fimmtudagur, 27. mars 2008

Á bananabeðnum

Ég sá þetta í hálffimm fréttum Kaupþings í fyrradag:
Yfirdráttarlán heimila bera skammtímavexti og hafa því breytingar á stýrivöxtum Seðlabankans strax áhrif á slíka vexti. Í dag standa stýrivextir í 15% og hafa ekki mælst hærri frá því Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið í ársbyrjun 2001. Háir vextir ættu að öðru óbreyttu að draga úr hvata heimila til frekari skuldsetningar. Ekki hefur þó dregið úr yfirdráttarlánum heimila svo marktækt sé og má í raun segja að frá því um mitt árið 2007 hafi slík lán verið fremur með leitni til aukningar í stokknum.
Þetta feitletraða vakti helst athygli.

Svo geta nokkur vel heppnuð goggl fyllt í myndir í kringum þessar flísar sem sitja eftir í kollinum á manni eftir lestur annars gleymds texta.

Samanber þessa frétt úr Mogganum í byrjun mánaðarins (7. mars):
Vélsleðasalan 50% meiri

Sala á vélsleðum hefur gengið vel í vetur og þakka vélsleðasalar það snjónum. Sölumönnum ber saman um að samsetning vélsleðasölunnar sé að breytast. Dregið hafi úr sölu á ferðasleðum en sala fjallasleða aukist. Það bendir til þess að þeim fjölgi sem nota sleðana sem leiktæki í styttri ferðum en að áhugi á löngum vélsleðaferðum hafi minnkað.
Aftur sat þetta feitletraða (fyrirsögnin) í mér.

Um þessar mundir getur maður svo ekki opnað sjónvarpið án þess að sjá Örn Árnason í havaí-skyrtu með málarahatt, sólskinsbrosandi. Hann hallar sér aftur í skræpótta hjólhýsainnréttingu, glaðbeittur og sællegur - gott ef ekki með hanastél með míniatúrregnhlíf, eða er minnið að skreyta myndina núna? - teygir handleggina makindalega eftir bakinu á settinu og dæsir Þetta er bara gaman! eða eitthvað ámóta. Hann er næstum eins og karakter úr David Lynch-mynd, mínus hrollur (og þó, kannski bara öðruvísi hrollur).

Svo á myntin að detta: ...kaupa hjólhýsi kaupa hjólhýsi kaupa hjólhýsi ekki seinna en núna strax á stundinni í einum hvínandi grænum helvítis hvelli helst í gær hvar er nafnspjaldið hjá þjónustufulltrúanum!

Þá brýst eitthvað um í manni sem reynist vera þetta (úr Blaðinu heitnu í sumar, 1. ágúst):
Brjáluð sala í hjólhýsum

Vegna blíðviðris hafa sumarvörur af öllum stærðum og gerðum rokið út úr fyrirtækjum og Íslendingar keppst við að birgja sig upp af vörum sem henta heitasta tíma ársins. Sala hjólhýsa sem og húsbíla og fellihýsa hefur stóraukist og verið með ólíkindum það sem af er sumri.

„Það er búin að vera brjáluð sala og geysileg eftirspurn eftir hjólhýsum," segir Arnar Barðdal, framkvæmdastjóri Víkurverks. Hann bætir því við að hjólhýsin hafi algerlega slegið í gegn hjá þjóðinni, þó einnig seljist talsvert af húsbílum og fellihýsum.

Rúmlega helmingur fólks borgar með bílalánum. Hinir staðgreiða ýmist eða setja gamlan tjaldvagn eða fellihýsi upp í nýtt hjólhýsi og nota það sem útborgun. Hægt er að fá 100% lán fyrir herlegheitunum og margs konar greiðslumöguleikar eru mögulegir.

Þarf að feitletra eitthvað af þessu?

Jæja, nóg af upptalningu. Þessar tilvitnanir segja ákveðna sögu um þjóðarsálina blessuðu.

