mánudagur, 12. janúar 2009

Frímann - framhaldssaga [2/6]

[Frímann - framhaldssaga, 2. hluti. Sjá nánar formála í færslu dags. 5.1.2009.]

II.

„Velkominn Frímann. Ertu nú búinn að ákveða hvað þú ætlar að verða þegar þú verður stór? Eða vefssst það ennþá fyrir þér, eins og mig grunar?“ spurði S og virtist smjatta á orðunum. Hann benti Frímanni að fá sér sæti á stólkolli í seilingarfjarlægð frá hægindastólnum sem hann sjálfur sat í.

S vætti munnvikin með tungubroddinum. Sá var siður hans þegar hann gladdist yfir einhverju. Yfirleitt gerðist það þegar hann þóttist viss um að hafa rétt fyrir sér. Það var ekki óalgengt vegna þess að S var maður mikillar og algildrar sannfæringar.

Frímann kinkaði kolli. Hann undraðist skarpskyggni S. Kurteisin í svip hans blandaðist lotningu og sá skuggi efa, sem þrátt fyrir allt hafði borið á traust hans á ráðsnilld S, dvínaði stórum.

Það var heitt í herberginu og lítil birta. Í loftinu var sætur og höfugur keimur sem Frímann kom ekki fyrir sig en varð samdauna áður en hann hafði ráðrúm til að kryfja hann frekar. Hann sá innviði herbergisins ekki skýrt vegna rökkursins. Það rétt mótaði fyrir kunnuglegri lögun og útlínum húsgagna, sem þar að auki virtust í dökkum litum. Á gólfinu var þykkt teppi, sem saug í sig fætur bæði fólks og húsgagna. Það virtist jafnvel drekka í sig hljóð, slík var þögnin í herberginu. Ekki var bara að engin hljóð bærust að utan; því hefði mátt koma í kring með ýmsum hætti. Þögnin var önnur og meiri – algerari. Hún var allt að því merkjanleg sem stöðugur ofurlágur hátíðnisónn eða ískur, líkt og undir vatnsyfirborði. Í öllu falli var eins og þau hljóð sem venjulega fylgja mönnum væru ekki til staðar. Ekkert marr í gólfum og innanstokksmunum, enginn þytur í klæðum eða gluggatjöldum, ekkert bank, engin búkhljóð, smellir eða brestir ... Meira að segja orð virtust hljóma skemur en venjulega í þessu herbergi.

Frímann og S sátu þannig þegjandi gegnt hvor öðrum, í skuggsýnu og tímalausu tómarúmi, umluktir algerri þögn og einhverju þyngra og þéttara en lofti. Það var því líkast sem herbergið og allt sem inni í því var væri smágert módel inni í glerhvolfi, líkt og þeim sem höfð eru til skrauts á jólum og innihalda vökva og örlitlar gervisnjóflygsur sem þyrlast upp og umhverfis módelið þegar glasinu er velt við. Hefði þessu herbergi verið velt við á þennan hátt einmitt á þessari stundu er erfitt að segja hvað hefði þyrlast upp af gólfinu, upp úr gólfteppinu þykka og þyrsta. Ef til vill ekki nema ryk og ló, húð- og hárflygsur, tréflísar, smámynt og annað slíkt rusl sem lendir á gólfum húsakynna og treðst niður eða safnast saman með tímanum þar sem umgangur og hreingerningartól ná ekki til. Samt er freistandi að ímynda sér að nokkuð fleira og áhugaverðara hefði flotið upp úr viðjum vefnaðarins með slíkri snöggri og umbyltandi veltu glerhvolfsins. Hvað ef orð hefðu verið þarna innanum, öll orðin sem hlutu að hafa fallið í þessu herbergi eða enduðu þau ekki gólfinu eins og allt annað? Og ef svo hefði verið, ef þessi föllnu og földu orð hefðu þannig þyrlast upp og umlukið Frímann og S eitt andartak áður en aðdráttarafl teppisins endurheimti þau, er þá hugsanlegt að í öllum þeim fuglabjargsklið hefðu eyru Frímanns greint þó ekki væri nema stök orð eða glefsur fyrri samtölum S við fólk í hans sporum?

Þar sem Frímann sat fyrir framan S, þornandi í hálsinum en blotnandi í lófunum, hefði hann að minnsta kosti ekki slegið hendi á móti einhverri vísbendingu eða hugmynd um það hvernig aðrir höfðu borið sig að við sömu aðstæður. En hvort sem orðin voru þarna eða ekki innan um allt ruslið, kom auðvitað ekki til þess að neitt hreyfði við neinu af þessu heldur gerðist það eitt að S ók sér í sæti sínu og hallaði undir flatt, eins og til að ýta við Frímanni, hvetja hann til að rjúfa þögnina, kasta teningnum.

Frímann dró djúpt andann. Hann strauk yfir hrukkað ennið, slétti gljáandi hárið og bjóst til að bera fram erindið.

