miðvikudagur, 21. janúar 2009

Frímann - framhaldssaga [4/6]

[Frímann - framhaldssaga, 4. hluti. Sjá formála í færslu 5.1.2009.]

III.

Frímann fékk á tilfinninguna að ef hann hefði ekki meira að segja þá væri fundi þeirra S þar með lokið. Það sem meira var: hann var viss um að ef hann segði ekki eitthvað þá þegar myndi hann ekki framar fá tækifæri til að leita ráða hjá S. Og Frímann vildi vita meira. Kannski kom það til vegna þess að Frímann var hvort tveggja í senn dálítið ákveðnari – sumir sögðu frekari – og dálítið útsjónarsamari – sumir sögðu ófyrirleitnari – en aðrir í kringum hann. Því var það að hann þurfti ekki að hugsa sig um til að detta eitthvað í hug sem tryggt gat áframhaldandi áheyrn S – það brann þegar á vörum hans. Augu hans leituðu uppi augu S og glímdu þau til sín frá óvissum stað í loftinu. Honum voru í fersku minni viðbrögð S við fyrri spurningu hans um hið sama og einsetti sér því að velja hvert orð af kostgæfni.

„Gæti ég verið einn af þeim sem þú vísaðir til með orðunum sumt fólk?“

Frímanni sjálfum til nokkurrar undrunar reyndust áhyggjur hans og ásetningur um varfærni óþarfi því sjálfkrafa og án umhugsunar orðaðist hin viðkvæma spurning á réttan hátt: hún gaf hvorki til kynna að S gerði mannamun né Frímann sjálfur.

Í fyrsta sinn frá því tal þeirra hófst var sem S væri ekki viðbúinn orðum Frímanns. Hann svaraði ekki strax. Á honum var þó ekki að merkja mikla undrun nema hvað augabrúnirnar lyftust rétt sem snöggvast og brosið flökti aftur á vörum hans.

„Góð spurning, Frímann,“ Hann rétti aftur úr sér í og varð aftur alvarlegur en þó einlægur í bragði:

„En þó hún sé góð get ég ekki svarað henni. Þú einn getur það. Aðeins þú sjálfur veist hvað þú vilt og hvort það geti mögulega ræst gegnum val þitt eða hvort þetta tvennt sé ... hvað skal segja?“ – hann hallaði undir flatt og pírði augun rétt sem snöggvast – „...ekki á sömu bylgjulengd.“

Frímann virtist ekki gera sér svar þetta að góðu og spurði þegar í stað.

„En hvernig get ég komist að raun um það?“

Í þetta sinn stóð ekki á svarinu. Eins og í samtalinu lengst af voru orðaskipti þeirra í slíkri samfellu að þau virtust renna óaðgreinanlega saman í eina og sömu ræðuna.

„Ertu viss um að þú sért ekki þegar búinn að því?“ spurði S. Nú brá fyrir dálítilli skerpu í rödd hans. Hann hallaði sér fram og var nær Frímanni en nokkru sinni þegar hann tók aftur til máls.

„Ég held þú vitir það nú þegar. Værir þú nokkuð að spyrja mig nema þú hefðir áttað þig á að það sem þú vilt er ekki meðal þess sem þú hefur kost á að velja? Ég held að þú hefðir ekki komið hingað nema vegna þess að þér er þetta ljóst. Þú lagðir fyrir mig tvö vandamál í upphafi samtals okkar. Svarið við hinu fyrra var þér í raun ljóst þá þegar, þó það hafi kannski ekki verið þér að skapi. Í raun er það því aðeins seinna vandamálið sem er raunverulegt erindi þitt hingað, ekki satt?“

Frímann svaraði engu. S lét það liggja á milli hluta. Þögn Frímanns virtist honum nægilegt svar. Ákefðin sem vaknað hafði í rödd S vék aftur fyrir skilningi og nærgætni:

„Ef þetta er rétt hjá mér þá held ég að við þurfum að umorða spurninguna dálítið, ekki satt?“

Spurningin hékk í loftinu andartak, án þess að Frímann svaraði, áður en S spurði aftur.