Er það bara ég eða hefur það ef til vill hent fleiri að setja í huganum stórt upphrópunarmerki við það þegar maður sér að þrátt fyrir gengishrunið, vöruskiptahallann, vaxtabrjálæðið, þensluna og allt það, já þrátt fyrir efnahagsástandið eins og það er og óþarfi er að útmála frekar, er fólk enn ófeimið við að botna yfirdráttinn eins og enginn sé morgundagurinn? Eða getur verið að vilji hafi ekkert með það að gera, að fólk eigi engra kosta völ? Ef svo er er ástandið sannarlega verra en maður hafði ímyndað sér.

Og varðandi þessar auglýsingar sem gera sitt ítrasta til að pranga hjólhýsum og allra handa færanlegum híbýlum inn á fólk: ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að jarðvegurinn sé jafnfrjór og hann greinilega var síðasta sumar miðað við umfjöllunina í Blaðinu hér ofar. Örn Árna eða enginn Örn Árna - kaupir einhver hjólhýsi þegar fasteignin hans, sem kannski var aldrei að neinu leyti í hans eigu, er komin í mínus, jafnvel?

Nema hér sé verið að herja á nýjan markað: á þá sem þurfa að smækka við sig, einmitt af þessum ástæðum. Fínt þá að vera móbæl - eða fljótandi, liquid, svo notuð sé nærtæk líking - og geta kannski flúið með hjólhýsið og fjölskylduna með Norrænu til Danmerkur. Gerst landflótta í smá tíma. Ágætis sósjall í Danmörku náttúrlega og lítið mál fyrir þykkhúðaða Frónbúa að leiða hjá sér Þórðargleðina í Baunanum. Kannski fer maður að sjá beinskeyttari áróður í þessum dúr ef ferðahýsin hreyfast ekki því hraðar af plönunum á næstu vikum. Þá eru þessir gaurar með jafnlangt viðskiptanef og stutt er í siðferðinu.

Er hugsanlegt - svo þetta sé tekið, játa ég fúslega, dálítið yfir strikið - að til verði úr Íslendingum einhvers konar sígaunar Norðurlandanna?

Ætli verði pískrað á götuhornum í Norður-Evrópu í framtíðinni, þegar hjólhýsalestirnar (nú ekki dregnar af Reinsum, Bensum og Krúserum) fara skröltandi hjá:

Þarna fara Íslendingarnir.

Þeir spiluðu rassinn svo rosalega úr buxunum að þegar skellurinn kom varð hann margfaldur: gengið hrapaði, fasteignaverðið líka en vextir og verðbólga stefndu á óendanlegt. Allt í einu voru menn ekki bara skuldugir heldur eignirnar í mínus líka. Innlendir og erlendir bankar eignuðuðust næstum allt á uppboðum eða með innlausnum. Nú er landið eitt risavaxið þrotabú, draugabæir út allt. Bara nokkrir verðir hér og þar, í nætur- og dagvörslu, og menn í brýnasta viðhaldi. Enginn getur keypt eignirnar til baka því bankarnir, sem eru náttúrlega glóbal stofnanir og geta ekki hlustað á neitt þjóðhollustuvæl, þurfa að verja svo háar stöður.

Og hér fara Íslendingarnir.

Ég er jafnmikill formælandi ákvörðunarfrelsis einstaklingsins og hver annar, bæði hvað varðar kaupahéðna og kaupendur, en er til of mikils mælst að fara fram á það að hjól- og fellihýsasalar vakni, hnusi dálítið út í loftið og finni hinn óeiginlega kaffiilm? Þá af hinum vel viðbrennda og malaða efnahag þjóðarinnar? Ef fólk getur látið eitthvað á móti sér eins og staðan er í dag er það að bæta hjólhýsi á hundrað prósent láni á bílaplanið.

Í strangri yfirfærðri merkingu myndi ég segja um þá ágætu menn sem þenja fiðluna sem óðir við núverandi ástand og kreista út úr henni þessa skerandi tóna eins og Radiohead sagði í texta um árið:

When I am king you will be first against the wall.

Engin ummæli: