þriðjudagur, 1. apríl 2008

Að trúnaðarmála yfir gagnsæið

Á Eyjunni (og annarri hverri bloggsíðu á landinu, þ.e. þeim sem ekki eru að fjalla um stóru meiraprófsmómælin niðri í bæ) er fjallað um för ráðherra og blaðamanna með einkaþotu til Búkarest á NATO-fund. Þar er haft eftir aðstoðarmanni forsætisráðherra, sem svarar fyrir þessa ráðstöfun fyrir hönd ráðherranna:

,,Gréta vildi ekki gefa upp kostnað við leigu vélarinnar og sagði að ákvæði væri í leigusamningi við Icejet um að verðið væri trúnaðarmál."

Mér finnst verulega stór spurning hvort úrskurðarnefnd um upplýsingamál myndi fallast á það sem virðist vera túlkun aðstoðarmannsins á umfangi lögbundins upplýsingaréttar fólks og fjölmiðla að ríkið geti takmarkað aðgang að upplýsingum af því tagi sem hér um ræðir með einföldu samkomulagi við þriðja mann um að upplýsingarnar teljist trúnaðarmál.

Í sjálfu sér er ekki hönd á neinu festandi í þessari stuttu athugasemd aðstoðarmannsins en ég væri til í að sjá nánari rökstuðning hennar eða ráðherranna fyrir því undir hvaða takmörkun í upplýsingalögum nr. 50/1996 þau telja þessar upplýsingar geta fallið og hvers vegna.

Væntanlega mun viðkomandi blaðamaður láta reyna á það.

Nema þetta sé allt saman aprílgabb, eins og einhver í kommentakerfinu á Eyjunni hélt.

Engin ummæli: