mánudagur, 5. janúar 2009

Frímann - framhaldssaga (Dálítill formáli)

Ég seildist ofan í hina óeiginlegu skúffu og náði þar í smásögu sem ég skrifaði síðsumars árið 2006. Ég var þá - eða átti að vera - að skrifa kandídatsritgerð í lögfræði, á einhvers konar endaspretti vegna skilafrests sem nálgaðist ört. Það gekk sæmilega og virtist jafnvel geta nást. Þá birtist einn morgun grein í Fréttablaðinu sem ég las og gat svo ekki hætt að hugsa um. Á endanum leiddi hún hreinlega til þess að ég varð að láta ritgerðina til hliðar um sinn.

Ég byrjaði að setja saman þessa sögu. Klukkutímarnir sem ég ætlaði að eyða í það urðu að heilum degi og síðan að rúmri viku. Þá var sagan tilbúin í meginatriðum. Og ég hafði um leið dregið mig úr endasprettinum fyrir útskrift þá um haustið. (Sem skipti reyndar engu máli.) Sagan fékk á endanum titilinn Frímann - framhaldssaga.

Ég sýndi fáum söguna á sínum tíma, bara þröngum hópi. Og sendi hana á eitt dagblað og eitt tímarit með ósk um birtingu. Fékk svar frá tímaritinu. Það var neikvætt um birtinguna. En ekki þó um söguna sem slíka, ef mig minnir rétt. Það var uppbyggilega gagnrýnið og vinsamlegt, eins og von og vísa er frá þeim bænum. Þannig að sagan fór ofan í skúffu. Búin að gegna þeim tilgangi sínum að vera ventill fyrir vangaveltur mínar um þessi efni. Það er í sjálfu sér einn, og alls ekki sísti, tilgangur þess að skrifa. Og ég kláraði ritgerðina.

Það kom mér svo sem ekki mikið á óvart að sagan flygi ekki inn þar sem ég sendi hana. Hún er í lengri kantinum (22 A4 síður með 1,5 línubili og 12 punkta letri) og flæmist hvorki víða í atburðarás né persónugalleríi. Hún er að formi til mestmegnis samtal tveggja manna. Og óhlutbundið og kannski á köflum órætt samtal í þokkabót. Ég ætla ekki að segja til um hvort vit sé í því, hvort þráðurinn haldi. En þarna reyndi ég á minn hátt að tefla saman og vinna úr þeim hugmyndum og hugrenningum sem vöknuðu með mér við lestur greinarinnar úr Fréttablaðinu sem ég vík nánar að hér rétt á eftir.

Ég ætla ekki að japla á því sem fara brátt að verða bragðlausar tuggur og frasar um ástand undanfarinna mánaða. Tek fram að ég á þar við lýsingar á atburðum og ástandi, ekki greiningu á hinu sama eða því sem gera þarf. Maður þarf orðið engan inngang til að fjalla um það, sem er út af fyrir sig stórfínt.

Ég þarf þannig ekki að gera grein fyrir neinu sérstöku samhengi þegar ég segi að hin mjög svo tímabæra umræða sem virðist í startholunum um þau grunngildi og -stefnur sem við viljum að íslenskt samfélag hverfist um og byggist á varð til þess að umfjöllunarefni og leiðarstef sögunnar rifjuðust upp fyrir mér. Ég leit aftur á hana, snurfusaði hana og ákvað að setja hana inn hér. Það geri ég að sjálfsögðu vegna þess að ég vil að hún komi fyrir augu fólks, ef kostur er, og það lesi hana.

Ég stilli mig um frekari lýsingar á efni sögunnar. Er líka almennt frekar lítið fyrir hraðsoðna káputexta og slagorð um skáldskap. Fólk bara les og skilur, eftir vilja og megni. En fyrst ég er búinn að geta um kveikjuna að sögunni og vísa í hana hér fyrir neðan liggur auðvitað í augum úti að óbeint má fá hugmynd um efni sögunnar út frá þessari margnefndu grein.

Mér fannst réttara, vegna skýrleika og samhengis, að geta um greinina þó ég gerði mér vissulega grein fyrir þeim hugsanlega galla að þar með væri of miklu ljóstrað upp. En eins og alltaf er með kveikjur/efnivið og endanlega afurð þá gerist ýmislegt (og stundum allt sem skiptir máli) þar á milli og hin síðarnefnda er þannig alltaf margslungnari en það sem lagt var upp með.

Greinin í Fréttablaðinu birtist á miðopnu þess 4. ágúst 2006 undir fyrirsögninni ...þá leitar hún út um síðir. Höfundur hennar er Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Ég rek greinina ekki efnislega en tengil á hana var að finna hér síðast þegar ég athugaði.

Altso: Hér mun smásagan Frímann - framhaldssaga birtast í nokkrum hlutum á næstunni með nokkurra daga millibili frá og með deginum í dag. Fyrir engan og alla og allt þar á milli. Ég set fyrsta hlutann af sirka sex inn í kvöld. Ég veit að það er ekki æskilegasta formið fyrir sögu að birtast á bloggi. En það er betra en ekkert og ef einhver vill fá söguna í Word-skjali er það sjálfsagt mál. Netfangið mitt er á síðunni.

Ef einhverjum líkar þá endilega látið orðið berast því það er með sögur og lesendur rétt eins og mennina: Segir fátt af einum. Sögur þurfa lesendur og lesendur þurfa sögur og ef annað þykir hæfa hinu þá er rétt og drengilegt að gera sitt til að koma á nánari kynnum.

Síðan sjá hlutirnir venjulega um sig sjálfir. Og allt fer einhvern veginn.

Engin ummæli: