sunnudagur, 16. mars 2008

Orðakleppur II - Valdbeitingartæki

Þessi orðakleppur er sóttur í sarpinn.

Það bókast hér með að orð(ó)myndin valdbeitingartæki er í besta falli klaufaleg, þokukennd og óþörf ambaga. Í versta falli er hún meðvituð - en vissulega jafnklaufaleg og -þokukennd - leið til að koma sér hjá því að nefna hlutina sínum réttu nöfnum.

Í síðara tilvikinu væri markmiðið væntanlega það að komast hjá eða draga úr því sem mælandinn telur að myndu vera óþægileg viðbrögð annarra við því sem sagt er og þar með að þurfa að takast á við þau. Slíkt eiga þeir ekki að þurfa að óttast sem hafa málefnalega skoðun að verja. Sem skoðunin um að lögregla þurfi að vopnbúast frekar má vissulega kallast - einkum þegar horft er á samhengið í dæminu sem hér um ræðir, sjá neðar - hvort sem fólk er sammála þeirri skoðun eða ósammála.

Kannski er þetta tabú í íslensku samfélagi en það þarf þá bara að snúa það tabú niður eins og önnur, ræða málið málefnalega og (vonandi) komast að málefnalegri niðurstöðu.

Hver sem ástæðan var þá var tönnlast á þessu í nokkurra mánaða gamalli frétt Moggans, frá 12. janúar sl., um árás nokkurra manna á lögregluþjóna við skyldustörf. Hér er niðurlag hennar:
Eitt af því sem nefnt hefur verið til sögunnar lögreglumönnum til frekari verndar er svonefnd rafbyssa, en embætti ríkislögreglustjóra hefur innleiðingu slíkra byssna til skoðunar. Sveinn Ingi Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir félagið vilja leita leiða til að búa betur að lögreglumönnum og nefnir ný valdbeitingartæki í því samhengi.

„Það sem gerðist er fáheyrt, hreinlega nýr veruleiki fyrir okkur og kannski sá nýi veruleiki sem við höfum óttast. Kröfum lögreglumanna varðandi ný valdbeitingartæki til að verja sig mun alla vega fjölga og þær verða háværari í framhaldi af þessu. Það er grundvöllur að starfinu að menn geti unnið sína vinnu án þess að eiga sífellt á hættu að verða fyrir skaða.“

1 ummæli:

Skorrdal sagði...

Ég er gersamlega á móti þessum vopnum, sem hafa verið gagnrýnd af m.a. Amnesty International. Það er auðvitað fáránlegt að við skulum hafa lögreglu sem er að hugleiða þetta, þegar lögreglan í Danmörku vill ekkert með þessi tól hafa.

Lögreglan á Íslandi hefur verið að prófa slík vopn og hefur dómsmálaráðherra þessa lands lengi verið að reyna að sýna fram á nauðsyn þess að taka upp slík vopn. Hef ég m.a. staðið hann að ljúga upp ofbeldi, til að vekja upp umræðu um vopnaburð lögreglu. Tel ég það mun alvarlegra mál.

Til hvers þarf að vopna lögreglu? Er það henni til varnar, eða til að hafa betri stjórn á fólkinu? Þarf að hafa betri stjórn á fólkinu? Hvaða fólki? Öllum, eða bara þeim sem eru glæpamenn? Hvað með mótmælendur? Þarf ekki, eins og dæmin sýna, að hafa stjórn á þeim líka? Falun Gong settir í einangrun - Saving Iceland mótmælendur snúnir niður án sjáanlegrar ástæðu. Kannski það sé frekar markmiðið en að hafa stjórn á nokkrum óróaseggjum niður í bæ á föstudögum. Hver er síðan ábyrgur þegar sá fyrsti deyr af völdum þessara tækja? Ekki hefur hingað til lögreglan verið gerð ábyrg fyrir þeim sem hafa látist í meðförum hennar, og kallað hingað til "æsingsóráðsheilkenni". Kannski er dýpri ástæða að baki en nokkrir reiðir einstaklingar, sem réðust á menn sem höfðu komið illa fram við þá helgina áður. En, blaðamönnum er sama; þeir bara afrita fréttir af lögreglan.is og láta það næja; þeir fá borgað samt.