„Ég get ekki ákveðið mig,“ sagði hann. „Eða réttara sagt: ég veit hvað ég vil helst verða en ég veit samt ekki hvort ég get valið það.“ Hann hikaði dálítið en hélt svo áfram: „Og ég held ég viti líka hvað ég vil ekki verða en ég er samt ekki viss hvort ég get komist hjá því að velja það.“

Hann sagði þessi orð hægt og með óeðlilegri áherslu, sérstaklega síðari hlutann. Það var eins og hann þyldi orðrétt eftir minni upp setningar á tungumáli sem hann skildi ekki. Enda var það nærri lagi. Þessi stirðu orð mörkuðu endastöð hugsunar hans og hugmyndaflugs, framandi stað sem hann hafði einungis náð með ítrustu fyrirhöfn; stað sem hann hafði aldrei komið til áður og gat aðeins reynt að lýsa en ekki ratað um, hvað þá komist lengra áleiðis. Frímanni var nefnilega ýmislegt tamara en að hugsa abstrakt. Meðan hann talaði vandaði hann sig eins og hann gat. Hann starði á stífaðan skyrtukraga S, hnepptan þétt upp í háls, og skrautlegt bindið með stóra hnútnum sem vissi ekki hvað hét og kunni ekki að binda. Um leið og Frímann lauk máli sínu leit hann upp og mætti augum S. Þau sögðu honum hið sama og mild rödd hans:

„Ég held ég skilji hvað þú átt við og hverjir kostir þínir eru, sá góði og sá slæmi. Eða eigum við ekki frekar segja sá sssíðri?“

S rétti úr sér í hægindastólnum, þar sem hann hafði fram að því hallað sér makindalega aftur. Hann mjakaði sér fram í sætinu og skaut út hökunni og brjóstkassanum. Olnbogarnir sköguðu út fyrir bólstraðar armhvílurnar. Fínlegar hendurnar löfðu slakar fram af þeim, eins og framlenging af ljónshrömmunum sem flúraðir voru í viðinn. Hann var í víðri og drifhvítri skyrtu úr fínlega ofnu efni, áreiðanlega silki. Hún bylgjaðist mjúklega með hreyfingum hans. Það hægðist á rödd S. Hún lækkaði og þykknaði og varð þægileg áheyrnar. Augu hans voru blíð og vökul og blikkuðu aldrei.

„Við skulum velta aðeins fyrir okkur saman sagnorðunum að vilja og að velja, Frímann,“ sagði S. Hann talaði hægt og formlega. Raddblærinn var þó á einhvern hátt hvetjandi og allt að því frísklegur, eins og hjá kennara sem kynnir umfjöllunarefni fyrirlestrar í upphafi hans og reynir að glæða strax áhuga nemendanna.

„Það sem við veljum er ekki endilega alltaf það sem við viljum helst og stundum meira að segja það sem við viljum helst ekki. Hér máttu ekki misskilja mig. Þér er auðvitað yfirleitt frjálst að velja það sem þú helst vilt og forðast það sem þú vilt ekki, svo lengi sem þú treður ekki öðrum um tær á meðan. Þessi réttur er, eins og ég vænti að þú vitir, mitt helsta hjartans mál. Enginn getur svipt nokkurt okkar þessum rétti. Honum hef ég helgað líf mitt og alla krafta, öllum stundum. En því miður er það nú svo, til allrar óhamingju, að staða sums fólksss ... “

Hér stoppaði S í miðju kafi, fyrirvaralaust en á yfirvegaðan hátt og án þess að sleppa andanum. Síðasta orðið dó bara út á vörum hans án þess að annað tæki við. Önghljóðið bar með sér örlítinn vott af smámælgi. Svo hjaðnaði stúturinn á vörum hans hægt og rólega og munnurinn lokaðist, eins og hringvöðvi eftirá. Augnsamband þeirra rofnaði ekki þrátt fyrir þögnina, þvert á móti óx það og efldist, líkt og með veldisvexti, þann stutta tíma sem hún varði. Það bar vitni um næmi S fyrir tímasetningu að rétt áður en þögnin fór að jaðra við að verða þrúgandi hélt hann áfram, með nákvæmlega sömu röddu og áherslu, eins og hann hefði aldrei hætt að tala.

„ ... að staða sums fólks í tíma og rúmi er stundum þannig að það sem það vill og það sem það velur getur ekki verið sami hluturinn.”

Frímann hrukkaði ennið en áður en hann náði að segja nokkuð hélt S áfram. Hann talaði nú hraðar og ákveðnar, með vott af óþolinmæði, eins og maður sem hefur lokið við að útskýra flókinn hlut í aðalatriðum og rennir svo yfir formsatriðin í snatri.

„Þú ert skarpur strákur svo við getum leyft okkur stærðfræðislettu. Köllum hið fyrra viljamengið en það síðara valmengið. Ég á við að viljamengið og valmengið hjá sumu fólki eru stundum algerlega óskyld. Viljamengið hjá fólki er getur verið jafnstórt og hugsast skal en ef það felur ekki jafnframt í sér valmengið þá er það í raun ekkert nema draumórar. Það kunna að vera skiljanlegir draumórar; hóflegir, fallegir, sanngjarnir og jafnvel verðskuldaðir draumórar. Það kann að teljast til þess sem nú á dögum er kallað hvorki meira né minna en sjálfsögð mannréttindi! En draumórar eru það engu að síður. Hjá sumu fólki er það því bara valmengið sem skiptir máli. Það er eini raunveruleiki þess. Innan takmarka þess lifir það og hrærist, hvað sem viljamengi þess annars geymir. Hvað þessu fólki viðkemur er því í raun tómt mál að tala um hvað það vill. Það er þýðingarlaust, ef menn vilja á annað borð vera raunsæir. Og það viljum við, ekki satt Frímann? Við erum hér að tala um raunverulega og áþreifanlega hluti, líf þitt og framtíð en stöndum ekki í óráðshjali um staðleysur og loftkastala! Eina raunverulega spurningin fyrir sumt fólk er því ekki hvað það vill, heldur hvað það velur.“

[...]

[Frímann - framhaldssaga heldur áfram föstudaginn 16. janúar.]

Engin ummæli: