föstudagur, 11. apríl 2008

Orðakleppur V - Veraldartímabil

Vík svolítið út af venjunni hér með því að vera ekki með neitt eiginlegt heimsósómatal um rislítið eða að mínu mati lélegt mál. Og þó - þetta er bara svo furðulegt dæmi að ég veit ekki alveg á hvaða bás á að setja þetta.

Það er frétt á mbl.is um að til standi að stofna minningarsjóð um Vilhjálm Vilhjálmsson. Þar er þessi setning:
Þá hefur Sena gert samning við Minningarsjóðinn um öll verk Vilhjálms út veraldartímabilið.
Veraldartímabilið?

Er þetta nýtt orð yfir eilífð? Eða kannski framtíð, í þessu samhengi?

4 ummæli:

Halli sagði...

Umræddu tímabili hlýtur að ljúka þegar sú veröld sem er líður undir lok.

Veröldin eins og við þekkjum hana mun í það minnsta ekki lifa um alla framtíð.

T.d. hefst "Veröld ný og góð" sú sem Huxley skrifaði um einhverntíman fyrir árið 2500 (sagan gerist í kringum árið 630 eftir Ford).

Samningurinn virðist þessvegna mjög hagstæður þeim niðjum Villa sem verða á lífi við upphaf hinnar nýju veraldar.

eirik sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
eirik sagði...

Ef átt er við eilífðina, þá finnst mér þetta skynsamleg ákvörðun hjá erfingjum Vilhjálms, að binda ekki hendur sínar fram yfir endalok veraldarinnar. Það hljóta einhverjir utan úr geimi að geta boðið betur þegar þar að kemur (enda upphaflegi markhópurinn þá eiginlega horfinn). Kannski verður Villi Vill einhvern tíma spilaður sem lyftutónlist í ormagöngum. Þá verður Bubbi vonandi kominn í svarthol!

Finnur Þór Vilhjálmsson sagði...

Þetta eru skarplegar athugasemdir báðar tvær. Ef þetta orð er tekið bókstaflega er svo sannarlega ekki tjaldað til einnar nætur í samningamálum hjá Senu eða niðjum Villa.

Ég hallast að því að þetta sé einhver bleslinda eða massíf innsláttarvilla hjá blaðamanninum. Í krafti míns júridíska innsæis virðist mér einsýnt að þarna sé ætlunin að vísa til hins höfundaréttarlega hugtaks verndartímabils.

Nema hvað eitthvað hefur skolast til - skolun á skala Skeiðarárhlaups, það er að segja (hvað eru mörg sk- í því?).