mánudagur, 3. mars 2008

Fyrirsagnir

Þar til á föstudaginn var besta fyrirsögn sem ég man eftir að hafa séð í íslensku dagblaði fyrirsögn á plötudómi í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum, sem ég held að Skarphéðinn Guðmundsson hafi átt heiðurinn af, um þá nýútkomna plötu hljómsveitarinnar Lands og sona. Þeir gengu með meik í maganum þá - sem er heilbrigður metnaður og ekkert nema gott um það að segja. Höfðu tekið upp plötu á ensku með upptökustjóra sem átti að hafa starfað með hinum og þessum stjörnum. Og hljómsveitarnafnið varð auðvitað að vera tamara á erlendri tungu - Shooting Blanks var sveitin skírð upp, minnir mig.

Fyrirsögn plötudómsins, sem ég man annars ekkert úr, var: Amerískur Hreimur.

Á föstudaginn var þessari fyrirsögn loksins velt úr efsta sætinu. Þá sá ég utan á nýjasta tölublað tímaritsins Frjálsrar verslunar í hillu á Borgarbókasafninu. Þar mun vera löng úttekt á íslensku viðskiptaumhverfi um þessar mundir og hrunið á hlutabréfamörkuðum.

Fyrirsögnin á forsíðunni með úttektinni er: Upp stigann. En niður með lyftunni!

Ég leit ekki í blaðið svo ég veit ekki hver á heiðurinn af þessu, viðmælandi blaðsins eða blaðamaður. En þetta er ekki hægt að kalla annað en list. Verðskuldar stórt kudos.

Engin ummæli: