miðvikudagur, 23. apríl 2008

Ýmislegt um vorið, að komast undan neanderdalsmönnum og apann sem vandar sig

Vorið er komið, eftir nokkur antiklímöx undanfarnar vikur.

Ég sannfærðist endanlega um þetta nú síðdegis þegar ég þurfti ekki annað en hugsa um að ná í grillið upp á geymsluloft til þess að það byrjaði að rigna.

En það verður samt grillað, fjandinn eigi það - já, grillað eins og enginn sé morgundagurinn.

Svo er sumardagurinn fyrsti á morgun og ekki seinna vænna fyrir vorið að smokra sér milli vetrar og sumars.

Talandi um grill: Fyrir þá sem eru eins og ég að kikna undan nístandi leiðindum þess að fylgjast síendurtekið með neanderdalsmönnum öskra sig hása og slá sér á brjóst inni í trukkastóði get ég hiklaust mælt með því að slökkva á sjónvarpsfréttunum og kveikja á Rondó í útvarpinu. Það er sígild rás RÚV á bylgjulengdinni 87.7.

Umskiptin eru eins og ég get ímyndað mér það að vera eina stundina stjórnlaus í blússandi geðrofi, stökkt og molnandi lauf ofurselt minnsta gusti áreitis. Finna sig svo allt í einu inni á deild 33C á Lansanum siglandi ofurfriðsamlega, lygnum sjó, inn í líknandi mók.

Ég gef ekki upp að svo stöddu hvort ég átti með vísuninni til frummennanna við vörubílstjórana eða lögguna. Kannski báða hópana. Verð þó að segja að ég held að löggan sé langt í frá stærsti sökudólgurinn um það hvernig fór í dag. Það er að minnsta kosti mál að þessari vitleysu linni. Ég get hins vegar ómögulega fengið mig til að eyðileggja góða skapið með því að úttala mig nánar um það núna. Kannski geri ég það seinna.

Fleira títt?

Kannski bara það sem ég og annar af tryggustu lesendum þessarar síðu ræddum um á skípinu í gær. Að minnsta kosti annar hinna tveggja tryggu er skyldur mér í beinan karllegg og báðir dvelja í útlöndum. Þeir eiga það aukinheldur sameiginlegt að leggja stund á heimspeki. Þríhyrningurinn er svo fullkomnaður með því að þeir eru einnig í reglulegu sambandi, útlagarnir, og ræða um hugðarefni sín í boði skíp sömuleiðis - hvar heimspeki mun ekki síst vera á döfinni.

Það er kannski ómaksins vert að bera undir hinn óumdeilanlega beina karllegg nokkuð sem bar á góma hjá mér og hinum hugsanlega beina karllegg í gærkvöldi. Ég tek mér m.a.s. það bessaleyfi að gera bera það á torg ef svo má segja. Vitandi að þar er í yfirfærðri merkingu frekar um að ræða eitthvað sambærilegt við Ingólfstorg en t.d. Rauða torgið eða Times Square.

Svo líkingin sé tekin alla leið er ég þá maðurinn sem stend þar stundum á kassa og tala út í loftið. Við sjálfan mig eða stöku vegfaranda eftir atvikum. Hinn hugsanlegi er þá hettupeysudrengurinn sem hangir þar lon og don og rennir sér á bretti. Hinn óumdeilanlegi er maðurinn sem kemur og sest á bekk, þegir og fær störu á meðan hann veltir fyrir sér stórum spurningum. Stendur kannski upp til að fá sér Hlölla þegar svengdin kemur allt í einu óþyrmilega aftan að honum. Splæsir svo í ís á eftir. Sem hann er ekki fyrr búinn með en hann kemst að því að slíkt óhóf er ekki dygðugt og fær nagandi samviskubit. Verður að setjast aftur á bekkinn til að brjóta það til mergjar.

Jæja, hinn hugsanlegi sagði mér að hann og hinn óumdeilanlegi væru ef svo má segja hvor af sínum skólanum í heimspekifræðunum. Hinn fyrrnefndi er að minnsta kosti að hluta hallur undir svokallaða meginlandsheimspeki. Hinn síðarnefndi síður en svo og er analýtíker fram í fingurgóma, blæs á alla frumspeki og vill hafa fast land undir fótum í hverju skrefi. Ég man ekki betur en þeir sem eru ginnkeyptir fyrir svoleiðis séu kenndir við engilsaxneska skólann, eða eitthvað slíkt.

Mér datt þá allt í einu í hug að um þetta mætti kannski nota dæmið fræga um apamergðina sem situr til eilífðarnóns og hamrar á lyklaborð. Sumir segja að það séu stærðfræðileg líkindi, jafnvel vissa, fyrir því að fyrr eða síðar myndi tilviljunin þannig leiða í ljós eitt stykki Hamlet eða álíka meistarastykki.

Ég velti fyrir mér hvort segja mætti að apaskarinn væri þá meginlandsmennirnir, þar sem það er góðlátlega liðið og e.t.v. hvatt til að menn setji næstum hvað sem er niður á blað. Í þeirri von eða vissu að smám saman þokist þeir nær og höndli jafnvel á endanum Þekkinguna (já, með stóru Þ-i).

Engilsaxarnir á hinn bóginn eru bara einn api. Sem vandar sig.

Nú hefur hinn óumdeilanlegi (sem veit hver hann er, þ.e. ef hann er þá ekki kominn því lengra í efahyggjunni) tækifæri til að bregðast við og setja fram yfirvegað álit sitt á þessari líkingu í ummælakerfinu. Eða bara senda mér tölvupóst.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Sæll bróðir,

Ég verð að viðurkenna að ég hugsaði það sama þú þegar ég horfði á fréttirnar. Það veit ekki á gott þegar tveir hópar sem eru sennilega jafn uppfullir af testósteróni og ofbeldishneigð þurfa að ræða málin og komast að skynsamlegri og friðsamlegri niðurstöðu. Þar mætir hart hörðu, sverðið sverðinu, steinninn steininum: frummaðurinn frummanninum. Ætli það séu ekki svipaðar manngerðir í dyravarða-, trukkabílstjóra- og löggumannastétt. Menn sem hugsa fyrst og fremst með upphandleggsvöðvunum. Þeir sem komast ekki í lögguna enda á því að gerast dyraverðir eða trukkabílstjórar. Þarna er stigsmunur á en ekki eðlismunur. Mér fannst fyndið og sorglegt þegar yfirmaður lögreglunnar sagði við fréttamennina að þeir ættu nú bara að bíða og sjá hvernig löggan myndi taka á trukkabílstjórunum. "Við látum verkin tala," sagði hann. Einn trukkabílstjórinn sagði svo, í samningaviðræðunum við lögguna: "Við erum tvöhundruð; við hökkum ykkur." Það var kostulegt að sjá þessi samskipti; þarna hitti skrattinn ömmu sína.