholunum um þau grunngildi og -stefnur sem við viljum að íslenskt samfélag hverfist um og byggist á varð til þess að umfjöllunarefni og leiðarstef sögunnar rifjuðust upp fyrir mér. Ég leit aftur á hana, snurfusaði hana og ákvað að setja hana inn hér. Það geri ég að sjálfsögðu vegna þess að ég vil að hún komi fyrir augu fólks, ef kostur er, og það lesi hana.

Ég stilli mig um frekari lýsingar á efni sögunnar. Er líka almennt frekar lítið fyrir hraðsoðna káputexta og slagorð um skáldskap. Fólk bara les og skilur, eftir vilja og megni. En fyrst ég er búinn að geta um kveikjuna að sögunni og vísa í hana hér fyrir neðan liggur auðvitað í augum úti að óbeint má fá hugmynd um efni sögunnar út frá þessari margnefndu grein.

Mér fannst réttara, vegna skýrleika og samhengis, að geta um greinina þó ég gerði mér vissulega grein fyrir þeim hugsanlega galla að þar með væri of miklu ljóstrað upp. En eins og alltaf er með kveikjur/efnivið og endanlega afurð þá gerist ýmislegt (og stundum allt sem skiptir máli) þar á milli og hin síðarnefnda er þannig alltaf margslungnari en það sem lagt var upp með.

Greinin í Fréttablaðinu birtist á miðopnu þess 4. ágúst 2006 undir fyrirsögninni ...þá leitar hún út um síðir. Höfundur hennar er Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Ég rek greinina ekki efnislega en tengil á hana var að finna hér síðast þegar ég athugaði.

Altso: Hér mun smásagan Frímann - framhaldssaga birtast í nokkrum hlutum á næstunni með nokkurra daga millibili frá og með deginum í dag. Fyrir engan og alla og allt þar á milli. Ég set fyrsta hlutann af sirka sex inn í kvöld. Ég veit að það er ekki æskilegasta formið fyrir sögu að birtast á bloggi. En það er betra en ekkert og ef einhver vill fá söguna í Word-skjali er það sjálfsagt mál. Netfangið mitt er á síðunni.

Ef einhverjum líkar þá endilega látið orðið berast því það er með sögur og lesendur rétt eins og mennina: Segir fátt af einum. Sögur þurfa lesendur og lesendur þurfa sögur og ef annað þykir hæfa hinu þá er rétt og drengilegt að gera sitt til að koma á nánari kynnum.

Síðan sjá hlutirnir venjulega um sig sjálfir. Og allt fer einhvern veginn.