„Hver veit: kannski er það sem þú telur vera vandamál alls ekkert vandamál eftir allt saman. Sum vandamál hverfa við nánari skoðun og íhugun. Það má ekki gleyma því að það sem var satt og rétt í gær er ekki endilega satt og rétt í dag. Það sem var bannað í gær – jafnvel fordæmt – telst sjálfsagt í dag. Núið, okkar veruleiki, sker úr um það sanna og rétta, ekki steinrunnar kreddur fortíðarinnar.“

Frímann kinkaði aftur kolli, en ákveðnar í þetta sinn, eins og hann tæki á sig rögg. Augu hans voru límd við augu S og höfðu fengið á sig slikju, sem fylgt getur löngum störum á sama hlutinn.

Rödd S fékk á sig hlutlausan og formlegan blæ – gerilsneyddan tón hins grandvara en nafnlausa fulltrúa.

„Gott og vel. Áðan urðum við sammála um að það fólk sem velur dauðann fremur en lífið láti stýrast af heimsku, eigingirni eða fáfræði. Til að dæma það ekki of hart skulum við láta heimskuna og eigingirnina liggja á milli hluta. Bæði er, að hvorugur okkar er til þess bær að fella þess háttar dóma yfir öðrum, og raunar ekki nokkur maður. Einnig kemur þar til sú einfalda staðreynd að jafnvel þótt við gætum slegið fastri heimsku eða eigingirni annarra væri lítið við því að gera. Persónulegir eiginleikar, hvort sem er brestir eða kostir, eru bæði ónæmir fyrir og algerlega óskyldir þeim meðölum sem tiltæk eru í umræðu skynsams fólks, nefnilega: rökum. Einbeitum okkur því að fáfræðinni. Því hún er ekki ónæm fyrir rökum, þvert á móti. Hún er einfaldlega skortur sem alla getur hrjáð. Eða öllu heldur: einkenni á slíkum skorti. Fáfræði er ekkert annað en skortur þekkingar – líkt og hungur er skortur matar og syfja er skortur svefns. Þennan skort má seðja og uppræta með rökum og skynsamlegri umræðu. Því fáfræði er ekki óbreytanlegt persónueinkenni nokkurs manns ... – er það nokkuð?“

Frímann hristi höfuðið. Augu hans fylgdu ekki hreyfingunni. Þau voru kyrr, beindust enn sem fyrr að augum S. Í svip hans mótaði fyrir hæglátri sælu þess sem veit sig með vissu nálgast áfangastað, þó nánari staðsetning hans sé honum kannski ekki að öllu leyti kunn.

„Auðvitað ekki!“ S var hálfafsakandi, eins og svarið hefði í raun verið gefið og spurningin aðeins retorísk – eiginlega móðgun við skynsemi þeirra beggja. Hann bætti við, tónninn í rödd hans varð aftur flatur og ópersónulegur, eins og hann læsi tilkynningar í útvarpi:

„Og vegna þess að fáfræði er ekki persónueinkenni eins eða neins er það ekki áfellisdómur yfir nokkrum manni að benda honum á fáfræði hans. Hann hefur jafnframt enga ástæðu til að taka þannig ábendingu nærri sér. Slíkt væri líka fádæma dramb og hroki, að telja sig vera hafinn yfir fáfræðina og þurfa engrar frekari þekkingar við. Allir hafa gott af mat þegar þá svengir, allir hafa gott af svefni þegar þá syfjar og allir hafa gott af meiri og betri þekkingu. Ekki bara þegar hún kemur þeim vel eða staðfestir skoðanir þeirra, heldur hvenær sem er. Þar á meðal, og kannski allra helst, þegar hún stríðir fljótt á litið gegn fyrri sannfæringu þeirra. Eða fordómum.“

Aftur samsinnti Frímann orðalaust, í þetta sinn ótilkvaddur, með því að kinka kolli.

„Þess vegna skulum við einbeita okkur að valkostum þínum, Frímann. Við skulum athuga hvort þú hefur í raun komið auga á þá alla eða hvort hugsanlegt sé að fáfræði þín valdi því að þér hafi yfirsést einhverjir eða ekki gert þér nægilega vel grein fyrir þeim.“

[...]

[Frímann - framhaldssaga heldur áfram mánudaginn 26. janúar.]

Engin ummæli: